Fyrir nokkrum vikum síðan komust úrslit U14 ára liðs Manchester United í fréttirnar. Ástæðan var sú að liðið tapaði 0-9 fyrir Manchester City. Sláandi tölur vægast sagt. Kepptust fréttamiðlar við að skrifa fréttir um að yngri flokka starf Manchester United væri í molum og þar fram eftir götunum. Yngri flokka starfið hefur mátt muna sinn fífil fegurri en þessi úrslit gefa þó ekki alveg rétta mynd af stöðunni.
Þau okkar sem fylgjast með United-tengdu fólki á Twitter tókum eftir grein sem Doron Salomon skrifaði fyrir Stretford End vefsíðuna. Hér að neðan ætla ég að renna í gegnum það helsta úr greininni og birta nokkur áhugaverð tíst tengd yngri flokkum Manchester United.
Varðandi úrslitin í umræddum U14 leik verður að segjast að úrslit á þessum aldri segja oft lítið sem ekkert. Það gleymist þó alveg í umræðunni að á þessum tíma voru margir leikmenn U14 ára liðs Manchester United á að spila með U15 ára liðinu og því voru þetta U13 ára strákar að spila leikinn. Til að setja þetta í samhengi fyrir menn hérna heima er þetta eins og 5.flokkur væri að spila við 4.flokk. Eðlilega er mikill getumunur þarna.
Aðeins mánuði fyrr höfðu liðin mæst með flesta sína menn leikfæra og þá fóru leikar 0-0. Einnig vann U14 ára lið United 9-0 sigur stuttu eftir 0-9 tapið en það gleymdist að fjalla um það. Úrslit á þessu getustigi eru oftar en ekki risastór sökum þess að þetta er ennþá barna-knattspyrna, það er því óþarfi að stressa sig á þeim en það er annað í yngriflokkastarfinu sem stuðningsmenn United ættu að hafa aðeins meiri áhyggjur af.
Staða yfirmanns akademíunnar hefur verið ómönnuð í hálft ár
Brian McClair er nafn sem flestir United stuðningsmenn kannast við, hann spilaði 355 leiki á árunum 1987-1998, ásamt því að skora 88 mörk fyrir félagið. Á undanförnum árum hefur McClair hins vegar verið yfirmaður akademíu félagsins en fyrir hálfu ári síðan hætti hann hjá Manchester United og vinnur hann nú hjá skoska knattspyrnusambandinu.
Stjórn félagsins hafði hins vegar vitað af áformum hans um að hætta í þó nokkurn tíma en samt hefur ekki enn verið ráðinn maður í starfið. Talið er að Nicky Butt sé líklegastur til að taka við starfinu en hann á eftir að skrifa undir samning. Á meðan sinnir hann starfi þjálfara hjá félaginu en hann er til að mynda með U19 ára lið félagsins í Meistaradeild Evrópu fyrir þann aldursflokk, þar spilar U19 ára liðið við sömu félög og aðalliðið í sama fyrirkomulagi. U19 ára liðið náði svo mun betri árangri en aðalliðið í Eindhoven nú á dögunum. Þeir unnu 3-0 sigur á liði sem innihélt einn Íslending, Albert Guðmundsson (son Guðmundar Benediktssonar).
https://twitter.com/DoronSalomon/status/643783894114926592
https://twitter.com/DoronSalomon/status/643825526105358336
https://twitter.com/DoronSalomon/status/643825771597926401
Sagan segir að Sir Alex Ferguson, sem ávallt lagði gífurlega áherslu á yngri flokka starf félagsins, hafi aðeins róast í ellinni og slakað á klónni þegar kom að yngri liðum félagsins. Sama saga segir að David Moyes hafi brugðið þegar hann sá ástandið á akademíunni og hafi hann viljað gera stórtækar breytingar til að koma henni á sama stall og hjá stærstu liðum í Evrópu. Moyes komst þá aldrei í það að breyta akademíunni, af auðsjáanlegum ástæðum. Doron segir ekkert um hvort Louis Van Gaal og núverandi þjálfarateymi, og stjórn félagsins, sé með einhver plön um að lyfta akademíunni á hærra plan.
Farsakennt fyrirkomulag u21-deildarinnar hefur slæm áhrif
Hvað sem þessu líður þá hefur U21 lið United unnið deildina þrisvar á síðustu fjórum árum sem verður að teljast frábær árangur. Þegar horft er á liðið og leikmenn þess er aðra sögu að segja. Það segir ef til vill meira um hversu slök hin liðin eru. Fullt af leikmönnum er spilað út úr stöðu og með komu Van Gaal og hugmyndum að spila mönnum í form með U21 liðinu þá fór fjöldi leikmanna sem tók þátt í leikjum í fyrra yfir 40 ef ég man rétt.
Hvað varðar U18 ára liðið þá er það jákvæðasta við þann hóp að kjarni hópsins er enskur, og frá norðvestur Englandi. Það er mjög jákvætt en félagið stærir sig af því að vera góður stökkpallur fyrir enska leikmenn. Gallar U18 liðsins og skipulagsins í kringum það eru ræddir hér að neðan.
Árangur U21 liðsins má að mínu mati aðallega þakka einum manni. ÞJálfara liðsins, Warren Joyce. Hann er í raun kraftaverkamaður miðað við alla vitleysuna sem hann þarf að díla við í gegnum tímabilið. Til að byrja með er deildarkerfið í U21 deildinni algjör farsi. Ef við skoðum deildarleiki liðsins þá leið meira en mánuður frá því að liðið spilaði við Leicester 10. ágúst og þangað til liðið átti að mæta Chelsea 13. september, en þeim leik var frestað. Þarna inn í eru héraðsbikarkeppnir eins og Lancashire Senior Cup, sem United datt út úr eftir vítaspyrnukeppni í fyrstu umferð.
Venjulega gefur þessi keppni nokkra auka leiki en ekki í ár. Einnig spilar sá hluti af hópnum sem er gjaldgengur í U19 liðið í Meistaradeildinni en hinir þurfa að lifa af með 22 leiki allt tímabilið. Á meðan spila strákar í 2.flokki hérna heima (í A deild allavega) 18 leiki í deild, allavega einn í bikar ásamt sex leikjum eða meira í Reykjavíkurmóti, Faxaflóamóti eða sambærilegu móti. Það er hreinlega galið.
Vegna þess hversu lítill U21 hópurinn er, og U18 ára hópurinn í þokkabót þýðir það að ef menn meiðast þá gæti liðið þurft að fá leikmenn lánaða úr neðri deildum Englands. Andy Kellett sem kom á láni frá Bolton síðasta vetur er gott dæmi. Ritchie De Laet er reyndar dæmi um annan sem kom og átti einfaldlega að styrkja U21 liðið en meiðsli hjá aðalliðinu gáfu honum þann stökkpall sem hann þurfti. Afleiðingin af eins litlum hóp hjá U21 og raun ber vitni er að betri leikmenn liðsins mega ekki við því að missa úr leik. Núna síðastliðinn mánudag spiluðu James Wilson og Jesse Lingaard 90 mínútur gegn Everton í U21 leik og voru þar af leiðandi ekki í hóp hjá aðalliðinu gegn Ipswich í deildarbikarnum á miðvikudegi.
Báðir þessir leikmenn hafa sýnt það á síðustu mánuðum að þeir eru langt á undan því getustigi sem U21 er spiluð á og hafa í rauninni ekkert að gera í þá leiki nema þá til að viðhalda leikformi. Ef það er möguleiki á að spila þeim með aðalliðinu þá þarf að nýta þann möguleika, annars munu þeir staðna. Undirritaður, ásamt mörgum öðrum, rak upp stór augu þegar þeir voru ekki í hóp gegn Ipswich. Ég hefði talið að það hefði verið eðlilegt að kippa þeim útaf í hálfleik gegn Everton, þar sem þeir skoruðu báðir, og spila þeim svo ef til vill í 30-45 mínútur gegn Ipswich á miðvikudeginum. Ég skal hins vegar fyrirgefa Van Gaal ef hann spilar Wilson frá byrjun núna um helgina.
Annað vandamál sem lítill hópur hjá U21 og U18 gerir að verkum er að mikið af leikmönnum er spilað úr stöðu, sem orsakar enn og aftur stöðnun. Miðjumenn eru að spila sem fremsti maður, eða í hafsent til dæmis. Einnig hefur Warren Joyce þurft að neita félögum sem hafa falast eftir leikmönnum U21 á láni. Einfaldlega vegna þess að þá væri liðið engan veginn samkeppnishæft. Samt sem áður eru leikmenn á borð við Tyler Blackett, Will Keane og Ben Pearson á láni. Það er eðlilegt að lána leikmenn út en ef U21 deildin gæfi nægilega marga leiki þá væri ef til vill hægt að lána þessa leikmenn út eftir áramót eða þegar félagið er dottið út úr Deildarbikarnum til dæmis.
Lélegt skipulag á akademíunni
Deildarfyrirkomulag U21 er því ekki að hjálpa Manchester United en það virðist einnig sem almennt skipulag innan félagsins sé ekki nægilega gott. Það að það sé ekki búið að ráða mann í stað Brian McClair er eitt dæmi. Annað dæmi er ef til vill að leikmenn félagsins hafa sent börnin sín í akademíuna hjá erkifjendunum í City frekar en hjá United. Ég man allavega eftir að bæði Darren Fletcher og Robin van Persie voru með drengina sína hjá þessum félögum. Svo er United ekki með kvennadeild svo að dætur leikmanna hafa augljóslega farið annað, en það er efni í aðra grein.
Annað dæmi um skipulagsleysi er leikmaður að nafni Vanja Milinkovic-Savic, ungur serbneskur markmaður sem á að hafa skrifað undir samning við félagið í sumar til 2019. Samt sem áður er hvergi hægt að finna hann á opinberri heimasíðu félagsins og hann var ekki á listanum yfir skráða leikmenn félagsins sem var sendur til knattspyrnusambandsins nú á dögunum. Umrædd heimasíða virðist vera í tómu tjóni en þar er engar fréttir að finna af leikmönnum liðsins sem eru á láni og erfitt að sjá þar hvernig þeir eru að standa sig.
Ekki er nóg með að það sé skipulagsleysi heldur virðist félagið vera of nískt til að keppa við nágranna félög um unga og efnilega leikmenn. Það er vitað að United hefur alltaf nýtt sér ímynd sína þegar kemur að því að semja við unga leikmenn. Félagið var ekki tilbúið að borga mönnum gull og græna skóga og treysti oftar en ekki á að saga félagsins væri nóg til að heilla leikmenn til að semja við sig. Það hefur oftar en ekki virkað en núna, eftir að Sir Alex slakaði á klónni varðandi yngri flokkana virðist félagið ekki vera tilbúið að bjóða skóladrengjum neina auka hvatningu til þess að ganga til liðs við félagið. Þar af leiðandi fór liðið að missa efnilega drengi frá sér til liða á borð við City, Everton og Liverpool. Það virðist sem United sé ekki tilbúið að standa í neinum alvöru samningaviðræðum við drengina, foreldra eða umboðsmenn þeirra.
Doron telur að félagið gæti þurft að auka umsvif sín fyrir utan landssteinana og kaupa efnilega erlenda leikmenn ef það ætlar ekki að falla enn frekar aftur úr hinum stóru liðum Englands.
Sem stendur er U18 ára lið United í 6. sæti með 8 stig, eftir 6 leiki. Nágrannarnir í City eru í fyrsta sæti með 17 stig eftir 7 leiki og Everton í öðru sæti með 13 stig eftir 5 leiki.
Doron telur að það sé ekki of seint í rassinn gripið til að laga þetta en því lengur sem félagið bíður því erfiðara verður verkefnið. Ef marka má orð Louis van Gaal um að hann ætli að skilja eftir sig ungt og sprækt lið fyrir arftaka sinn er þetta eitthvað sem hann og stjórn liðsins þarf að rækilega í gegn.