Fyrsti leikurinn sem maður flettir upp þegar leikjadagskráin er kynnt fyrir hvert tímabil verður spilaður á morgun. Erkifjendurnir í Liverpool mæta á Old Trafford!
Gefum Brendan Rodgers orðið:
https://twitter.com/jamespearceecho/status/642319360695136256
Þetta er hárrétt mat. Sigurvegari leiksins fær kraft í kjölfarið og sá sem tapar þarf að sleikja sárin. Þetta sáum við í fyrra, sérstaklega í eftir seinni leik liðanna. United sigldi Meistaradeildarsætinu heim á meðan Liverpool gaf eftir. Það er því allt öðruvísi stemmning fyrir þessum leik en í fyrra þegar manni finnst United þurfa að sanna það að Liverpool væri ekki búið að taka framúr United eftir frábært tímabil erkifjendanna, tímabilið áður.
Við tókum fram úr þeim aftur á síðasta tímabili og verkefnið, eins og endranær, er að tryggja það að það haldi áfram. Kannski má segja að sálfræðiþátturinn spili enn stærra hlutverk fyrir þennan leik. Liðin eru hnífjöfn með 7 stig eftir 4 leiki og því getur sigurvegari leiksins skilið sig frá þeim sem tapar. Það er sérstaklega mikilvægt núna í byrjun tímabils þegar hvert stig sem tapast eða vinnst virðist telja örlítið meira en venjulega.
Liverpool
Í fyrsta sinn í ansi langan tíma mætir Liverpool án Steven Gerrard á Old Trafford en Rodgers hreinsaði ágætlega til í leikmannahópnum í sumar. Að mörgu leyti finnst mér hann hafa verslað skynsamlega inn þó eins og alltaf megi setja spurningamerki við upphæðirnar sem greiddar voru fyrir suma leikmenn[footnote]Það er þó eitthvað sem við stuðningsmenn United höfum líklega ekki efni á að setja út á *hóst*Martial*hóst*[/footnote].
Rodgers tæklaði helsta vandamál Liverpool á síðasta tímabili með því að kaupa Benteke og Ings en það var allt að því pínlegt að horfa á sóknarleik Liverpool á síðasta tímabili með Balotelli fremstan í flokki. Þessir tveir leikmenn hafa báðir reynst okkur óþægur ljár í þúfu og geta koma með aðra vídd í sóknarleik Liverpool þó hún hafi kannski ekki alveg sýnt sig.
Firmino, staðgengill Raheem Sterling, hefur ekki sýnt mikið það sem af er tímabili enda þurfa Brasilíumenn yfirleitt smá aðlögunartíma. Þar fyrir aftan kom Milner inn fyrir Gerrard sem verður að teljast ágæt skipti, Milner er alltaf solid og Gerrard var kannski kominn á síðustu metrana eins og sást þegar liðin mættust á Anfield í vor.
Þeirra besti maður hefur þó líklega verið fyrirliði liðsins, Jordan Henderson, sem hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár. Hann glímir þó við meiðsli og það mun standa tæpt hvort að hann geti spilað leikinn á morgun. Það eru góðar fréttir fyrir okkur enda mun þetta veikja miðju Liverpool umtalsvert. Hann er afskaplega duglegur, bæði sóknarlega og varnarlega og það verður ágætt að vera laus við þennan leikmann.
Varnarlega hafa Joe Gomez og Nathaniel Clyne komið sterkir inn í bakvarðastöðurnar en miðvarðastöðurnar halda áfram að vera spurningamerki hjá Liverpool. Dejan Lovren átti martraðarleik gegn West Ham um síðustu leiki og Sakho virðist ekki fá traustið. SKRTL hefur þó staðið vaktina og reddað félaga sínum í miðverðinum.
Úrslit Liverpool hafa verið áþekk úrslitum okkar manna. Í fyrstu tveimur umferðum nældu þeir sér í tvö 1-0 sigra, gerðu 0-0 jafntefli í næsta leik áður en þeir fengu 3-0 útreið gegn West Ham
Okkar menn
Stóru fréttirnar hjá okkur eru auðvitað þær að DAVID DE GEA SKRIFAÐI UNDIR NÝJAN SAMNING Í DAG! Við getum því hætt að hafa áhyggjur að markvarðastöðunni og smellt besta markverði heimsins í dag í rammann á nýjan leik. Þökkum Sergio Romero fyrir hans framlag.
https://twitter.com/manutd/status/642329425808359424
Varnarleikur liðsins hefur verið það skásta við þetta tímabil hingað til. Bakverðir okkar hafa verið gríðarlega öflugir ásamt miðvörðum okkar. Þeir fá auðvitað mikla hjálp frá miðjumönnum okkar enda hafa Schweinsteiger, Carrick og Schneiderlin verið að rótera fyrir framan vörnina okkar. Það er auðvitað fáranlega öflugur varnarveggur en það hefur bitnað á sóknarleik okkar. Maður veltir því fyrir sér hvort að LvG hafi hreinlega ekki treyst Romero í markinu og því ákveðið að vörnin þyrfti meiri hjálp en ella?
Nú mun De Gea snú aftur í markið þannig að ef til vill er tilefni til þess að blása örlítið til sóknar? Fyrr í vikunni komu fréttir af því að Carrick og Rooney hefðu farið á fund Louis van Gaal með kvartanir frá leikmannahóp félagsins um að bæta þyrfti sóknarleik liðsins.
Þessu hefur auðvitað verið slegið upp á þá leið að allt sé að springa hjá United en miðað við fregnir virðist það ekki vera rétt. Þarna fóru varafyrirliðinn og fyrirliðinn á fund stjórans, enda hafa þeir ‘special-priviliges’ eins og LvG hefur orðað það. Hann hefur einnig gefið það út að hann sé alltaf tilbúinn til þess að hlusta á leikmenn sína hafi þeir nógu góð rök fram að færa. Við vonum að þeir félagar, Rooney og Carrick, hafi sannfært stjórann um að kannski mætti losa aðeins um tauminn í sóknarleiknum.
Phil Jones virðist hafa jafnað sig af blóðtappanum sem hrjáði hann en það er ólíklegt að hann komi beint inn í liðið. Ég spái því að Marouane Fellaini komi inn í liðið enda átti hann stóran þátt í sigri okkar á Anfield á síðasta tímabili. Einnig væri ég til að sjá Herrera koma inn fyrir Carrick og þar með gætum við átt Schweinsteiger inn þegar staðan er orðin 2-0 og það þarf að sigla þessu heim. Annars verður liðið líklega óbreytt.
Martial verður á bekknum, tilbúinn til þess að sprengja leikinn upp ef þess þarf. Lykilbaráttan í þessum leik mun eiga sér á tveimur vígstöðum.
- Benteke vs. Smalling/Blind. Hann mun líklega reyna að líma sig á Blind eins og hægt er. Það er mikilvægt að Smalling reyni að koma í veg fyrir það.
- Fellaini vs. miðja/vörn Liverpool. Fellaini olli miklum usla á Anfield með því að draga miðju og vörn Liverpool úr stöðu. Það skapaði pláss fyrir sóknarlínu United. Mikilvægt vopn.
Þessir tveir leikmenn munu gegna svipuðu hlutverki í leiknum á morgun. Þeir munu draga í sig leikmenn og reyna að opna pláss fyrir samherja sína. Þetta verður úrslitaatriði í leiknum á morgun.
Louis van Gaal hefur ágætis tak á Brendan Rodgers og ég er ágætlega bjartsýnn. Árangur LvG í stóru leikjunum er feiknarlega góður og ég held að það verði engin breyting á því á morgun.
Spái 2-0 sigri. Mata skorar fyrri mark leiksins áður en Chris Smalling stangar boltann inn eftir horn í seinni hálfleik. Schweinsteiger kemur inn og siglir þessu heim áður en Martial fær smjörþef af enska boltanum!
Leikurinn er á morgun kl. 16.30.