Það eru 495 dagar síðan við skrifuðum upphitun fyrir leik Manchester United í Meistaradeild Evrópu. Það var fyrir seinni leik United við Bayern München í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar tímabilið 2013/2014. David Moyes var við stjórnvölinn og þökk sé honum hafa aðeins þrjár færslur (fjórar með þessari) bæst í flokkinn Meistaradeild Evrópu hér á síðunni frá því að liðið datt úr keppninni á vormánuðum 2014.
Það var erfitt að vera án Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili en á morgun mun þetta frábæra lag hljóma á Old Trafford á nýjan leik eftir. United er mætt aftur í Meistaradeildina.
Áður en að dregið verður í riðlakeppnina þarf félagið að sigra belgíska félagið Club Brugge í tveimur leikjum. Sá fyrri fer fram á morgun og verður spilaður á Old Trafford. Verkefnið er einfalt, ná í þægilegan og öruggan sigur.
Club Brugge
Club Brugge er eitt af sigursælustu liðum Belgíu. Það hefur unnið flesta bikartitla allra liða þar og aðeins Anderlecht státar af fleiri deildartitlum. Club Brugge hefur einnig náð góðum árangri í Evrópukeppnum í gegnum tíðina, það er t.d eina belgíska liðið sem hefur komist í úrslitaleik forvera þeirrar keppni sem spilað verður í á morgun. Árið 1978 fór liðið alla leið í úrslitaleik Evrópukeppni Meistarahafa en tapaði því miður gegn Liverpool, tveimur árum áður kepptu þessi lið einnig um UEFA-bikarinn en því miður, aftur, tapaði belgíska félagið þeim leik.
Club Brugge lenti í efsta sæti belgísku deildarinnar á síðasta tímabili en þar sem fyrirkomulag deildarinnar er alveg gjörsamlega fáránlegt vann liðið ekki belgíska meistaratitilinn. Nei, efstu sex liðin fara semsagt í umspil um titilinn þar sem hvert lið byrjar með þann stigafjölda sem það fékk úr innbyrðis viðureignum liðanna. Þau leika svo við hvert annað í deildarfyrirkomulagi, heima og að heiman. Gent sem stóð uppi sem sigurvegari í umspilinu en andstæðingar okkar á morgun máttu sætta sig við annað sæti.
Það þýddi að líkt og okkar menn þurfa Brugge-menn að fara í gegnum umspil ætli þeir sér sæti í riðlakeppninni. Belgarnir hófu þó leik örlítið fyrr en okkar menn eða í síðustu umferð. Þar mættu Panathinaikos og verandi staðsett í hjarta ESB fóru þeir tiltölulega illa með Grikkina, 4-2 samanlagt.
Belgíska deildin hófst frekar snemma og fór fyrsta umferðin fram 24. júlí sl. Eftir fjórar umferðir er liðið í öðru á markatölu með sjö stig en fjögur önnur lið eru einnig með sama stigafjölda. Liðið er búið að vinna tvo, tapa einum og gera eitt jafntefli. Líkt og United átti Brugge leik á föstudaginn þar sem liðið lagði KV Kortrijk 2-1.
Ég ætla ekki að reyna að halda því fram að ég þekki einhverja í þessu liði. Það eina sem ég veit er að Eiður Smári tók auðvitað nokkra leiki með liðinu fyrir ekki svo löngu. Maður kannast þó aðeins við þjálfarann, markmanninn Michel Preud’Homme, sem var einn af betri markmönnum heimsins þegar ég var að byrja að horfa á fótbolta. Hann hefur þjálfað í Belgíu, Hollandi og Sádi-Arabíu en er líklega best þekktur fyrir að gera Standard Liege nokkuð óvænt að Belgíumeisturum árið 2008. Þar spilaði Marouane nokkur Fellaini undir stjórn hans og Preud’Homme talaði fallega um Belgann okkar fyrir leikinn á morgun:
Meeting Fellaini again will be special. He is looking forward to it. When I returned to my office from the training pitch after the draw I received a text message from Marouane which said: ‘Good luck.’ I immediately replied with: ‘You too, haha.’ I always had a good bond with him. After all, he is one of my lads. The mutual respect is huge between us. He certainly has not forgotten that I launched his career at Standard.
Manchester United
Okkar menn hafa gert það sem var krafist af þeim í leikjunum tveimur hingað til og ekki mikið meira en það. Þetta hafa ekki verið miklar flugeldasýningar en sex stig og ekkert mark fengið á sig er ágætis niðurstaða úr fyrstu leikjunum. Það að við höfum bara skorað tvö mörk hingað til er þó áhyggjuefni. Ég er þó á því að leikformið spili mikið inn í það enda virðist vera augljóst að okkar menn, margir hverjir, séu ekki komnir í 100% leikform. Kannski ekki skrýtið þar sem enginn leikmaður fyrir utan Samuel Johnstone kláraði 90 mínútur á undirbúningstímabilinu.
Þessvega er það eiginlega bara ágætt að fá þessa tvo umspilsleiki inn í dagskránna núna til þess að koma mönnum í betra stand. Svo ég haldi því til haga finnst mér það alls ekki einskorðast við United að leikmennirnir séu ekki í fullu formi í upphafi móts eins og sjá má t.d. á Chelsea og jafnvel Tottenham. Aston Villa menn virtust t.d. alveg vera sprungnir eftir rúman klukkutíma. Leikurinn á morgun og í næstu viku er því fínt tækifæri til að ná upp leikformi hjá þeim leikmönnum sem þurfa á því að halda.
Svo er þetta einnig kjörið tækifæri til þess að gefa einhverjum af þeim leikmönnum sem ekki hafa verið að spila tækifæri. Ég er reyndar á því að ekki eigi að hrófla við öftustu fimm enda algjörlega nauðsynlegt að þeir nái að mynda með sér tengingu. Það er svo afskaplega mikilvægt og eitthvað sem aldrei tókst á síðasta tímabili vegna meiðsla. Á miðjunni má þó rótera og ég væri il í að sjá Schweinsteiger og Herrera byrja þennan leik. Framar mætti Januzaj byggja á ágætri frammistöðu gegn Villa um helgina auk þess sem að það væri gaman að sjá Pereira fá mínútur. Það er algjörlega nauðsynlegt að Rooney spili 90 mínútur til þess að byggja upp formið sitt en hann hefur virkað ansi þungur í fyrstu leikjunum. Liðið ætti því að vera einhvernveginn svona:
Club Brugge hefur spilað fleiri leiki en United og það gæti haft sín áhrif. Lið eins og United á þó alltaf að labba í gegnum lið eins og Brugge og allt nema þægilegur heimasigur sem svo gott sem tryggir okkur sæti í riðlakeppni verða vonbrigði.