Liðið var að mestu eins og búist hafði verið við. Romero spilaði ekkert fyrir Sampdoria eftir áramót, en lék hins vegar alla leiki Argentínu í Copa América í júní og júlí og var því í einhverju leikformi.
Jones var ekki í hóp, spurning þá hvort hann sé meiddur. Januzaj ekki heldurí hóp, og þá veltir maður fyrir sér hvort hann sé að fara til Sunderland á lán.
Varamenn: Johnstone, Valencia, McNair, Schweinsteiger, Herrera, Pereira, Hernandez
Liðið hjá Tottenham var svona:
Spurs hófu leikinn á að spila boltanum í vörninni á móti hápressu, en fengu síðan frábært færi á fimmtu mínútu þegar Kane vippaði nett inn fyrir vörnina, Eriksen lét Smalling ekkert trufla sig og ætlaði að vippa yfir Romero en skotið fór yfir. Ekki mjög vel gert, hvorki hjá Smalling, né Romero sem átti að vera fljótari á móti. United átti mjög erfitt með að halda boltanum en Spurs gerðu það mun betur. Schneiderlin og Carrick sem ættu að vera að dóminera miðjuna gerðu það alls ekki. Spurs voru hins vegar að gera sig líklega og sendingar þeirra innfyrir bakverðina voru að ógna rækilega. United hins vegar voru varla búnir að komast upp að teig fyrir utan eina fyrirgjöf Darmian sem Vorm tók. Það var því rækilega gegn gangi leiksins að United skoraði.
United komst inn í sendingu á miðjunni, Memphis fékk boltann, gaf upp á Young sem óð upp að teig, gaf fyrir, Rooney var aleinn og hélt hann hefði tíma til að leggja hann fyrir sig en Kyle Walker kom í hann en Walker gekk ekki betur en svo að leggja boltann snyrtilega í markhornið framhjá Vorm. Virkilega fallegt sjálfsmark
United höfðu ekki átt skot á mark en voru samt komnir yfir, ekki hægt að kvarta undan því.
Liðið frískaðist mjög við þetta, Memphis fór að sýna meira og reyna að opna Spursvörnina. Spurs hætti að ógna að ráði og besta færi United var skot Mata úr teignum. Það fór framhjá. Annars var fátt að gerast, hraðinn í leiknum var ekki mikill.
Seinni hálfleikur byrjaði ekki mjög líflega. Fljótlega tóku Spurs Bentaleb útaf og settu Mason inná. Bentaleb hafði verið mjög slakur og átti slöku sendinguna sem United skoraði upp úr.
Twitter var ekki mjög ánægður með Romero í markinu, enda tæpur þegar hann var með boltann við fæturnar. Romero átti samt ágæt inngrip þegar aukaspyrna kom inn á teiginn, ef hann hefði sleppt því að fara í þann bolta hefðu tveir Tottenham menn verið fríir.
Bastian Schweinsteiger varð svo fimmti leikmaðurinn til að leika sinn fyrsta leik fyrir United í dag, hann kom inn á fyrir Carrick á 60. mínútu. Sem dæmi um hvað þetta var dræmt kom fyrsta skot hálfleiksins á 65. mínútu, það átti Young eftir ágæta fyrirgjöf og framlengingu frá Rooney.
Næsta skipting var Memphis út og Ander Herrera inn og fór beint í holuna. Memphis hafði átt fínan leik, duglegur og hreyfanlegur. Leikurinn breyttist ekkert við þessa skiptingu og var áfram óspennandi. Darmian hafði verið fínn í bakverðinum og kom verulega vel upp kantinn en kominn með krampa og Valencia kom inná til að vernda forystuna enn frekar. United voru samt líklegri mestan hluta hálfleiksins, allt þar til á síðustu mínútum leiksins þegar Tottenham setti meiri kraft í sóknina og átti hættulegar sóknir. United slapp þó og fór með sigurinn í klefann.
Þessi leikur var alls ekki skemmtilegur á að horfa. Liðið byrjaði afspyrnuilla og það var ekki fyrr en við fengum gefins mark að þeim tókst að ná upp spili. Það var eftirtektarvert að nýju mennirnir voru meðal þeirra bestu í dag. Memphis og Darmian voru ágætir sem fyrr segir, Schneiderlin óx inn í leikinn og Schweinsteiger var strax farinn að stjórna á miðjunni. Romero var mjög óöruggur þegar hann var með boltann sem fyrr segir, en varði nokkrum sinnum aflveg þokkalega.
Smalling var sterkur í vörninni en aðra þarf varla að nefna, utan að það verður að minnast á að Rooney átti dapran dag. Hann var hreinlega ekki nógu fljótur til að hjálpa til við þann hreyfanleika sem kerfið krefst af honum.
En sigur í erfiðum fyrsta leik er vel þeginn, þrátt fyrir allt var United betra liðið mestan hluta leiksins og átti stigin skilin þrátt fyrir að þetta hafi verið streð á köflum. Það er tæp vika í næsta leik og nógur tími til að koma leikmönnum í betra form og betri leikskilning. Svo er aldrei að vita að eitthvað skýrist í leikmannamálum.