Það er aðeins rétt rúm vika búin af sumarglugganum en samt má auðveldlega greina pirring frá stuðningsmönnum yfir því hvað lítið sé búið að gerast. Það er svo sem eðlilegt. Louis van Gaal lýsti því yfir að hann vildi að búið væri að ganga frá leikmannakaupum áður en liðið héldi til Bandaríkjanna. Það styttist óðum í ferðina og það lítur allt út fyrir þetta markmið Van Gaal muni ekki nást.
Fyrsta skrefið var þó stigið núna þegar United tilkynnti um kaup á Matteo Darmian, landsliðsmanni Ítalíu og bakverði Udinese. Þessi kaup komu nokkuð á óvart enda lítið sem ekkert búið að orða þennan ágæta leikmann við Manchester United síðustu mánuði [footnote]Sem gefur kannski til kynna hvað ensku blaðamennirnir sem fylgja United vita í raun lítið um áætlanir United í sumar? [/footnote]
Það kom hinsvegar ekkert á óvart að United væri á höttunum eftir hægri bakverði. Frá janúar-mánuði hafa ensku blöðin reglulega birt greinar um hvaða stöður ætti að styrkja í sumar: Markmaður ef De Gea fer, reynslubolti í miðvörðinn, miðjumann eða tvo og hægri bakvörð. Viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Rafael virðist algjörlega rúinn trausti enda byrjaði hann síðast leik í október og þrátt fyrir að hafa staðið sig að mörgu leyti ágætlega þarf eitthvað betra en Antonio Valencia í þessa stöðu.
Lengi vel virtist Nathaniel Clyne vera helsta skotmark United í þessa stöðu enda var nafn hans iðulega í öllum þessum SVONA-GÆTI-UNITED-STILLT-UPP-Á-NÆSTA-TÍMABILI greinum. Hann átti 1 ár eftir af samningi, er ungur og enskur og var einn af betri bakvörðum síðasta tímabilis. No brainer í rauninni og ég held að flestir hafi farið að reikna með honum til United í sumar. Clyne skipti hinsvegar um umboðsmann í maí og eftir það urðu dálksentimetrarnir sem skrifaðir voru um Clyne til United að millimetrum.
Hann endaði hjá Liverpool eins og allir vita og af einhverjum ástæðum missti United áhugann á Clyne, hvort sem að það er vegna þess að LvG og félagar töldu hann ekki henta liðinu eða þá að Clyne og umboðsmaður hans hafi orðið pirraðir á því að United skyldi fara að eltast við Dani Alves? Kannski var áhugi United jafnvel aldrei fyrir hendi, bara blöff, því að Sky Italia greinir frá því að United hafi unnið með umboðsmanni Darmian síðastliðna 4 mánuði í því að koma þessum kaupum í gegn:
https://twitter.com/omldzamani/status/618725076767232000
Hvað um það. United vantaði hægri bakvörð og nú er leitinni lokið. Matteo Darmian er á leiðinni til Manchester United. Þessi fjölhæfi leikmaður kostar um 14 milljónir punda sem verður að segjast að það virðist vera afskaplega gott verð fyrir ítalskan landsliðsmann á besta aldri.
Matteo Darmian er fæddur þann 2. desember 1989 sem gerir hann 25 ára gamlan. Hann fæddist í smábænum Legnano í N-Ítalíu [footnote] Skemmtileg staðreynd: Nafni Legnano bregður fyrir í textanum við þjóðsöng Ítalíu. Það er heiður sem bærinn deilir einungis með Rómarborg. Við Legnano fór fram mikill bardagi árið 1167 þar sem Langbarðabandalagið vann sigur á Friðriki Barbarossa. Sjálfstæðishetja Ítala, Garibaldi, vitnaði mikið til þessa sigurs í baráttu sinni í að sameina Ítalíu á 19. öld. [/footnote], skammt frá Mílanó-borg. Það var enda hjá AC Milan sem okkar maður steig sín fyrstu skref.
AC Milan
Hann gekk til liðs við unglingastarfið hjá AC Milan árið 2000, þá aðeins á 11. aldursári. Það var faðir Ignazio Abate[footnote]Kaldhæðnislegt þar sem Abate er nú helsti keppinautur Darmian um stöðu í ítalska landsliðinu.[/footnote], Beniamino Abate, sem uppgvötaði Darmian og kom honum til liðs við AC.
Hann fékk nokkur tækifæri með Milan á meðan hann var þar en á þessum tíma var lið Milan alveg einstaklega vel mannað undir stjórn Carlo Ancelotti. Hann kom inn á sem varamaður í bikarleik aðeins 16 ára gamall árið 2006 og spilaði sinn fyrsta leik í Serie A ári seinna. Framtíð hans virtist björt því tímabilið 2007/2008 var hann gerður að fyrirliða u-19 ára liðs AC Milan og tók jafnframt þátt í þremur leikjum með liðinu í deildinni.
Síðastliðin ár hefur AC Milan þó líklega verið þekkt fyrir allt annað en að gefa ungum og efnilegum leikmönnum tækifæri og Darmian varð fórnarlamb þess, ásamt leikmönnum á borð við Luca Antonelli, Alberto Paloschi og Pierre Emerick Aubeymang sem voru liðsfélagar okkar manns í unglingaliðum Milan og hafa allir átt frambærilegan feril hjá öðrum liðum eftir að hafa verið látnir fara frá Milan.
Darmian var lánaður til Padova í Serie B árið 2009 og spilaði alls 20 leiki fyrir liðið á tímabilinu en liðið var í miklu basli og slapp naumlega við fall. Ítalir eru svolítið furðulegir þegar kemur að leikmannakaupum og fyrir tímabilið 2010/2011 keypti Palermo 50% af leikmanninum fyrir 800.000€ og flutti hann sig því um set.
Palermo
Darmian hóf ferilinn sem miðvörður en var á þessum tíma búinn að færa sig í bakvarðarstöðuna. Tími hans hjá Palermo fer seint í sögubækurnar en hann spilaði 11 leiki í Serie A ásamt því að fá smjörþefinn af því að spila í Evrópudeildinni. Á þessu tímabili hjá Palermo var hann talsvert meiddur og það var fátt sem benti til þess að hann myndi verða byrjunarliðsmaður í ítalska landsliðinu í framtíðinni, hvað þá að vera í dag á leiðinni til stærsta félagslið heimsins. Palermo endurnýjaði þó sameiginlega eignarhaldið á Darmian við Milan og var hann lánaður frá Palermo til Torino fyrir tímabilið 2011/2012.
Torino
Það var hjá Torino sem hann sló í gegn og fór að vekja athygli. Margir leikmenn hefðu kannski gefist upp enda nýkominn til liðs við annað Serie B lið eftir að fengið fá tækifæri hjá Milan og átt ekkert sérstök tímabil með Padova og Palermo en hann hafði trú á sjálfum sér og neitaði að gefast upp. Það var augljóslega eitthvað í hann spunnið enda hafði hann spilað með öllum yngri landsliðum Ítalíu. Hjá Torino blómstraði hann og var lykilmaður í 3-5-2 uppstillingu liðsins. Þar spilaði hann sem vængbakvörður og hjálpaði þessu fornfræga liði að komast aftur upp í Serie A.
Þetta Torino-lið var bráðskemmtilegt og vel mannað með menn eins og Angelo Ogbonna, Alessio Cerci og Ciro Immobile innanborðs. Undir styrkri stjórn Giampiero Ventura tókst að rétta við gengi þessa forna stórveldis og liðið komst aftur í Evrópukeppni og festi sig í sessi í efri hlutanum í Serie A.
Darmian spilaði mikilvægt hlutverk sem vængbakvörður í 3-5-2 kerfi Ventura. Á sínu öðru tímabili átti Darmian flestar tæklingar allra leikmanna í topp-5 deildunum í Evrópu. Torino keypti hlut Palermo fyrir tímabilið 2013/2014 og á því tímabili vann hann sig inn í ítalska landsliðið þar sem hann tók þátt á HM í Brasilíu, eitthvað sem kom honum á óvart:
If you’d told me eight months ago that I’d be playing in the World Cup, I would have burst out laughing. It was a childhood dream, but, honestly, I didn’t think I’d get here. Since getting my first call-up, though, I’ve given everything while staying humble. I want to make the most of this opportunity.
Hann vakti verðskuldaða athygli á HM þrátt fyrir lélegt gengi Ítala sem komust ekki upp úr riðli sínum. Hann þótti spila sérstaklega vel í eina sigri Ítala í keppninni þegar þeir lögðu Englendinga, 2-1. Hann stíflaði sóknarleik Englendinga með því að vera duglegur að fara framar á völinn þannig að framherjar Englands þurftu að elta hann til þess að hjálpa sinni vörn. Hann og Antonio Candreva unnu einkar vel saman og komust oft í 2v1 á móti Leighton Baines enda kom sigurmark Ítala upp úr nákvæmlega þannig stöðu.
2014 var sérstaklega gott ár fyrir Darmian, á sínu fyrsta ári í ítalska landsliðinu var hann valinn landsliðsmaður ársins auk þess sem hann var kosinn í lið ársins í Serie A. Hann var orðaður við brottför frá félaginu en Torino hafði þegar misst þrjá af sínu bestu mönnum en Ogbonna, Cerci og Immobile héldu allir á brott. Eins og stjórnarformaður Torino, Urbano Cairco, sagði nýlega var einfaldlega ekki hægt að hleypa honum í burtu fyrir síðasta tímabil:
I told Matteo Darmian last year after the World Cup that if offers arrived for him I could not sell him then. We had already transferred Immobile and Cerci and I could not afford to lose another excellent player in our squad.
But I promised him that we would review his situation this summer. Football is like this and it’s normal that an extraordinary man like Matteo Darmian wants to try to win the UEFA Champions League.
Nú er Cairo búinn að efna loforð sitt og eftir að hafa spilað 156 leiki fyrir Torino á 4 tímabilum er Matteo Darmian orðinn nýjasti leikmaður Manchester United. Hann gaf þó aðdáendum Torino fallegar kveðjugjafir. Hann skoraði fyrsta mark Torino í fyrsta sigri liðsins á erkifjendunum í Juventus í heil 20 ár og var mark hans aðeins eitt af þremur mörkum sem Torino hefur skorað gegn Juventus frá árinu 2002.
Manchester United
Mönnum brá svolítið þegar fréttir af kaupunum á Darmian fóru að brjótast út. Fæstir vissu eitthvað um þennan leikmann og enginn hafði haft tíma til að kynna sér hann vegna þess að enginn vissi að United væri á eftir honum. Það er þó ýmislegt sem stendur upp úr þegar maður skoðar hann aðeins nánar. Svona var síðasta tímabil hjá honum:
Hér sést bersýnilega hvað maðurinn er fjölhæfur. Hann getur léttilega spilað í báðum bakvarðarstöðunum auk þess sem hann getur leyst af í miðverðinum enda hóf hann ferilinn þar. Þetta er auðvitað mikill kostur og gæti reynst dýrmætt ef meiðslavandræði varnarinnar fara aftur á stjá. Hann er líklega betri kostur í vinstri bakvarðarstöðuna en Blind og Rojo sem geta þá einbeitt sér að því að bæta sig í sínum stöðum.
Hann er þó fyrst og fremst keyptur til þess að spila í hægri bakverði og þar mun hann líklega keppa við Antonio Valencia. Darmian hefur ýmislegt upp á bjóða umfram Ekvadoran okkar og þar ber helst að nefna að hann er hreinræktaður varnarmaður, hefur spilað þar alla sína tíð. Valencia leysti verkefnið ágætlega en er auðvitað kantmaður að upplagi og það sást oft á tíðum. Darmian er jafnframt tiltölulega jafnvígur sem býður upp á góða möguleika sóknarlega en það er ekki til leikmaður í heimsboltanum í dag sem er jafn einfættur og Valencia. Að þessu leyti er Darmian hrein og klár uppfærsla í hægri bakvarðarstöðuna.
Til þess að glöggva sig á þessu enn frekar er gagnlegt að bera saman helstu tölfræðiþætti hjá Darmian og Valencia. Ég bætti einnig inn Clyne og Coleman sem áttu einnig að hafa verið á radarnum:
Í fyrsta lagi fyrir Liverpool-mennina sem eru að lesa þetta þá stendur upp úr að hann er betri í öllum tölfræðiþáttum en Clyne! Að auki er hann með betri tölur en allir þessir leikmenn í sköpuðum færum og lykilsendingum sem bendir til þess að hann sé tiltölulega hættulegur fram á við. Varnartölurnar hans eru einnig sambærilegar við Coleman og Valencia.
Það blasir því við hvað hann virðist vera öflugur sóknarlega sem er eitthvað sem hefur klárlega vantað upp á hjá Valencia. Darmian hefur einnig spilað sem vængbakvörður þannig að hann er vanur því að þurfa að bera ábyrgð á öllum kantinum sem þýðir það að hann er sprenglærður í því að bomba fram til að styðja sóknina og að þurfa að vera mættur aftur í vörnina. Svo má ekki gleyma því að hann er mjög snöggur og ágætlega stór eða 1.82 sentimetrar.
Tor-Kristian Karlsen ætti að vera lesendum þessarar síðu góðkunnur. Hann veit að landar sínir í Noregi hafa gaman að enska boltanum og henti því í nokkur tíst á norsk um Darmian. Hann hafði nokkurn veginn þetta að segja:
Kostir: Góður í hápressu, mjög snöggur að bera boltann upp og koma honum í spil, fjölhæfur enda getur hann spilað báðum megin. Tekur oft inverted over-lap, það er að segja að hann fer inn fyrir kantmanninn á meðan kantmaðurinn heldur sig við hliðarlínuna [footnote] Mætti kalla það öfugan Gary Neville? [/footnote]
Gallar: Ef til vill ekki nógu sterkur einn á móti einum í vörninni, á það til að vera út úr stöðu vegna þess hve ákaft hann pressar andstæðinginn og gjarn á það að fá á sig aukaspyrnur.
Niðurstaða: Gætu reynst mjög góð kaup enda erfitt að finna bakvörð í dag sem er jafnvígur í vörn og sókn, sérstaklega á þessu verði.
Ég hef ekki séð hann spila af ráði og því er erfitt fyrir mig að fella einhvern lokadóm um hvort hann muni slá í gegn. Hann hefur líklega aldrei spilað undir viðlíka pressu og hann mun upplifa sem leikmaður Manchester United. Það er einfaldlega allt annað dæmi en hann er vanur auk þess sem hann er að flytja í nýtt land og er ekki með neinn samlanda með sér líkt og Herrera og Mata & co. Þetta gæti því orðið erfiðir fyrstu mánuðir hjá honum en það er þó frábært að fá hann með í Ameríkuferðina til að hrista hann saman við hópinn.
Þegar allt er tekið saman, verðið, launin og hvernig leikmaður hann er virðist þó vera óhætt að taka undir orð Jonathan Wilson, sá mikla spekings:
If United land the Italian, they are getting a reliable, versatile defender. It’s an addition of expertise they’ve been in need of.
Þetta er nákvæmlega málið, við virðumst vera að fá solid leikmann á mjög góðu verði. Hann á kannski ekki eftir að lýsa upp heiminn en það er hvort sem er ekki hlutverk bakvarða. Með kaupunum á Darmian þarf ekki lengur að treysta á leikmenn sem ekki eru bakverðir að upplagi. Hann ætti því að styrkja vörnina okkar og það er því erfitt að vera annað en ánægður með kaupun á Matteo Darmian, það þarf nefnilega ekki að kaupa leikmenn fyrir 40 milljónir í allar stöður.