Skv heimildum Sky Italia hafa Manchester United og Torino komist að samkomulagi um kaupverð á ítalska landsliðsbakverðinum Matteo Darmian en það er talið vera um 13 milljónir punda. Darmian er 25 ára og getur leikið í hægri og vinstri bakverði ásamt því að vera frambærilegur kantmaður.
Leikmaðurinn kemur úr akademíu AC Milan en hann lék aðeins 4 leiki fyrir Milan. Árið 2010 fór hann til Palermo sem keypti 50% hlut í Darmian og lék hann þar í eitt tímabil þar sem hann kom aðeins við sögu í 11 leikjum.
2011 var förinni heitið til Torino á láni en liðið lék þá í Serie B. Það tímabil endaði með því að Torino komst aftur í efstu deild. Árið 2013 keypti liðið hlut Palermo í Darmian og varð hann því alfarið leikmaður Torino. Allt í allt hefur Darmian leikið 152 leiki fyrir Torino.
Matteo Darmian hefur leikið með öllum yngri landsliðum Ítalíu. Einnig á hann að baki 13 A-landsleiki fyrir þjóð sína, þar á meðal 3 leiki á HM í Brasilíu. Árið 2015 var hann valinn besti landsliðsmaður Ítalíu fyrir árið 2014.
Hér er samantekt yfir helstu afrek hans á síðasta tímabili:
https://www.youtube.com/watch?v=jzMUvP8fM6Q&feature=youtu.be
Eins og stendur er þetta enn á slúður stiginu en fréttirnar eru að koma úr ýmsum áreiðanlegum áttum. *Staðfest* ætti að koma í dag eða á morgun ef þetta er raunverulegt.