Eftir ansi rólega tíð hjá okkar mönnum virðist eitthvað alvöru vera að leka upp á yfirborðið. Blaðamaðurinn Sid Lowe sem verður að teljast ansi örugg heimild um allt sem tengist spænskum fótbolta greinir frá því í Guardian í gær að United hafi formlega óskað eftir því að Sergio Ramos yrði að koma til Manchester United ef Real Madrid vill fá David de Gea.
Samkvæmt Sid Lowe hefur United þegar hafnað fyrsta boði Real Madrid í De Gea sem var bara eitthvað grín, 18 milljónir evra eða tæplega 13 milljónir punda. Persónulega hefði ég viljað að United hefði svarað því með að segja við Real Madrid: Við svörum ykkur ekki fyrr en þið eruð komnir í kringum 30 milljón pundin sem er að mínu viti algjört lágmarksverð fyrir David de Gea.
Hvað um það, eftir að United hafnaði fyrsta boði Real fóru forsvarsmenn spænska félagsins á fund til United þar sem þeir óskuðu eftir því að forráðamenn okkar manna myndu einfaldlega nefna verð sitt: Hvað kostar David de Gea? Þeir áttu von á frekar einföldum fundi en ég er gríðarlega ánægður með að heyra að Woodward og co settu Madrídar-mönnum skilyrði og það er það sem var áður nefnt: Sergio Ramos til United verður að vera hluti af kaupum Madrid á De Gea.
Sé þetta satt er ég er mjög ánægður með þett, fyrst og fremst vegna þess að ég hef það á tilfinningunni að forráðamenn Real Madrid haldi að þeir muni fá De Gea bæði ódýrt og auðveldlega. Ég vil að þessi kaup verði sársaukafull fyrir Real, annaðhvort á þann veg að þeir þurfi að borga hátt verð eða þá að við fáum toppleikmann frá þeim, helst bæði.
Ég hef áður sagt að United hefur í raun engu að tapa í þessu máli. Ef Real ætlar sér að borga undir 20 milljónir fyrir De Gea er alveg eins gott fyrir United að halda honum í eitt tímabil og leyfa honum svo að fara frítt næsta sumar. Hann verður hvort sem er að standa sig vel ætli hann sér að standa í marki Spánar á EM næsta sumar. Honum gæti líka snúist hugur á þeim tíma enda er hann víst ekkert sérlega spenntur fyrir því að starfa með Rafa Benitez, lái honum það hver sem vill.
Hvort að Sergio Ramos hefur áhuga á að koma til United er annað mál, hann á einungis 2 ár eftir af samningi sínum og það er víst óvanalegt að Real-menn bíði svo lengi með að semja við stjörnunar sínar. Hann er á besta aldri, aðeins 29 ára, frábær varnarmaður sem kæmi með alveg ótrúlega mikla og góða reynslu inn í vörn okkar. Ég gæti því vel sætt mig við að skipta á Ramos og De Gea.
VIð þetta er síðan að bæta að Cadena COPE útvarpsstöðin sem þykir þokkalega áreiðanleg þegar kemur að leikmannamálum heldur því fram að Real Madrid sé sátt við að láta Ramos fara í sumar, ef nægilega gott boð finnst, og að þeir séu ekki til í að láta að launakröfum hans. En eins og alltaf, þó þetta sé rétt núna, þá er vika langur tími í fótbolta eins og í pólitík og það er ekkert fast í hendi. Að sama skapi gæti þetta verið komið frá umboðsmanni Ramos, við höfum nú ágæta reynslu af því að toppleikmenn kyndi undir áhuga United til þess eins að fá betra samningstilboð frá sínu liði.
Annars er lítið annað að frétta af leikmannamálum. Það hefur verið smá slúður um Schweinsteiger en það er líklega aðallega byggt á því að Lothar Matthaus tjáði sig um að Bastian ætti endilega að drífa sig til United. Vonandi er þó eitthvað til í þessu því að Þjóðverjinn með þýskasta nafn allra tíma gæti verið frábær kostur á miðjuna. Eitthvað hefur jafnframt verið rætt um að Nani sé á leiðinni til Tyrklands en enn og aftur, ekkert frá neinum áreiðanlegum.
Copa America er svo í fullum gangi þar sem við eigum okkar fulltrúa og þar ber helst að nefna Marcos Rojo og di Maria. Með þeim er einnig Nicolas Otamendi, varnarmaður Valencia sem hefur verið sterklega orðaður við United það sem af er sumri. Hann birtir nú varla mynd af sér á Instagram án þess að hann sé með þeim Rojo eða Di Maria.
Gracias crack por la visita ⭐️⭐️⭐️⭐️⭐️ Ramiro A photo posted by Twitter Oficial: @Notamendi30 (@nicolasotamendi30) on
Vísbendingar? Hver veit.