Það eina sem er að frétta er að það er eiginlega ekkert að frétta.
*uppfært* Og þó. Þetta var að gerast:
Dani Alves has signed a new contract at Barça until 2017. Option for a third season, too.
— Andy Mitten (@AndyMitten) June 9, 2015
Dani Alves hefur verið sterklega orðaður við United á undanförnum vikum en nú er ljóst að af því verður ekki. Einhverjir munu anda léttar en þarna er þó á ferðinni góður leikmaður sem vissulega hefði styrkt United. Miðað við sögusagnir sem hafa verið í gangi frá því í janúar er alveg á krystaltæru að félagið er að leita sér að nýjum hægri bakverði. Nú er spurningin hvort að menn snúi sér aftur að Nathaniel Clyne? Hann hefur verið sterklega orðaður við United í allan vetur en áhuginn á víst að hafa kólnað, ef til vill vegna þess að menn töldu sig geta nælt í Alves?
*/uppfært*
Helsta slúðrið snýst allt um David de Gea og að United vilji fá að kaupa einhvern af bestu leikmönnum Real Madrid í skiptum fyrir að selja De Gea í sumar. Sjáum hvað setur en AS á Spáni segir að United sé ekki í miklum samningaham hvað varðar David de Gea:
Man United playing hardball on De Gea, saying not for sale even with contract situation. Benzema or another could sweeten things. [AS]
— Sport Witness (@Sport_Witness) June 6, 2015
United hefur í raun engu að tapa hér. Ef Real Madrid ætlar sér að fá De Gea ódýrt er alveg eins gott fyrir United að halda De Gea eitt tímabil í viðbót og leyfa honum svo að fara frítt þegar samningurinn rennur út. Hann yrði hvort sem er að standa sig vel á næsta tímabili með United ef hann ætlar sér að vera markmaður nr. 1 hjá Spáni á EM 2016.
Hvað um það. Í augnablikinu er verið að orða alla helstu leikmenn heimsins við United og það er ómögulegt að greina hvað af því er bull og hvað af því gæti innihaldið sannleikskorn. Við treystum því bara að Woodward & co séu að vinna hörðum höndum að því að klára leikmannakaupin.
Annars er auðvitað landsleikjavika um þessar mundir og nokkrir af leikmönnum United hafa verið að spila fyrir landslið sín:
Helst ber að nefna að Marouane Fellaini gekk frá Frökkum á Stade de France á sunnudaginn. Hann skoraði fyrstu tvö mörk leiksins og lagði upp það þriðja en leikar fóru 4-3 fyrir Belga í hörkuleik.
Angel di Maria var einnig í stuði gegn Bólivíu en undirbúningur argentíska landsliðsins vegna Copa America stendur nú yfir. Di Maria bar fyrirliðabandið og skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í 5-0 sigri Argentínu-manna. Marcos Rojo spilaði einnig allar 90 mínúturnar.
Wayne Rooney, Chris Smalling og Phil Jones spiluðu fyrir England í drepleiðinlegum leik gegn Írlandi sem endaði 0-0. Smalling og Jones spiluðu 90 mínútur en Rooney í 76.
Memphis Depay skoraði eitt og lagði upp eitt í 3-4 tapi Hollendinga gegn Bandaríkjamönnum á föstudaginn. Markið hans var nokkuð skrautlegt.
Andreas Pereira er jafnframt að spila með u20 ára liði Brasilíu á HM u20 sem fer fram um þessar mundir í Nýja-Sjálandi. Riðlakeppnin er að klárast og Brasilía vann sinn riðil nokkuð auðveldlega. Pereira hefur staðið sig vel og komið við sögu í öllum þremur leikjum Brasilíu hinga til. Hann hefur skorað eitt mark og lagt upp tvö. Brasilía mætir Úrugvæ í 16-liða úrslitum á fimmtudaginn. Verður spennandi að sjá hvaða hlutverk Pereira fær á næsta tímabili en hann er tvímælalaust einna mest spennandi leikmaðurinn sem er að koma upp úr unglingastarfinu hjá United um þessar mundir.
Það eru fleiri landsleikir framundan og svo vonum við að einhverjar alvöru hreyfingar í leikmannamálum fari að sjást á næstu dögum eða vikum.