Tímabilinu er lokið og það kallar bara á eitt: UPPGJÖR! Við byrjuðum á því að taka upp podkast-þátt í gær þar sem við ræddum leikmannahóp liðsins og við munum rúlla út uppgjörsgreinum af ýmsu tagi á næstu dögum. Við byrjum á því að fara yfir þá leikmenn sem gengu til liðsins fyrir þetta tímabil auk þess sem að við tökum létta yfirferð yfir þá leikmenn sem fóru út á láni. Bjössi, Sigurjón og Maggi láta ljós sitt skína í dag og fara yfir þessi mál öll saman fyrir okkur hin.
Leikmannakaup
Daley Blind
Bjössi:
Leikmaður sem var keyptur undir lok gluggans þegar ljóst var að ekki fengist annar. Við vorum alltaf með það á hreinu að þetta væri varamaður á innkaupalistanum sem alltaf væri hægt að fara í að kaupa ef þyrfti og svo kom í ljós. Blind var augljóslega hugsaður sem varaskeifa og altmuligmand sem gæti spilað bakvörð, miðvörð eða afturliggjandi miðjumann. Hann hefur aðallega þurft að skila bakvarðarstöðu eða miðjustöðu og gert það þokkalega. Hann er samt enginn Carrick á miðjunni og Luke Shaw er líklega betri bakvörður, og jafnvel Marcos Rojo líka. Ef innkaupin í sumar skila sínu þá verður hann aðeins aftar í röðinni næsta vetur og mun þurfa að stíga allverulega upp til að komast að.
Niðurstaða: Viðunandi kaup, skilaði því sem búist var við
Maggi:
Blind var einn af þessum gæjum sem maður bjóst alltaf við að yrði keyptur. Það gerðist bara í rólegheitum síðustu daga sumargluggans. Drengurinn er vissulega frambærilegur miðjumaður og vinstri bakvörður. Hann er vissulegur ungur og hefur ekki sama hæfileika til að lesa andstæðinginn og Michael Carrick. Hann lenti í leiðinlegum meiðslum á tímabilinu en hefur átt góða spretti. Framtíðarstaða hans í liðinu verður svona örfættur John O‘Shea. Svona leikmaður sem getur kóverað nokkrar stöður á vellinum en slíkir menn eru algjör nauðsyn hjá liði sem ætlar að berjast á öllum vígvöllum. Hann kostaði ekki mikið en menn eru líklega mjög sáttir við hans framlag.
Sigurjón:
Daley Blind er flottur leikmaður sem ég er mjög sáttur með að United hafi keypt. Ég tel að við munum sjá hann mest megnis sem vara-vinstri bakvörð sem getur hlaupið í aðrar stöður ef vantar, enda mjög fjölhæfur leikmaður. Ég sé hann svolítið eins og Phil Neville/Ji-Sung Park týpuna, spila helling á hverju tímabili en ekki vera einn af okkar allra mikilvægustu leikmönnum.
Ángel di María
Bjössi
Mest spennandi kaupin og mestu vonbrigðin. Eftir fríska byrjun hefur Ángel verið frekar brokkgengur og hefur hreinlega misst sætið í liðinu enda hefur Ashley Young staðið sig frábærlega. Hann hefur samt átt 10 stoðsendingar í vetur, fleiri en aðrir síðan Valencia tók 13 fyrir nokkrum árum. Ég vil halda Di María og held að sú verði raunin, eina ástæðan fyrir því að hann myndi fara er ef kaupa á inn einhvern á borð við Gareth Bale og losa þarf aðeinsum peninga og laun. Hef enn fulla trú á honum.
Maggi:
Di María átti gjörsamlega frábært tímabil í fyrra hjá Real Madrid. Um sumarið var hann algjör lykilmaður í liði Argentínu sem komst í úrslit heimsmeistarakeppninnar í Brasilíu. Eftir komu James til Real fór allt slúðrið að fjalla um örlög Di María. Lengst af var búist við að hann færi til PSG en vegna FFP varð ekkert úr því. Það var því rosalega spennandi þegar United keypti þennan heimsklassa leikmann. Kaupverðið var vissulega hátt en svona leikmenn fara ekki á mikið minna.
Hann fór vel af stað og var frábær í fyrstu leikjum sínum hjá United þegar liðið var að spila meiri sóknarbolta. En LvG fór að vera varkárari eftir hrunið gegn Leicester. Síðan þá hefur hann ekki náð sér almennilega á strik. Reyndar lenti hann og fjölskyldan í því að reynt var að brjótast inn til þeirra og líklega hefur það haft eitthvað að segja. Ángel er heimsklassa leikmaður sem á töluvert mikið inni og vill örugglega sanna það að hann sé alls ekki flopp.
Sigurjón:
Ég er sallarólegur yfir Di María. Hann átti auðvitað tímabil sem hægt væri að titla sem „vonbrigði“, þó svo ég kannski líti ekkert endilega á það sem þannig. Hann sýndi stórkostlega takta til að byrja með og ég hef engar áhyggjur yfir því að hann sé búinn að missa þá hæfileika, hann þurfti bara tíma til að aðlagast boltanum og lífinu í Englandi. Hann mun fara í gott sumarfrí núna í sumar og mæta svo aftur á fullu gasi á næsta tímabili. Þangað til, ekkert stress.
Radamel Falcao
Bjössi:
Æ æ æ, hvað getur maður sagt? Það var alltaf vitað að meiðslin hefðu verið honum erfið og það hefur reynst svo. Hann hefur aldrei náð sér á strik og oftast þegar hann hefur fengið tækifæri hefur hann verið að hlaupa í eyður og bjóða sig án þess að nokkurn tímann fá sendingar. Eigum alls ekki að sjá eftir að hafa fengið hann, þetta var tilraun sem mistókst og það er ekki ástæða fyrir að kaupa pilt á 40m. punda.
Maggi:
Mikið svakalega er leiðinlegt hvernig fór fyrir Falcao hjá Manchester United. Hann var allur af vilja gerður og lagði sig alltaf vel fram. Þessi skelfilegu meiðsli hans hafa tekið mikið frá honum. Honum var ekki hjálpað mikið af þeim sem áttu að leggja uppá hann því Falcao var oft að reyna eitthvað en fékk svo ekki boltann. Ég vona að hann muni komast í eitthvað lið á Spáni eða á Ítalíu og muni raða inn mörkum vegna þess að hann virðist vera prýðispiltur.
Sigurjón:
Ein mestu vonbrigði sem ég hef upplifað í fótbolta. Ég veit ekki hvar ég á að byrja eða enda með Falcao. Ég var svo himinlifandi með komu hans að ég sá fyrir mér 20+ marka tímabil frá honum. Þó svo hann hafi aldrei náð sér á strik þá hélt ég í vonina alveg fram í mars að hann myndi fara í gang. Það varð þó aldrei og ég Falcao ævintýrið sem ég sá fyrir mér (næsti Ruud van Nistelrooy) verður því miður aldrei að veruleika.
Ander Herrera
Bjössi:
Líklega bestu kaup sumarsins í fyrra. Eftir að hann loksins skildi hlutverk sitt í liðinu og Van Gaal fór að treysta honum fyrir því þá hefur hann iðulega verið einn af bestu mönnunum. Skorar skemmtileg mörk og býr til spil. En mér finnst hann þurfa góðan mann með sér, í vetur hefur það verið Carrick og á næsta ári væri ekkert slæmt að sjá hann með Gündoğan eða Schweinsteiger sér við hlið. Framtíðarmaður.
Maggi:
Ég er rosalega hrifinn af þessum strák. Eftir sirkusinn í fyrra var mjög ánægjulegt að sjá þessi kaup afgreidd snemma sumars. Hann lék mjög vel fyrir liðið í Ameríkuferðinni og loksins var United með miðjumann sem horfði fram fyrir sig. Honum tókst erfiðlega að komast inn í liðið um mitt tímabilið en vann sig svo aftur inn með glæsibrag. Hann ásamt Mata og De Gea var eflaust með fyrstu nöfnum á blað. Hlakka virkilega til að sjá hvaða menn verða með honum á miðjunni á næsta tímabili.
Sigurjón:
Frábær kaup og hugsanlegt að við séum að horfa hér upp á arftaka Paul Scholes, eitthvað sem ég hélt að myndi aldrei gerast. Gefum honum þó tíma, hann var góður á þessu tímabili (þegar LVG fór að treysta honum) og hann á bara eftir að verða betri. Verður athyglisvert að sjá hver mun partnera með honum á næsta tímabili í 4-3-3 miðju.
Marcos Rojo
Bjössi
Flottur varnarmaður. Búinn að vera einn stöðugasti slíkur í vetur, þó það sé ekki mikið sagt. Ég býst frekar við að hann fái fast sæti í liðinu á næstu árum frekar en Smalling eða Jones og það verður áhugavert ef félagi hans úr landsliðinu, Nicolás Otamendi kemur honum til halds og trausts.
Svo er hann líka ágætur vinstri bakvörður.
Maggi:
Frábær leikmaður þegar hann spilar. Vonandi að hann hristi þetta meiðslavesen af sér og verði lykilmaður hjá okkur næsta tímabil. Hann verður flottur í hjarta varnarinnar með Smalling eða einhvern nýkeyptann hvort sem það verði Otamendi eða einhver annar. Hann getur líka leyst vinstri bakvörð sem er mikill plús.
Sigurjón:
Mér líst vel á Marcos Rojo og hef trú á því að þarna séum við með framtíðar miðvörð, það verður hinsvegar að fá meiri stöðuleika í þessa stöðu og þangað til er svolítið erfitt að átta sig á því hvort það verði hann og Smalling, nú eða hann og einhver nýr leikmaður, eins og Nicolás Otamendi. Í versta falli væri hægt að spila Rojo í vinstri bakverði þegar Luke Shaw er fjarverandi og Blind er í öðrum verkefnum.
Luke Shaw
Bjössi
Hefur átt upp-og-ofan tímabil en það sem sést hefur af honum gefur mér enga ástæðu til annars en að vona að þarna séum við að horfa á vinstri bakvörðinn okkar næstu 10 ári. Á bara eftir að verða betri.
Maggi:
Hefur leikið vel þegar hann er frískur en það hefur ekki verið oft þetta tímabilið. Ef hann fær góða hvíld í sumar og vel heppnað pre-season þá mun ég ekki hafa neinar áhyggjur. Shaw gæti þess vegna orðið okkar vinstri bakvörður næstu 10-12 árin.
Sigurjón:
Luke Shaw stóð sig bara mjög vel í vetur þegar hann var laus við meiðsli. Hlakka til að sjá hann hlaupa upp og niður vinstri kantinn næstu 10 árin, hann gæti verið okkar næsti Denis Irwin.
Útlán í vetur
Eftirtaldir leikmenn voru lánaðir í lengri eða skemmri tíma:
- Ben Pearson til Barnsley FC
- Sam Johnstone til Doncaster Rover
- Sam Johnstone til Preston
- Tom Cleverley til Aston Villa
- Ben Amos til Bolton
- Reece James til Rotherham
- Reece James til Huddersfield
- Vanja Milinković-Savić til Vojvodina
- Will Keane til Sheff Wed
- Joe Rothwell til Blackpool
- Michael Keane til Burnley (seldur)
- Nick Powell til Leicester City
- Wilfried Zaha til Crystal Palace (seldur)
- Jesse Lingard til Derby
- Javier Hernández til Real Madrid
- Nani til Sporting
- Ángelo Henríquez til Dinamo Zagreb
Bjössi
Af þessum er búið að selja Zaha og Michael Keane. Af hinum eru afskaplega fáir sem eiga sér endurkomu auðið. Leicester sendi t.d. Powell til baka, gat ekki notað hann og hann virðist alveg týndur. Henríquez er búinn að vera skora og skora og er ánægður í Serbíu og ólíklegt að hann komi til baka.
Þeir Pearson, James, Rothwell, Will Keane og Jesse Lingard verða að öllum líkindum á samningi næsta vetur, en miðað við ætluð leikmannakaup í sumar þá mega þeir búast við að fara út á lán. Rothwell er yngstur þeirra og á meiri séns en hinir, en það er erfitt að sjá einhvern þeirra brjóta sér leið inn í liðið.
Maggi:
Held að örlög langflestra þessara leikmanna séu ráðin. Nick Powell verður pottþétt seldur en honum gengur hrikalega illa að sanna sitt ágæti. Jesse Lingard er spurningarmerki en það kæmi mér ekki á óvart að hann yrði lánaður og/eða seldur í sumar eða í haust. Ben Amos er örugglega að fara og yrði Championship-deildin líklegur áfangastaður eða eitthvað af liðunum sem komu upp núna í vor. Nani og Hernandez verða mjög líklega seldir og líklega bara til hæstbjóðanda.
Angelo Henriquez hefur aldrei spilað fyrir aðallið Manchester United og það mun ekkert breystast því hann verður pottþétt seldur í sumar. Pearson, Rothwell, Johnstone og Milinkovic-Savic eru spurningarmerki. Annar hvor af Milinkovic eða Johnstone verða lánaðir en hinn verður líklega þriðji markvörður United. Pearson og Rothwell munu fara aftur á lán. Reece James fékk nokkra leiki í haust en ég er nokkuð viss um að hann muni fara. Tom Cleverley hefur fundið sinn stall í knattspyrnunni hjá Aston Villa og mun annað hvort fara þangað eða til Everton á frjálsri sölu.
Sigurjón:
Af þessum langa lista get ekki séð leikmann sem United vantar, nema kannski Javier Hernández! Ég hef ekki farið leynt með aðdáun mína á Chicharito og ég tel að með brotthvarfi Falcao og möguleikanum á því að Wilson fari á lán á næsta tímabili, þá sé pláss aftur fyrir Hernández í hópnum. Van Gaal virðist reyndar vera á öðru máli en við sjáum til, kannski að Hernández sé bara í frystikistunni frægu en mun vera tekinn upp í sumar og þyðna glæsilega á næsta tímabili. Það er allavega hægt að láta sig dreyma!