Árið 2014 er að renna skeið sitt á enda. Og þvílíkt ár. United hóf árið í sjötta sæti, tveim stigum á eftir Liverpool og þrem á eftir Everton, og það var ekki öll nótt úti fyrir David Moyes. Við endum árið í þriðja sæti, þrem stigum á undan liðinu í fjórða, með nýjan stjóra, nýja leikmenn uppá 165 milljónir punda og einn dýrasta framherja í heimi að auki að láni. Það er óhætt að segja að það gefi síðasta ári ekkert eftir í sviptingum.
Tottenham 0:0 Manchester United
Hvernig skoruðum við ekki í þessum leik?
Byrjunarliðið var svona. Óbreytt frá sigurleiknum gegn Newcastle á annan í jólum.
Bekkur: Lindegaard, Rafael, Smalling, Shaw, Fletcher, A.Pereira, Wilson.
Tottenham:
Bekkur: Vorm, Dier, Walker, Lamela, Dembele, Paulinho, Soldado
Tottenham getur líklega þakkað Hugo Lloris fyrir það að United hafi ekki kafsiglt Tottenham í fyrri hálfleik og gert út um þennan leik. Við fengum fjöldamörg færi og þrátt fyrir að vera með Robin van Persie, Wayne Rooney, Juan Mata og Radame Falcao í fremstu víglínu vantaði meiri gæði í að klára færin.
Strax á 7. mínútu átti Juan Mata góða sendingu inn fyrir á Wayne Rooney sem var í góðri stöðu aleinn í teignum en tók illa á móti boltanum og færið rann út í sandinn.
Á 18. mínútu stakk Juan Mata boltanum á Falcao sem átti gott hlaup og kom sér í virkilega fína stöðu en skot hans að marki var frekar afleitt og Lloris átti ekki í vandræðum með það.
Á 22. mínútu átti Juan Mata aukaspyrnu í stöngina. Boltinn barst fyrir markið og þar voru Robin van Persie og Falcao í baráttunni við að hnoða boltanum inn en Vlad Chiriches gerði vel í að hreinsa.
Á 24. mínútu tók Rooney fína hornspyrnu og boltinn hnoðaðist í átt að marki eftir að Phil Jones skallaði hann eftir talsvert öngþveiti. Boltinn fór yfir marklínuna eins og marklínutæknin sýndi fram á en Jones var dæmdur rangstæður, réttilega.
Á 34. mínútu flaug Falcao inn í teiginn eftir varnarmistök Tottenham en líkt og í fyrra færi hans breyttist boltinn í blöðru um leið og hann ætlaði að skjóta og Lloris var ekki í vandræðum með að verja.
Á 40. mínútu fékk svo Robin van Persie trademark Robin van Persie færi eftir trademark Michael Carrick sendingu. Carrick lyfti boltanum yfir vörnina þar sem Van Persie hafði tíma og rúm til að taka niður boltann, Lloris var ekkert að stressa sig á því að koma á móti og loka markinu og van Persie virtist því ekki vera alveg viss um hvort hann ætti að taka boltann niður eða hamra á markið. Hann ákvað að taka boltann niður en náði ekki góðu skoti eftir að Lloris kom á móti.
Á 43. mínútu átti Ashley Young fínan sprett upp vinstri kantinn og átti flotta sendingu fyrir, með vinstri meira að segja. Wayne Rooney kom á ferðinni en náði ekki að stýra skallanum sínum nógu utarlega og Lloris gat varið.
Á 44. mínútu var Ashley Young aftur á ferðinni og sneri boltann alveg unaðslega í átt að samskeytunum en Lloris tókst á einhvern meistaralegan hátt að blaka boltanum yfir. Þetta var frábært skot frá Young og enn betri markvarsla frá Lloris.
Dómarinn flautaði svo til hálfleiks og staðan því 0-0. Tottenham áttu nokkur hálffæri í fyrri hálfleik en ekkert í líkingu við þann fjölda færra sem leikmenn United voru að koma sér í og það var gjörsamlega óskiljanlegt að United væri ekki búið að sigla þessum leik heim í fyrri hálfleiknum. Það átti eftir að bíta okkur í rassinn því að Tottenham menn voru mikið mun sterkari í seinni hálfleik. Þeir pressuðu framar á vellinum og gáfu miðjumönnum okkar engan tíma á boltanum og því var öll sóknaruppbygging okkar lömuð. Varnarmennirnir byrjuðu að negla boltanum fram og það var auðvelt fyrir varnarmenn Tottenham að glíma við það. Okkur tókst þó að skapa tvo færi sem verða að flokkast sem dauðafæri
Á 55. mínútu átti Carrick fína sendingu upp kantinn á Juan Mata, Mata kom honum fyrir og þar var Robin van Persie mættur í markteiginn, sendingin var kannski í aðeins of óþægilegri hæð fyrir hann náði engu að síður skoti en boltinn fór yfir.
Á 68. mínútu átti Rafael, sem kom inn á fyrir Antonio Valencia, lága fyrirgjöf út í teiginn þar sem Juan Mata kom aðvífandi. Hann ætlaði hinsvegar ekki bara að skora heldur ætlaði hann einnig að sprengja netmöskvana í tætlur og dúndraði hann hátt hátt yfir þegar ef til vill hefði verið betra að leggja hann smekklega í annaðhvort hornið.
Þessi tvö færi voru það eina af viti sem United gerði í seinni hálfleik sem snerist að mestu leyti um ódýrar aukaspyrnur, lélegar sendingar, tæklingar og klafs.Tottenham-menn voru sterkari í seinni hálfleik en fyrir utan eitt færi í lok leiksins voru þeir ekki að skapa sér hættuleg færi. Seinni hálfleikurinn var eiginlega alveg afskaplega dapur og lítil gæði yfir fótboltanum sem var spilaður
Spurs v Man Utd typical of recent Premier League games – no control in midfield, poor defensive shapes, just about finishing v goalkeeping
— Michael Cox (@Zonal_Marking) December 28, 2014
Það verður því að líta svo á að United hafi tapað tveimur stigum hér í dag enda hefði liðið á góðum degi sett 3-4 mörk, færin voru allavega nógu góð til þess og spilamennskan liðsins í fyrri hálfleik verðskuldaði nokkur mörk. Það sást hinsvegar í seinni hálfleik að okkar leikmenn voru orðnir þreyttir enda allir að spila sinn annan leik á innan við 48 tímum. Það má setja spurningarmerki við það. Það hefði t.d. verið frábært að eiga ferskan Juan Mata á bekknum til þess að koma inn á í seinni. Jafnframt má setja spurningar við skiptingarnar hjá Van Gaal sem skipti inn þremur varnarmönnum fyrir varnarmenn í seinni hálfleik þegar miðjan og framlínan okkar var steindauð. Wilson hefði getað komið með sprengikraft í framlínuna gegn þreyttum löppum Tottenham-manna.
Þó má koma Louis van Gaal til varnar þá voru möguleikarnir til þess að breyta byrjunarliðinu eða koma með jákvæðar skiptingar takmarkaðar. Fellaini og Herrera eru meiddir og eftir ævintýri Fletcher gegn Aston Villa virðist Louis van Gaal ekki treysta honum. Miðjumennirnir voru því nánast sjálfvaldir og því ekki hægt að nýta þá af bekknum ef til þess myndi koma.
Stig á þessum útivelli er þó ekki alveg glatað og jákvætt að halda þessari ósigruðu hrinu gangandi. Ef sigur vinnst gegn Stoke á nýársdag er hægt að vera þokkalega sáttur með þessa jólatörn.
Ashley Young var sprækur, Juan Mata var mjög öflugur í byrjun leiks og David de Gea var öruggur í öllum sínum aðgerðum. Falcao var að reyna á fullu en þetta gekk ekki alveg upp hjá honum í dag. Maður hefur á tilfinningunni að hann sé svo þvílíkt að reyna að sanna sig en ef til vill myndi hann græða á því að skrúfa sig niður um eina stillingu?
JólaUnited mætir JólaTottenham á morgun.
Það er skammt stórra högga á milli. Eftir fín úrslit í gær eru Louis van Gaal og félagar væntanlega á leið til London þar sem útileikur gegn Tottenham bíður Manchester United. Þessi jólageðveiki er kannski ekki alveg það besta fyrir leikmennina en sem stuðningsmaður er þetta auðvitað bara snilld. Þó að tíminn týnist iðulega í jólafríinu er auðvelt að benda á að hvað þessi leikjadagskrá er galin með því að ímynda sér að þetta prógram væri t.d. sett á í mars. Getið þið ímyndað ykkur United spila leik á föstudegi og svo strax aftur á sunnudegi? Sú var raunin þessi jól og viðbúið að einhver þreyta sitji eftir í okkar mönnum. Eðlilega.
Liðið spilaði afskaplega vel í gær gegn Newcastle. Louis van Gaal er tíðrætt um að hann vilji sjá liðið stjórna leikjum frá A-Ö og það er óhætt að segja að hann hafi fengið að sjá slíka frammistöðu í gær enda var hann nokkuð sáttur eftir leikinn í gær:
I think we have dominated 90 minutes, the game, and we scored fantastic goals and we could have scored much more goals so I have seen an attacking Manchester United. I have seen a defending Newcastle United, a lot of clubs want to play against us also with 5 defenders but that’s more difficult than they think, so I am very pleased with the performance today.
Van Gaal var reyndar í góðu skapi fyrir leik og útdeildi jólagjöfum til stuðningsmanna leiksins. Þvílíkur maður!
Hann gat þó ekki sleppt því að senda knattspyrnusambandinu létta sneið eftir leikinn í gær:
With FIFA and UEFA’s rules it’s forbidden to play within 48 hours. In England, it’s okay. I cannot prepare my team like I have to prepare. We have unit meetings, and team meetings, we have training 11 against 11, and assimilating opponents, we cannot do that now.
Van Gaal stillti liðinu upp í 3-5-2 í gær og þetta var líklega besta frammistaa liðsins á tímabilinu spilandi með það leikkerfi. Hann hefur nýtt sér það í síðustu 3 útileikjum og ég held að það sé óhætt að segja að það kerfi verði brúkað gegn Tottenham. Ef það hefði liðið vika á milli leiksins gegn Newcastle og leiksins á morgun myndi ég hiklaust skjóta á sama byrjunarlið og hóf leikinn í gær enda stóðu sig allir býsna vel. Það er hinsvegar svo stutt á milli þessa leikja og svo stutt í næsta leik að einhver rótering er líklega óhjákvæmileg.
Ángel di Maria meiddist fyrir leikinn gegn Newcastle og það er óvíst með þáttöku hans. Fellaini missir af þessaru jólatörn en Luke Shaw, Daley Blind og Marcos Rojo eru allir að hressast. Blind og Rojo verða klárir í byrjun janúar og Luke Shaw gæti verið í hópnum á morgun. Januzaj er eitthvað slappur og það verður metið fyrir leikinn hvort hann geti verið með. Ekkert hefur verið sagt um aðra og því býst ég við að þeir geti spilið á morgun.
Ég set byrjunarliðið upp svona:
Þetta er þó ekki ritað í stein. Van Gaal gæti hreinlega verið svo sáttur við leik okkar manna í gær að liðið verði óbreytt og hann horfi til leiksins gegn Stoke eða Yeovil til þess að gefa einhverjum af þessum leikmönnum hlé. Rafael og/eða Di Maria gætu einnig komið inn og jafnvel Wilson. Það er þó erfitt að spá fyrir um þetta og líklega ræðst þetta að mestu leyti hversu ferskir einstakir leikmenn eru eftir leikinn í gær.
Hvað varðar andstæðingana í þetta skiptið má segja að tímabilið þeirra hafi verið ágætis rússibanareið. Tottenham byrjuðu ekkert sérstaklega vel undir stjórn Pocchettino og liðið virtist enn vera að líða fyrir kaupæðið á síðasta tímabili. Undanfarið hefur liðið þó verið að spila vel og með sigri á Leiceister í gær vann Tottenham sinn fjórða leik í röð í deildinni. Tottenham menn eru því farnir að skríða upp deildina og komnir aðeins nær markmiðum sínum fyrir þetta tímabil. Liðið er með 30 stig í 7. sæti og með þessum fjórum sigrum er liðið nokkurnveginn á pari það sem er af tímabilsins.
Það er einhver töfralæknir starfandi hjá Tottenham því að það eru ekki ein meiðsli í hópnum og því getur Pochettino stillt upp því liði sem hann vill. Djöfulsins lúxus á honum. Kane og Eriksen eru í aðallhlutverki og svo eru fáir betri í markinu en Lloris þegar hann er í stuði. Það er ómögulegt að segja fyrir um hvaða Tottenham-lið mætir til leiks. Liðið getur tekið sig til og spilað alveg hörmulega en það getur einnig spilað mjög vel. Í undanförnum leikjum hefur síðarnefnda liðið mætt til leiks og leikurinn á morgun verður erfiður fyrir okkar menn.
Það er þó jafn mikil þreyta í þeim og okkur og sjálfstraustið er í botni hjá okkar mönnum. Ef liðið spilar eins og það gerði gegn Newcastle í gær mun okkur vegna vel. Í þessari jólatörn er manni þó minna sama um spilamennskuna sjálfa, maður vill bara sjá þrjú stig á töfluna í hvert skipti enda munu einhver lið misstíga sig núna um jólin. Ég setti liðinu markmið um 10 stig í þessum fjórum jólaleikjum. Við erum komin með 4/10. Markmiðið er að ná í stig nr. 5,6 og 7 á morgun.
Leikurinn hefst klukkan 12.00.
Manchester United 3:1 Newcastle United
Enn og aftur vinnur Manchester United leikinn sem þeir spila á annan í jólum. Sannkölluð jólahefð. Sigurinn í dag var í þægilegri kantinum en Van Gaal stillti liðinu svona upp:
Fletcher kom inn á fyrir Carrick, Wilson inn á fyrir Falcao og Rafael inn á fyrir Valencia.
Leikurinn byrjaði helst til rólega og Newcastle voru sáttir með að sitja til baka. Þrátt fyrir það fékk Rooney fínt færi eftir aðeins 3. mínútur þegar Mata lyfti boltanum yfir Newcastle vörnina en Rooney var flaggaður rangstæður. Annars var það helst að stuðningsmenn Manchester United sungu hástöfum jólalagið um Eric Cantona. Þó hann sé löngu hættur þá er aðeins einn kóngur!
Flestar sóknir United komu í gegnum vinstri vænginn, hvort það var planað eða bara einfaldlega vegna þess að Ashley Young er í fantaformi skal ósagt látið en það er hreint ótrúlegt að hann hafi ekki lagt upp mark í dag, hver fyrirgjöfin á fætur annarri flaug inn í boxið og ef framherjarnir væru aðeins stærri þá hefði þetta líklega endað með marki. Á 19. mínútu fengu Newcastle svo sitt fyrsta færi þegar umræddur Ashley Young seldi sig ofarlega á vellinum og Daryl Janmaat óð upp völlinn og átti fínt skot sem De Gea varði í horn. Fyrsta markið kom svo á 23. mínútu eftir skyndisókn; Rooney æðir fram með boltann, finnur Juan Mata sem á þessa frábæru sendingu yfir vörn Newcastla manna á Falcao sem tæklar boltann fyrir markið þar sem Wayne Rooney getur einfaldlega ekki annað en skorað! Ísinn brotinn.
Manchester United heldur boltanum vel og á nokkrar álitlegar sóknir eftir markið en ekkert sem bar árangur fyrr en á 36 mínútu. Falcao vinnur þá boltann með stórkostlegri tæklingu, boltinn hrekkur til Juan Mata sem geysist inn völlinn, finnur Wayne Rooney sem kemur aðsvífandi og BÚMM! 2-0. Fyrri hálfleikurinn leystist svo eiginlega upp í ekkert eftir þetta þó að Moussa Sissoko hafi átt fínt skot fyrir gestina sem De Gea varði. 2-0 í hálfleik og heimamenn með allt „under control“.
Síðari hálfleikur byrjaði með smá pressu frá Newcastle sem lauk á 52. mínútu þegar Wayne Rooney kom með frábæra sendingu yfir vörnina á Robin Van Persie sem skallaði í netið. 3-0 og í rauninni Game Over. Bæði lið eiga leik 28. desember og hvorugt lið virtist vilja leggja meiri orku í leikinn á þessum tímapunkti svo leikurinn róaðist all svakalega niður. Þegar um það bil 5 mínútur voru eftir af leiknum fékk Phil Jones dæmda á sig vítaspyrnu sem Papiss Cisse skoraði úr af öryggi. 3-1 lokatölur.
Gífurlega öruggur og þægilegur sigur og Old Trafford hægt og rólega að stefna í sama virki og hann var hér áður fyrr. Einu áhyggjurnar eru þær að Manchester United virðist varla geta haldið hreinu og klaufaskapur varnarmanna orsakar oft hættu, í dag voru það óþarfa brot í kringum teiginn sem bjuggu til helstu hætturnar fyrir gestina. Klaufaskapur og meiðsli virðast vera helstu veikleikar liðsins en liðið var án margra sterkra leikmanna í dag en það kom ekki að sök. Sóknarleikur liðsins er allur að koma til og átti liðið mörg fín færi í dag. Samvinna þeirra Mata, Rooney, Falcao og Van Persie var til fyrirmyndar en þeir voru duglegir að finna hvorn annan og hefðu í rauninni mátt skora fleiri mörk en Van Persie fór illa með nokkur hálf færi í leiknum.
Það er víst erfitt að neita Wayne Rooney um titilinn Man Of The Match en hann á hann skilið eftir 2 mörk og eina stoðsendingu. Juan Mata og Radamel Falcao komu reyndar til greina en allir þrír áttu stóran þátt í mörkum heimamanna í dag. Ashley Young var líka hættulegur í dag og virðist vera njóta sín í botn í þessari vængbakvarðar stöðu sinni.
Og að lokum eru hér mynd til að sýna hversu rosalega gaman það er hjá Falcao á Old Trafford.
Newcastle kemur í heimsókn
Gleðileg Jól dömur mínar og herrar.
Jæja, að því sem skiptir máli. Á morgun kemur Alan Pardew í heimsókn með Newcastle United. Newcastle byrjaði tímabilið skelfilega og vildu stuðningsmenn liðsins helst krossfesta Pardew og eiganda liðsins, Mike Ashley.
Ég hef ekki horft á nægilega mikið af Newcastle leikjum til að spá fyrir um byrjunarlið þeirra en samkvæmt Physio Room þá eru aðal- og varamarkvörður liðsins báðir meiddir. Jak Alnwick stendur því áfram í rammanum. Einnig eru Gabriel Obertan, Davide Santon, Ryan Taylor og Siem De Jong á meiðslalistanum. Sem stendur er Stuart Taylor meiddur en talið er að hann verði orðinn leikfær fyrir leikinn. Flestir þessara leikmanna hafa reyndar ekki spilað mikið í vetur svo það ætti ekki að riðla of mikið leikskipulagi Newcastle að þeir séu ekki með.
Fyrir einu ári og tveimur vikum (sirka) kom Newcastle í heimsókn til Old Trafford og vann 1-0 sigur. Manchester United fór reyndar og vann Newcastle 4-0 í seinni leiknum (þökk sé frelsara vorum, Juan Mata). En mér persónulega finnst Manchester United eigi enn eftir að hefna sín almennilega á Newcastle, vonandi eru leikmenn liðsins sammála mér.Gengi okkar manna hefur nefnilega verið mjög gott á Old Trafford, og Van Gaal talaði um að hann vildi gera heimavöllinn að virki. Það hefur gengið ágætlega undanfarið og liðið unnið fjóra af síðustu fimm og skorað 10 mörk í leiðinni. Van Gaal sagði einnig á blaðamannafundinum fyrir leikinn að aðeins Chris Smalling væri líklegur til að spila af þeim leikmönnum sem eru meiddir þessa stundina. Það þýðir að Blind, Rojo, Shaw, Fellaini og Herrera verða allir fjarverandi.
Í síðasta leik byrjaði liðið með þrjá hafsenta en Van Gaal skipti yfir í 4-4-2 tígulmiðju leikkerfið í hálfleik – sem er það leikkerfi sem hefur virkað hvað best á Old Trafford svo ég spái sama leikkerfi gegn Newcastle á morgun. Þar sem liðið á erfiðan útileik gegn Tottenham aðeins tveimur dögum seinna þá spái ég nokkrum breytingum:
Ætla að spá því að Falcao haldi áfram að heilla þjálfarann (og dömurnar) og skori eitt, jafnvel tvö í öruggum sigri heimamanna.