United liðið er komið á suðurströnd Englands þar sem þeir mæta liðið Southampton á morgun. Ásamt með West Ham sem tyllti sér í 3ja sætið tímabundið í dag er lið Southampton spútniklið haustsins. Eftir sölur sumarsins kom Southampton út í 35m punda hagnaði, seldu menn fyrir 93m en keyptu á móti fyrir 58 milljónir.
Flestir bjuggust við döpru gengi Southampton eftir að margir bestu leikmenn liðsins höfðu verið seldir en það hefur sannarlega ekki komið á daginn. Nýr framkvæmdastjóri liðsins, Ronald Koeman, hefur sett saman þrælskemmtilegt lið þar sem þessar 57 milljónir hafa nýst vel og nýju mennirnir Dušan Tadić, Graziano Pellè, Shane Long og markvörðurinn Fraser Forster hafa allir komið sterkir inn. Vörn Southampton hefur verið sú þéttasta í vetur og augljóst að Dejan Lovren var ekki ómissandi. Gamli jaxlinn José Fonte er nú lykilmaður þar.
Það var þó vitað að Southampton hafði lengi framan af hausti ekki þurfti að spila móti sterkustu liðunum. Nú er hins vegar komið að því og síðustu tveir leikir þeirra hafa verið á móti Manchester City og Arsenal og hafa báðir tapast, 0-3 og 0-1. Að auki hefur meiðsladraugurinn gert vart við sig svo um munar og þá reynir á lítinn hóp. Dušan Tadić verður reyndar með á morgun eftir að hafa farið af velli gegn Arsenal, og miklar líkur á að varnarmaðurinn Toby Alderweireld verði líka með eftir af að hafa meiðst í sama leik. Miðjumennirnir James Ward-Prowse, Jack Cork og Morgan Schneiderlin eru hins vegar allir meiddir. Graziano Pellè, sem skoraði og skoraði í haust hefur ekki skorað frá í lok október en Shane Long og Sadio Mané geta alveg skorað líka. Southampton verður því ágætlega mannað.
Meiðslavandræði United eru aðeins að minnka. Wayne Rooney verður með á morgun, og Jonny Evans án efa í hóp. Rafael fór með liðinu suðreftir, verður svo að koma í ljós hvort hann er í hóp eða ekki. Falcao hlýtur svo að vera treyst fyrir byrjunarleik núna.
Ég ætla því að spá nær óbreyttu liði frá Stoke leiknum nema frammi. Sókndjarft lið en þetta er leikur sem við viljum vinna.
Flest liðin sem við megum búast við að verði í meistaradeildarbaráttunni í vor töpuðu stigum í gær og nú setur sigur okkur í þriðja sætið. Annars sitjum við áfram í því fimmta en Southampton hoppar í þriðja. Sigur væri líka fullkomið veganesti fyrir stórleikinn gegn Liverpool um næstu helgi.
Það er vel þess virði að líta aðeins á stjóra liðanna annað kvöld. Þeir Louis van Gaal og Ronald Koeman þekkjast vel frá fyrri tíð.
Þessir félagar áttu svo eftir að eiga góðar stundir saman þegar Koeman var í þjálfarateymi Van Gaal hjá Barcelona, en þegar Van Gaal var ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá Ajax árið 2004 kom í ljós að þeir áttu ekki skap saman, deildu ekki leikspekiviðhorfum og svo fór að leiðir skildu í illu þegar Ajax stóð með Koeman og Van Gaal hætti.
Líkur eru á að hlakkað hafi í Van Gaal þegar Koeman tók við nýbökuðum Hollandsmeisturum AZ Alkmaar af Van Gaal en var rekinn eftir sex mánuði.
En þíða komst í samskipti þeirra þegar Van Gaal tók við hollenska landsliðinu og þurfti að fara að nota leikmenn frá Feyenoord undir stjórn Koeman og í dag segir Koeman hann ekki bera kala til Van Gaal, en vinir verði þeir ekki. Allt er þetta nánar rakið í grein Independent.
Koeman og Van Gaal eru fimmtu og sjöttu Hollendingarnir til að taka við liði í úrvalsdeildinni. Engu að síður er þetta í fyrsta sinn sem hollenskir þjálfarar mætast í leik í deildinni enda voru þeir Ruud Gullit, Guus Hiddink, Martin Jol og René Meulensteen vinur okkar aldrei samtíða.
Leikurinn hefst kl. 8 annað kvöld en að lokum bendum við enn einu sinni á hlaðvarpið okkar frá í síðustu viku!