Því miður þá þarf ég að skrifa skýrslu um tvö mikilvæg stig töpuð í kvöld. Eins og leikurinn þróaðist þá ætti maður kannski bara að vera sáttur með að hafa bjargað stigi í lokin, en þetta var mjög týpískur leikur frá United, eru meira og minna að stjórna leiknum en gera sér erfitt fyrir með því að gefa mörk á silfurfati. Byrjum á liðinu, það leit svona út:
Varamenn: Lindegaard, Smalling, Carrick, Fellaini, Fletcher, Young, Falcao.
Ég var mjög hissa á því að sjá þessa uppstillingu satt best að segja. Þó svo ég hefi verið spenntur fyrir því að sjá Januzaj aftur í liðinu þá vildi ég frekar hafa tvo framherja, það hefur virkað ágætlega hingað til og ætti að vera sjálfgefið í leikjum gegn liðum eins og WBA. Hinsvegar hefur Van Gaal þótt þessi leikur vera ágætis undirbúningur fyrir erfiða leiki gegn framundan gegn Chelsea og Man City, leikir þar sem líklegra er að við sjáum þetta kerfi notað. Varnarlínan sat hátt uppi en á sama tíma sátu framherjar liðsins frekar aftarlega á vellinum. Á tímabili þegar WBA var að spila boltanum meðal sinna varnarmanna þá komst nánast allt United liðið fyrir í miðjuboganum. Með allt þetta pláss fyrir framan og aftan, fóru WBA grimmir af stað og virtust ætla að sækja sér mark snemma, þetta gerðu þeir með því að dæla boltanum fram á sína kantmenn eða hinn snögga framherja Berahino. Þetta virkaði eftir aðeins 8 mínútur, þá skoruðu þeir mark eftir sömu uppskrift og mörg önnur mörk á þessu tímabili. Shaw fór full langt úr sinni stöðu og skildi eftir mikið pláss á vinstri kantinum fyrir Wisdom til að vaða upp og gefa fyrir, þar sem Sessegnon tók glæsilega við boltanum og smellti honum upp í vinstra hornið.
Fram að hálfleik var United meira og minna með öll völd á vellinum en hugmyndaleysið var algjört. Di María var sá eini sem virkaði hættulegur á meðan Mata og Januzaj voru slakir, því miður. Van Persie var svo einn að ströggla upp á toppi, reyna að búa sér til eitthvað pláss en ekkert gekk.
Í hálfleik gerði Van Gaal eina mikilvæga breytingu á liðinu þegar hann tók Herrara útaf og setti Fellaini inn á. Það tók Belgann ekki nema 3 mínútur að stimpla sig inn, hann gerði sig stórann og stæðilegan í boxinu hjá WBA, tók fyrirgjöf Di María niður og þrumaði boltanum svo glæsilega upp í þaknetið. Flott hjá stráknum og maður sá vel á fagninu hversu lengi hann var búinn að bíða eftir þessu marki. United virkaði mun líklegri til að bæta við marki eftir þetta, en á 66 mínútu verður vörnin enn og aftur ósamstíga. Jones stígur úr línunni, skilur Rafael eftir, sem gerir Berahino réttstæðan þegar stungusending kemur inn fyrir vörnina. Berahino setur boltann svellkaldur framhjá De Gea í markinu og okkar menn komnir undir gegn gangi leiksins. Síðan tók við sama eyðimerkurgangan og var í fyrri hálfleik. United heldur boltanum en gengur lítið að koma honum í hættuleg færi. Falcao kom loksins inn á 72 mín og liðið breytir í 4-4-2, en það fór síðan út um þúfur á 78 mín þegar Di María þarf að fara af velli vegna meiðsla og inn kemur vinur okkar Ashley Young. Núna vorum við með tvo óhæfa kantmenn, þá Young og Januzaj.
Það stefndi því allt í 2-1 sigur WBA þangað til á 87 mín þegar Daley Blind (fallegasti maðurinn á Englandi) skoraði með hnitmiðuðu skoti fyrir utan teig. Fjórum mínútum var bætt við venjulegan leiktíma og var United í þungri sókn allan tíma, en allt kom fyrir ekki, 2:2 jafntefli staðreynd.
Það voru of margir leikmenn að spila illa í dag og þar voru Mata og Januzaj e.t.v. verstir. Jones + Herrera voru klárlega ryðgaðir og aðrir voru meira og minna undir pari. Þetta var í fyrsta skipti sem þessi varnarlína spilar saman í vetur. Þó svo ég sé spenntastur fyrir þessum fjórum, þá sást æfingaleysi þeirra vel, þeir áttu sína ágætu kafla en inn á milli komu slæmir kaflar. Það er þessi óstöðuleiki sem er að fara illa með United þessa daga. Einnig verð ég að skella smá skuld á Van Gaal fyrir að hafa notað þetta kerfi. Ég skil ekki af hverju United fór varfærnislega inn í þennan leik, eins og þeir væru að spila gegn einu besta liði heims. Menn virtust ekki alveg klárir á því hvað ætti að gera og WBA átti frekar auðvelt með að leysa upp spilið. Við höfum oft séð þetta áður í vetur. Maður leiksins að mínu mati var Fellaini, hann kom inn á og spilaði eins og hann var vanur að gera með Everton, framarlega á vellinum, grimmur, stór og sterkur. Það var hann sem olli WBA mestum vandræðum.
Eftir viku er leikur við Chelsea á Stamford Bridge. Þar mætir United taktískum snillingi í Mourinho og það er alveg klárt mál að hann veit upp á hár hvar veikleikar United eru. Okkar menn verða að mæta mjög grimmir og einbeittir til leiks, þá getur allt gerst. Ef það á að draga sig eitthvað til baka og vera stressaðir, þá er voðin vís.