Þessi viðureign á síðasta tímabili situr ennþá í mér. Hún fór fram í byrjun desember í fyrra. United var enn í þokkalegri stöðu í deildinni og var að fara að fá leikjatörn sem leit þægilega út á pappír. Það þurfti bara að fara fyrst í gegnum Everton. Everton var að spila vel undir stjórn arftaka David Moyes. Framtíðarfótbolta sem var gaman að horfa á. United var að spila sæmilega undir stjórn arftaka Sir Alex Ferguson. Fortíðarbolta sem var leiðinlegt að horfa á. Ef það var eitthvað sem gat hjálpað David Moyes var það sigur gegn sínu gamla félagi. Það er skemmst frá því að segja að United yfirspilaði Everton í þeim leik en allt kom fyrir ekki, boltinn vildi hreinlega ekki inn þrátt fyrir fjölmörg færi. Auðvitað náði svo Everton að pota boltanum inn á 90. mínútu og hirða alveg einstaklega óverðskulduð þrjú stig. Við þekkjum framhaldið. Þessi Everton-leikur fór hrikalega í taugarnar á mér. Þessvegnar var sigurinn í dag alveg einstaklega sætur.
Louis van Gaal stillti liðinu upp svona
Á bekknum: Lindegaard, Thorpe, Blackett (Shaw – 71′), Fletcher, Fellaini (Valencia – 79′), Januzaj, Wilson (Falcao – 73′)
Everton liðið:
Leikurinn byrjaði afskaplega vel. Það voru ekki 10 mínútur liðnar og United hafði skapað sér tvö mjög fín færi. Bæði komi eftir fínar fyrirgjafir, stundum snýst þetta ekki um magn heldur gæði. Það fyrsta fékk Falcao eftir flotta fyrirgjöf frá Shaw á vinstri kantinum. Falcao náði góðum skalla en Howard gerði mjög vel í því að verja boltann út við stöng. Síðara færið kom eftir fína spilamennsku. Valencia gerði vel í að vinna boltann á miðjunni. Blind kom boltanum á Dí María sem gaf fyrir þar sem Robin van Persie kom aðvífandi en hann mokaði boltanum yfir. Þetta gaf fyrirheit fyrir fyrri hálfleikinn.
United stjórnaði öllu í fyrri hálfleik. Rojo og McNair sáu alfarið um Lukaku. Blind sat aftastur á miðjunni og stoppaði flesta sóknartilburði Everton. Valencia stóð sig vel framanaf og kom mér skemmtilega á óvart í nýrri stöðu á miðjunni. Í sókninni réð svo Ángel di María ferðinni. Þegar hann fær boltann sér maður lappirnar á andstæðingunum byrja að titra. Þegar hann fær boltann gerist alltaf eitthvað spennandi. Auðvitað var það svo hann sem skoraði fyrsta mark United í leiknum. Rafael kom boltanum inn í teig. Falcao tók fjögur mismunandi hlaup á þremur sekúndum, varnarmennirnir eltu hann, boltinn hrökk til Mata sem lagði hann á dí María og Argentínu-maðurinn lagði hann snyrtilega í hægra hornið. 1-0 og hlutirnir litu vel út. Hálftími liðinn.
Eftir markið róuðust hlutirnir aðeins. Everton-menn færðust aðeins í aukana en McNair var einfaldlega með Lukaku í gjörgæslu þannig að Belgíu-maðurinn sem á það til að dómínera varnarmenn sá aldrei til sólar í þessum leik. Þetta var skemmtilegt þar sem að það var augljóst að Lukaku var sagt fyrir leik að hann ætti að herja á McNair. Paddy-kallinn var þó vandanum vaxinn og er líklega ennþá að dekka hann í Everton-rútunni á leiðinni til Liverpool.
Everton-menn fengu þó smá vonarglætu í uppbótartíma í fyrri hálfleik. Á 45. mínútu hlupu þeir fram í sókn sem endaði með því að Tony Hibbert. Já, Tony Hibbert fékk boltann inn í teig þar sem Luke Shaw braut á honum. Menn voru eitthvað að tala um Shaw hefði náð boltanum fyrst en þegar menn þurfa 3-4 endursýningar til að sjá það er varla hægt að ætlast til þess að dómarinn nái því í rauntíma. Það skipti því engu máli því að David de Gea gerði sér lítið fyrir og varði vítið frá Leighton Baines. Fyrsta vítið sem Baines klikkar á í úrvalsdeildinni og algjör risavarsla fyrir David de Gea sem gekk til leikhlés með Old Trafford að syngja nafnið sitt.
Í seinni hálfleik var meira jafnræði með liðunum. Everton-menn komust betur inn í leikinn og uppskáru mark á 55.mín. Valencia framdi algjört óþarfa brot á Lukaku vinstra megin á vellinum. Everton-menn tóku nokkuð smart útfærslu á spyrnunni sem endaði með því að Naismith hamraði boltann í netið af stuttu færi. Varnarmenn United voru sofandi og Everton-menn fengu því líflínu í leikinn. Liðin skiptust á að sækja. Falcao fékk dauðafæri eftir góðan undirbúning di María fljótlega eftir Everton-markið en hann var eitthvað stressaður og setti boltann framhjá. Hann var svo mættur í vörnina skömmu seinna og bjargaði á línu eftir skalla frá Jagielka. Falcao hristi þó af sér stressið á 62. mínútu þegar Angel dí Maria tók einn eina skotstoðsendinguna. Hann dúndraði á markið og böltinn hrökk fyrir fætur Falcao sem stýrði boltanum í netið. Hans fyrsta mark fyrir United staðreynd og staðan orðin 2-1.
Luke Shaw virðist vera á sama lýsisskortsmataræði og restin af varnarmönnunum okkar og fór hann meiddur af velli eftir 72. mínútur. Vonandi ekkert alvarlegt en hann benti en van Gaal sagði eftir leik að hann hefði fengið spark í hnéið. Eftir þetta bakkaði United-liðið aðeins og Everton-menn sóttu hart að marki United á lokamínútunum. Því miður fyrir þá var David de Gea búinn að ákveða að fá ekki á sig fleiri mörk og hann lokaði marki sínu alfarið og átti 2-3 stórbrotnar vörslur undir lokin. Síðasta varslan var einfaldlega fáranleg. á 94. mínútu datt boltinn fyrir Oviedo fyrir utan teiginn. Hann náði góðu skoti sem virtist vera að fara að syngja í þaknetinu en ég veit ekki hvernig de Gea náði að teygja sig í þennan bolta. Ótrúleg varsla og nokkuð ljóst að frammistaða hans í dag tryggði stigin þrjú fyrir United.
Þrjú stig því staðreynd í dag. Virkilega flott enda má segja að þetta sé fyrsta alvöru prófraunin á lið Louis van Gaal. Þetta var fyrsti leikurinn gegn liði sem endaði fyrir ofan okkur á síðasta tímabili en eins og frægt er orðið nældum við okkur 5 stig gegn þeim liðum á síðasta tímabili. Ef liðið ætlar sér eitthvað á þessu tímabili þarf að bæta þá stigasöfnun. Það tókst í dag með fínum sigri og liðsmenn United geta farið ánægðir inn í landsleikjahléið áður en að undirbúningur fyrir næstu leiki hefst. Næsti leikur er gegn WBA en svo kom tveir leikir í röð gegn Chelsea og City. Það verður alvöru.
Það er ekki hægt að skrifa þessa skýrslu án þess að minnast á Paddy McNair sem er að koma gríðarlega sterkur inn í þetta. Hann var flottur á móti West Ham og gjörsamlega eignaði sér Romelu Lukaku í þessum leik. Ef þetta heldur svona áfram þurfa þeir félagar Jones, Smalling og Evans að fara að finna sér þægilega stellingu á bekknum.
Svo má heldur ekki sleppa því að minnast á Ángel dí María. Vá. Þvílíkur leikmaður, þvílík kaup. Hann hefur gjörsamlega kveikt í sóknarleik United og það er yndislegt að horfa á hann spila fótbolta. Það er stórhætta í hvert skipti sem hann fær boltann, hann skorar eða leggur upp í hverjum einasta leik, stundum bæði. Loksins, loksins er búið að finna einhvern sem á séns á því að fylla upp í eyðuna sem Cristiano Ronald skyldi eftir árið 2009.
Svo má auðvitað ekki gleyma David de Gea. Hann vann þessi stig hérna í dag. Hann er búinn að hrista flesta gagnrýnendur sína af sér en það eru einhverjar eftirlegukindur eftir sem hanga á síðasta hálmstráinu um að hann vinni aldrei nein stig fyrir United. Jæja, hann gerði það svo sannarlega í dag. Vonandi geta menn nú hætt þessu rugli og séð að David de Gea er einfaldlega einn af bestu markmönnunum í þessari deild og þó víðar væri leitað.
https://www.youtube.com/watch?v=duVST_xXnn0
Betur má ef duga skal en þetta var flottur stökkpallur fyrir framhaldið.