Þegar markmenn voru ekki verndaðir
HM er byrjað og í tilefni þess að í gær var (réttilega að mati þess sem hér skrifar) dæmt brot á Ivica Olić fyrir brot á Júlio César skulum við rifja upp úrslitaleikina í ensku bikarkeppninni 1957 og 1958.
Árið 1957 voru United Englandsmeistarar og ætluðu sér að að verða fyrsta liðið á 20. öldinni til að vinna tvöfalt. En Peter McParland, sóknarmaður Aston Villa hafði aðrar hugmyndir og gerði út um þann draum með skemmtilegu broti á Ray Wood strax á 7. mínútu (eða á 0:43 í myndskeiðinu)
Árið eftir var allt breytt. Flugslysið í München hafði tætt liðið í sundur, en á hreinum viljastyrk komst liðið í úrslit aftur. Nú var það Bolton sem var mótherjinn. En eitt hafði ekki breyst: Þó markmaður United, Harry Gregg, héldi á boltanum og skýldi honum var það engin afsökun, Nat Lofthouse skoraði bara samt og tryggði Bolton sigur, 2-0 (sjá 3:24 mínútu að neðan)
Það er eins líklegt að við fáum að sjá fleiri myndbrot úr sögu United næstu vikur svona til að vega upp á móti nútíma HM og til að reyna að gleyma Edward Woodward.
Fréttir og slúður og Excel skjal fyrir HM
Það er óþarfi að vera að halda því fram að það sé ALLT AÐ GERAST!!! hjá United. En það er hægt að taka saman smá pistil og tengja á helsta slúður.
Nýjast! Luke Shaw sagði forráðamönnum Southampton eftir síðasta leik í deildinni að hann vilji til United. BBC greinir frá þannig þetta er solid.
Andy Mitten fer rækilega í saumana á hvernig hlutirnir virka á ‘silly season’ Í annarri grein skrifar Mitten um hversu nálægt United var því að kaupa Fabregas í fyrra og hvar hann muni mögulega spila sína knattspyrnu á komandi tímabili.
Viðskiptatímaritið Forbes finnur tíu lexíur í ráðningu og brottrekstri David Moyes
MEN birtir lista yfir þá eitthundrað landsliðsmenn sem unglingastarf United hefur skilað af sér
Telegraph fjallar um Glazer systkinin þrjú sem við vitum minnst um. Þau vilja líklega selja sinn hlut í United
Á Ítalíu er því haldið fram að United hafi áhuga á Alexis Sanchez sem virðist vera á leið frá Barcelona.
Þrátt fyrir að fregnir hafi borist af því að Louis van Gaal hafi ekki áhuga á Toni Kroos heldur spænska blaðið Sport því fram að United hafi boðið 24 milljónir evra í Kroos. Annað spænskt blað, El Confidencial heldur því fram að Louis van Gaal hafi sjálfur rætt við Toni Kroos til þess að sannfæra hann um að ganga til liðs við United. Athyglisverðar fréttir.
Louis van Gaal virðist svo vera áfjáður í að fá Bastian Schweinsteiger til liðs við United og Bayern gæti haft áhuga á því að selja hann, samkvæmt blaðamanninum Graham Hunter, sem segir að Pep Guardiola vilji losna við Bastian. Hann yrði velkominn á Old Trafford.
Slúður gærdagsins var að Juventus hefði svarað fyrirspurn United um Pogba með „60 milljónir punda takk“. Hljómar eins og Woodward sé að koma því á framfæri að hann sé að reyna en það séu bara allir svo dýrir.
Shinji Kagawa er á skotskónum fyrir Japan. Hann skoraði gegn Zambíu fyrir skömmu:
Einhvernveginn finnst manni eins og allt fari í frost á meðan HM stendur þannig að ef United nær ekki að klára neitt fyrir HM er líklegt að við fáum ekki að sjá nýja leikmenn á Old Trafford fyrr en um miðjan júlí, í allra fyrsta lagi. Ef við þekkjum Woodward rétt mun þó ekkert gerast fyrr en það er korter eftir að félagsskiptaglugginn lokar.
Ljósu punktarnir við það væru: Ímyndið ykkur fund Van Gaal og Woodward daginn eftir. Það yrði hárþurrkun í lagi. Eða þvottur og bón m.v. að kollvikin á Edda. Og svo yrði Eddi rekinn. En það eru þrír mánuðir í það.
David Moyes hefur farið víða í blaðaskrifum undanfarið og finnst hafa verið farið óskaplega illa með sig. Hann er t.d. eitthvað sár yfir að Van Gaal vilji ekki Kroos og segist hafa verið kominn langt með að klára þetta. Nennum við nokkuð Moyes lengur? Nei. Enginn tengill fyrir Moyes.
Excel spáskjal fyrir HM
En talandi um HM: Fyrir þau sem vilja spá og fylgjast með úrslitum á HM, þá er hér besta HM Excel skjalið: Heldur utan um rétta riðlastöðu og ef kemur til uppkasts þá er hægt að setja þær niðurstöður inn þannig að allt komi rétt út. Í útsláttarkeppninni sjást svo liðin sem munu lenda saman allt fram að úrslitaleik. Semsé: Fullkomið. (Vonandi)
Og allt í boði Rauðu djöflanna.
Hvað er að frétta?
Ef það er eitthvað að gerast hjá United þessa daga fer það fram bak við tjöldin. Louis van Gaal er auðvitað á fullu að vinna með Hollendingum fyrir HM og við reiknum fastlega með að Ed Woodward sé að vinna á fullu í leikmannamálum.
Það er rétt að benda á að það að undirritaður tók þátt í sérstakri hringborðsumræðu í podkasti hjá kollegum okkar á kop.is. Þar var, aldrei þessu vant, lítið sem ekkert talað um Liverpool og fókusinn aðallega á United og önnur lið í deildinni. Þess virði að kíkja á það fyrir þá sem eru í algjöru svelti hvað varðar umræðu um enska boltann.
Það er líklega helst að frétta af United að Malcolm Glazer, faðir Glazer-fjölskyldunnar, lést í gær, 85 ára að aldri. Hann fékk heilablóðfall fyrir nokkru. Ólíklegt er að þetta hafi mikil áhrif á eignarhald United eða starfsemi félagsins þar sem synir hans Avram og Joel hafa að mestu séð um eignarhald Glazeranna á Manchester United. Menn hafa tekið þessum fregnum misvel, eigandi Derby telur að Glazerarnir hafi rutt brautina fyrir aðra erlenda eigendur á meðan Twitter var ekkert sérlega fallegur staður svona rétt á meðan fregnir af fráfalli Malcolm Glazer voru að brjótast út.
Það er lítið kjöt á beinunum hvað varðar leikmannamál, að minnsta kosti opinberlega. Louis van Gaal endaði auðvitað áhuga United á Toni Kroos og við gerum fastlega ráð fyrir því að eltingarleikurinn við Luke Shaw haldi áfram en fregnir hafa borist af því að það verði klárað eftir Heimsmeistarakeppnina. Eitthvað hefur verið hvíslað um að United hafi áhuga á Fabregas og Marca greindi frá því í gær að David de Gea sé á fullu að sannfæra Fabregas um að ganga til liðs við United. De Gea var auðvitað virkur í því að fá Mata til liðs við félagið í janúar, ekki slæmt að hafa svona markmann sem moonlightar sem umboðsmaður. Í vikunni var Twitter fullt af sögusögnum að United ætli sér að kaupa Miranda, miðvörð Atletico Madrid, en svo hefur ekkert heyrst meira af því.
Það verður líka þess virði að fylgjast með hollenska landsliðinu á HM, ekki bara til þess að sjá Louis van Gaal að störfum heldur einnig til að fylgjast með mögulegum leikmönnum United. Slúðrið á Englandi segir að van Gaal vilji fá miðvörðinn Bruno Martins Indi og Jordan Clasie frá Feyenoord en þeir munu báðir taka þátt í HM. Það eru þá hæg heimatökin fyrir van Gaal ef hann hefur áhuga á þessum leikmönnum.
Það hafa margir orðið til að spá í hvað við þurfum í sumar. Michael Cox frá Zonal Marking er ansi naskur sérfræðingur og greinir hvað United gæti þurft.
Við vonum auðvitað að hægt verði að klára eitthvað fyrir HM en við verðum þó ef til vill að sætta okkur við það að HM muni líklega koma í veg fyrir það.
Ryan Giggs 1991-2014
„My first sight was of him floating over the pitch so effortlessly you would have sworn his feet weren’t touching the ground. He carried his head high and looked as relaxed on the park as a dog chasing a piece of silver paper in the wind“.
Þegar kemur að tilvitnum úr sögu Manchester United eru það líklega aðeins togaraeltandi mávar sem slá þessi orð Sir Alex Ferguson af toppnum. Það þarf varla að kynna Ryan Giggs fyrir ykkur. Stór hluti stuðningsmanna Manchester United þekkir ekki lífið án Ryan Giggs og hefur fylgt þessum frábæra leikmanni alla tíð.
Ryan Giggs skrifaði undir atvinnumannasamning við Manchester United 1. desember 1990, tveim dögum eftir 17 afmælisdag sinn og lék sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið fjórum mánuðum seinna, 2. mars 1991. Frá því að Sir Alex Ferguson tók við United hafði hann lagt ofuráherslu á að byggja aftur upp unglingastarf liðsins sem fyrri stjórar höfðu leyft að drabbast niður. Tveim árum fyrr höfðu nokkrir ungir strákar komið fram þegar erfiðlega gekk veturinn 1988-9 og heillað stuðningsmenn en enginn þeirra náði árangri sem heitið gat, utan að Mark Robins og Lee Martin hjálpuðu til við að vinna bikarinn 1990. Ryan Giggs var fyrsta merkið um að eitthvað væri virkilega að gerast meira á unglingasviðinu.
Frá fyrsta leik vissu stuðningsmenn að þarna var á ferðinni einstakur leikmaður. Þetta fyrsta vor hans var hann þó ekki í aðalhlutverki. Lee Sharpe var eldri og enn stjörnukanturinn í hópnum. Sharpe hélt Giggs utan við hópinn í úrslitaleiknum í Evrópukeppni bikarhafa, en það var líka í síðasta skipti sem það var.
Árið eftir, 1992, var ár vonbrigðanna og United missti af titlinum. En Ryan Giggs var fastamaður í liði United, var valinn ungi leikmaður ársins af leikmönnum og sló taktinn fyrir næstu ár. Titlarnir röðuðust inn og glæsimörkin komu hvert á fætur öðru.
Hápunkti var náð þann 14. apríl 1999
https://www.youtube.com/watch?v=quI_LkMj4HI
Besta mark aldarinnar sögðu sumir og það er erfitt að mæla því í mót.
Rúmum mánuði síðar var Manchester United búið að vinna þrennuna og Giggs var á hátindi ferilsins 25 ára að aldri sem hluti af ‘bestu miðju allra tíma’
Næstu tvö árin duttu fyrirhafnarlausir titlar inn, eitt ár í hlé og svo enn einn titillinn og þetta var allt svo auðvelt, þó að hann missti vissulega þó nokkuð af leikjum úr vegna meiðsla. En 2003 var Ryan Giggs orðinn þrítugur. og eins og United dalaði á milli 2003 og 2007 þá dalaði Ryan Giggs líka. Þó að hann hefði byrjað jógaæfingarnar sem fleyttu honum á endanum á fimmtugsaldur sem leikmanni þá voru meiðsli fyrri ára farin að setja á hann mark og hann missti hraða. Á þessum árum var hann oft skotmark þeirra sem voru að leita að ástæðum fyrir slöku gengi og ekki alltaf að ástæðulausu, þó að vissulega hafi hann liðið fyrir það að það var ekki verið að bera hann saman við aðra leikmenn, heldur hans eigin stórfengleik á fyrri árum.
En það er eðli frábærra leikmanna að geta aðlagast aðstæðum. Þegar Ronaldo var orðinn besti kantmaður í heimi og Manchester United fór að spila 4-3-3 með þá Tevez, Rooney og Ronaldo frammi (sem breyttist stundum í 4-0-6 eða 4-6-0) var orðið pláss fyrir Ryan Giggs á miðjunni sem séðan og útsjónarsaman leikstjórnanda sem þurfti minna á hraðanum að halda og var lykilmaður í liðinu sem vann titilinn þrjú ár í röð. Það verður þó að viðurkennast að það hafði meira með heiðurinn að gera, og það að enginn afgerandi framúrskarandi leikmaður var á sviðinu að Ryan Giggs var valinn leikmaður ársins 2009 af leikmönnum.
Í millitíðinni hafði Giggs slegið heildarleikjamet Bobby Charlton þegar hann lék sinn 759. leik fyrir United, og valdi til þess ekki minna svið en úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu vorið 2008 þar sem hann skoraði úr síðasta víti United í vítakeppninni og sá síðan Van der Sar færa United titilinn.
Það hefði einhver haldið að þarna væri hinn fullkomni endapunktur en því fór fjarri. Sex tímabil í viðbót, 204 leikir, 24 mörk og þrír titlar. Eftir þrjátíu og fimm ára aldur.
Og svo lauk hann ferlinum með að vera spilandi framkvæmdastjóri.
Það er hægt að ræða það fram og til baka hver hafi verið hæfileikaríkasti leikmaður United frá upphafi og hver var mesta goðsögnin. Var það Meredith? Edwards? Charlton? Law? Best? Robson? Cantona? Ronaldo? Giggs? Hver veit, hver kynslóð á sína goðsögn, hver aðdáandi sinn uppáhaldsleikmann og þar sem við erum Manchester United mun í framtíðinni bætast á þennan lista. Hitt er víst að stórkostlegasta og sigursælasta ferli nokkurs leikmanns í Englandi er lokið. Takk fyrir okkur, Ryan Giggs