Sem betur fer er þetta hrikalega tímabili lokið. Síðasti leikurinn endaði í jafntefli 1-1, gegn Southampton. United-liðið endar því í 7.sæti með færri stig en liðið hefur nokkurn tíman fengið í sögu úrvalsdeildarinnar. Ryan Giggs stýrði liðinu í síðasta skipti (í bili) og uppstillingin var eftirfarandi
United
De Gea
Smalling Vidic Rio Evra
Fletcher Kagawa
Januzaj Mata Welbeck
RVP
Bekkur: Amos, Carrick, Cleverley, Lawrence, Young, Valencia, Hernandez
Southampton
Boruc
Clyne Fonte Lovren Shaw
Wanayama Davis
Cork Scheiderlin
Lallana
Lambert
Bekkur: Gazzaniga, Ward-Prowse, Guly, Chambers, Hooiveld, Reed, Gallagher.
Það var afskaplega erfitt fyrir United-menn að brjóta upp þennan miðjupakka hjá Southampton. Þeir stilltu upp 5 miðjumönnum á miðjuna og létu bakverðina Clyne og Shaw sjá um að hlaupa upp og niður kantana. Það var mikið pláss á köntunum en með menn eins og Kagawa og Mata í liðinu sem vilja spila boltanum á miðjunni fóru sóknartilburðir United eingöngu í gegnum miðju vallarins. Það var einfalt fyrir Southampton að stoppa það. Í þau örfáu skipti sem United reyndi að fara upp kantana komst liðið í ágæta stöður sóknarlega en það var mjög fátítt. Þetta var eiginlega algjör andstæða við sóknarleik liðsins undir David Moyes þar sem allt snerist um að fara upp kantana.
Southampton-menn stjórnuðu leiknum í fyrri hálfleik og uppskáru mark um miðjan hálfleikinn sem hefði reyndar aldrei átt að standa. Rickie Lambert olnbogaði Nemanja Vidic í drasl í skallaeinvígi. Vidix lá eftir alblóðugur og óvígur. Lambert fékk boltann einn á móti markmanni og kláraði örugglega. Slök dómgæsla hjá Mike Dean sem átti afskaplega dapran leik fyrir bæði lið. Þetta var að vísu fyllilega verðskuldað mark hjá Southampton. Lallana, Lambert og Shaw voru líklega að spila sig endanlega inn á HM í Brasilíu með Hodgson í stúkunni.
Nah, never a freekick that ref. Or a head injury. Smart. pic.twitter.com/cjF6Up2qYm
— Scott (@R_o_M) May 11, 2014
Vidic og allt United-liðið varð alveg brjálað við það að markið fengi að standa og það lifnaði aðeins yfir United-liðinu eftir markið og liðið kláraði fyrri hálfleikinn mun betur en liðið byrjaði hann í það minnsta. Í seinni hálfleik mætti annað lið til leiks. Liðið setti mun meiri pressu á Southampton og uppskárum við mark á 54. mínútu. Juan Mata skoraði eitt af mörkum tímabilsins, beint úr aukaspyrnu, nema hvað. Gjörsamlega frábært mark.
Ekki hægt að segja annað en að Mata sé einn af örfáum ljósu punktum þessa tímabils. #Djöflarnir
— Rauðu djöflarnir (@raududjoflarnir) May 11, 2014
Eftir markið jafnaðist þetta aftur út, það var nánast eins og bæði lið væru sátt við jafnteflið. Það gerðist afskaplega lítið merkilegt það sem eftir var leiks og 1-1 sanngjörn niðurstaða þessa leiks. Lokastaða í deildinni er því eftirfarandi:
Við gerðum okkur grein fyrir því að að þetta yrði erfitt án Sir Alex en ef einhver hefði sagt mér að þetta myndi enda svona hefði ég sagt viðkomandi að hann væri geðveikur.
Að mörgu leyti var þetta endir á ákveðnu tímabili í sögu félagsins. Eftir þetta tímabil er félagið endanlega búið að segja skilið við Sir Alex Ferguson tímabilið. Á næsta tímabili mun Manchester United ekki taka þátt í Evrópukeppni í fyrsta skipti í aldarfjórðung. David Moyes reyndi að fleyta sér áfram á Sir Alex Ferguson öldunni með engum árangri. Sú alda hefur fjarað út. Á næsta tímabili munu margir af helstu máttarstólpum liðsins undir stjórn Ferguson halda á nýjar slóðir. Nemanja Vidic fer. Ryan Giggs mun líklegast hætta ásamt Rio Ferdinand og Patrice Evra. Næsti stjóri mun á næstu 2-3 árum skapa nýtt lið, lið sem er ekki byggt á leikmönnum sem Sir Alex Ferguson ól upp. Hann mun skapa sitt lið, nýtt Manchester United. Stundum þarf nefnilega að rífa niður til þess að byggja upp. Það er verkefnið fyrir næsta stjóra Manchester United.
Við kveðjum því þessar miklu hetjur í sögu Manchester United. Þá félaga Rio Ferdinand og Nemanja Vidic, eitthvað allra besta, ekki það besta, miðvarðapar sem spilað hefur í þessari deild.
Við kveðjum líklega Patrice Evra, þann frábæra leikmann sem hefur átt vinstri bakvarðarstöðu United síðustu árin. Á hátindi ferli síns var hann besti vinstri bakvörður í heiminum, ótrúlegur varnarlega og frábær sóknarlega, ekki nóg með það, hann spilaði nánast hvern einasta leik liðsins.
Síðast en ekki síst munum við líklega ekki sjá þennan snilling leika listir sínar í hinni rauðu United-treyju á ný. Við förum betur yfir það í sérstakri grein síðar. Takk fyrir allt, Sir Ryan Giggs.
Og þar með er þessu afleita tímabili lokið. Liðið brotlenti á tímabilinu á fyrsta tímabilinu eftir lok stjóratíðar Sir Alex Ferguson. Við förum betur yfir þetta járnbrautarslys í sérstakri uppgjörsgrein sem birtist á næstu dögum.