Þessi pistill er í óhefðbundnu lagi og fjallar um ástæðurnar fyrir slöppu gengi Manchester United á tímabilinu. Smelltu á myndina hér að neðan til þess að lesa hann.
Komdu svo aftur og taktu þátt í umræðunum.
Tryggvi Páll skrifaði þann | Engin ummæli
Magnús Þór skrifaði þann | 22 ummæli
Þegar United vann Crystal Palace í síðustu umferð þá kveiknaði von hjá stuðningsmönnum um það væri vendipunktur á tímabilinu. Svo kom leikurinn gegn Olympiakos. En sigurgangan í deildinni hélt áfram í dag.
Þetta var ekki fallegasti fótboltaleikur tímabilsins og maðurinn með flautuna stóð sig ekki jafnvel og hann myndi vilja. Heimamenn komust upp með ansi margt, hóst, Amalfitano, hóst. En fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 34. mínútu þegar Phil Jones skallaði laglega inn aukaspyrnu Robin van Persie. Staðan 0-1 fyrir United og þannig stóðu leikar í hálfleik.
West Brom hefðu getað jafnað þegar Zoltan Gera misnotaði kjörið tækifæri. Robin van Persie var augljóslega orðinn mjög pirraður þegar nokkuð var liðið á seinni hálfleik og nældi sér í gult spjald og var á mörkunum með að fá annað en slapp sem betur fer. Hann var svo að lokum tekinn af velli og inná hans stað kom Danny Welbeck. Þessi skipting breytti spilinu töluvert til hins betra og er það mikið áhyggjuefni hversu illa van Persie og Rooney eru að ná saman. Skyndilega er miklu meira tempó frammi við og liðið hreinlega líktist Manchester United á köflum.
Á 64. mínútu átti Rafael fína fyrirgjöf á Rooney sem skallaði boltann snyrtilega í netið. 2-0 og liðið að spila fínan sóknarbolta. Það var svo á 82. mínútu að Wayne Rooney stingur boltanum inn fyrir vörn Albion á Danny Welbeck sem afgreiddi boltann mjög snyrtilega í markið. 3-0 sigur staðreynd. Shinji Kagawa kom inná fyrir Januzaj og leit ágætlega út, átti marka fína takta sem meira hefði mátt koma úr. Svo þarf ég að minnast á að Fellaini virðist vera að smella betur og betur í liðið og það er vel.
Maður leiksins að mínu mati er Wayne Rooney.
De Gea
Rafael Jones Smalling Evra
Fellaini Carrick
Mata Rooney Januzaj
van Persie
Bekkur: Lindegaard, Giggs, Vidic, Young, Fletcher, Kagawa, Welbeck.
Magnús Þór skrifaði þann | 5 ummæli
Þökk sé dapurri spilamennsku í deildarbikarnum þá höfum ekki séð Manchester United leika knattspyrnu síðan í stórleiknum gegn Olympiakos sem er samróma álit ritstjórnar síðunnar versti leikur United á tímabilinu og þá er mikið sagt. Eftir jafn andlausa og lélega spilamennsku þá er það ekki það besta að fá langt frí milli leikja. En ef þetta lið hefði snefil af sjálfstrausti og lágmarks vítaspyrnu hæfileika þá hefði það leikið í úrslitaleiknum gegn City.
En að leik morgundagsins. West Brom eru í 17. sæti deildarinnar einungis stigi á undan Sunderland sem á leik til góða. Þetta hefur ekki verið gott tímabil hjá þeim þótt þeir hafi undanfarið tekið stig frá Chelsea og Liverpool. Svo má ekki gleyma að þeir unnu United á Old Trafford fyrr í vetur (who hasn’t?). Billy Jones og Diego Lugano verða fjarri góðu gamni á morgun sem og Nicolas Anelka, en hann er náttúrulega í banni og óvíst hvort hann leiki aftur fyrir liðið. Stephane Sessegnon og Claudio Yacob eru tæpir fyrir morgundaginn en gætu mögulega komið við sögu.
Rauðu djöflarnir verða án Javier Hernandez sem meiddist í landsleik með Mexíko og Phil Jones verður líka frá. Rafael er tæpur en gæti mögulega verið í hóp. Sem fyrr er Nani frá vegna meiðsla og Jonny Evans einnig.
Liðið sem ég myndi stilla upp á morgun:
De Gea
Rafael Smalling Vidic Evra
Fellaini Carrick
Mata Rooney Januzaj
van Persie
Björn Friðgeir skrifaði þann | 15 ummæli
Eins og gefur að skilja fara blöðin rækilega í saumana á stöðunni á Old Trafford þessa dagana.
Guardian segir
Independent fer líka yfir njósnastarfið og heldur því fram að framtíð hans sé í hættu .
Í Daily Telegraph segir Paul Hayward sem skrifaði sjálfsævisögu Sir Alex, að hugsanlega sé leikmenn um það bil að gefast upp á Moyes. og Mark Ogden rýnir í ‘hitakortin’ til að sjá hvað sé hæft í ummælum Van Persie um staðsetningar.
Skv þessu sem SportWitness póstaði á twitter
The Robin van Persie interview transcript. Seems Dutch people think it's been overblown. pic.twitter.com/n2h642PqA3
— Sport Witness (@Sport_Witness) February 26, 2014
virðist samt að þessi ummæli séu nú mun vægari en gefið hefur verið til kynna.
Manchester Evening News fer yfir tíu mistök Moyes og skrifar svo opið bréf til hans.
Björn Friðgeir skrifaði þann | 67 ummæli
Við vitum að
En.
Þetta var slík skelfing að ég gefst upp. Ég hef reynt og reynt og vonað og vonað en það er komið út yfir þolmörk.
Ég get alveg fyrirgefið að liðinu gangi ekki vel og það séu ekki að hlaðast inn sigrar. Það sem ég get ekki fyrirgefið er að spilamennska Manchester United sé jafn hrottalega léleg og hún var í kvöld. Ég get ekki fyrirgefið spilamennsku eins og þá sem sást í kvöld þegar leikmenn United virtust líta á miðju vallarins sem einhvers konar glóandi hraun þar sem boltinn mætti alls ekki fara. Boltanum spilað á milli varnarmanna, svo reynt að fara upp kantana og ef fyrirgjöf náðist ekki var leikið til baka til varnarinnar.
Vorið 1981 var Dave Sexton sagt upp störfum eftir sjö leikja sigurhrinu. Hann hafði fengið fjögur ár til að gera eitthvað við hið stórskemmtilega lið sem Tommy Docherty skildi eftir sig og það eina sem hann gerði var að drepa niður alla leikgleði og spilamennsku. Meira að segja Manchester United stjórnin áttaði sig að endingu á að svoleiðis gekk ekki undir merkjum Manchester United.
David Moyes hefur ekki fengið langan tíma og án efa eru of margir leikmenn í hópnum sem ekki nenna að spila undir hans stjórn, eru andlega búnir að stimpla sig út úr vinnunni hjá Manchester United. En jafnvel þó að það væri raunin væri ekkert mál að fyrirgefa sem fyrr segir ef eitthvað benti til að Moyes væri að reyna að leggja upp með spilamennsku sem í það minnsta skilaði skemmtilegum fótbolta. Sú er ekki raunin. Ég hef misst trú á að jafnvel sú hreinsun sem stefnir í í sumar skili leikmannahóp sem muni spila skemmtilega og árangursríka knattspyrnu undir stjórn David Moyes. Því segi ég aftur:
Það má vera að stjórn Manchester United segi honum ekki upp fyrr en í fulla hnefana og það mun verða mjög erfitt fyrir Sir Alex að viðurkenna með slíkum brottrekstri að ráðningin hafi verið mistök. En í kvöld segi ég að það sé aðeins tímaspursmál hvenær það verði. Ég treysti honum ekki lengur til að vera maðurinn til að velja þá leikmenn sem eyða þarf stórfé í í sumar til að fylla í risastór skörð sem augljóslega eru í leikmannahópnum. Fyrir leikinn var ég að horfa á myndir frá þrennutímabilinu. Eins og frammistaða leikmanna hefur verið í vetur er David De Gea eini maðurinn sem kæmist í 18 manna hópinn sem þá var, sem varamarkmaður. Wayne Rooney gæti svo kannske bolað Teddy Sheringham út. Þetta segir gríðarlega mikið um stöðuna sem er á liðinu í dag.
Fyrir leikinn sagði Moyes að lykilatriði í leiknum væri að skora mark. Liðið sem hann stillti upp til þess var svona
De Gea
Smalling Ferdinand Vidic Evra
Valencia Carrick Cleverley Young
Rooney
Van Persie
Varamenn: Lindegaard, Büttner, Fellaini, Giggs, Kagawa, Hernandez, Welbeck
Einn jafnbesti maður liðsins síðustu mánuði og pilturinn sem getur breytt hlutunum, Adnan Januzaj, var ekki einu sinni á bekknum. Moyes vill ekki ofreyna hann og hann er því hvíldur þó heilir 11 dagar séu í næsta leik.
Annar leikmaður hafði án efa verið besti leikmaður United í riðlakeppninn. Shinji Kagawa fékk þó að minnsta kosti að vera á bekknum en byrja fékk hann ekki því 4-4-2 var aftur mætt á svæðið og Valencia og Young settir á kantana. Lítið hægt að finna að varnaruppstillingunni þegar Rafael, Jones og Evans voru allir meiddir, þrátt fyrir að marksannað sé að Chris Smalling sé haffsent en ekki bakvörður.
Olympiakos byrjaði leikinn mun betur og pressaði United langt aftur. Fyrstu tíu mínúturnar fékk Evra gult spjald fyrir hendi, Ferdinand átti tvær slæmar sendingar sem hefðu getað valdið skaða og einungis frábærlega tímasett blokkering Vidic kom í veg fyrir að Domínguez kæmist í gegn eftir að hafa farið auðveldlega framhjá öllum öðrum United leikmönnum.
Eftir þetta róaðist sókn Olympiakos nokkuð og United hélt boltanum langtímum saman. Leikmenn gerðu þó ekkert við boltann nema að leika honum saman aftast á vellinum, reyna að spila upp kantana og ná fyrirgjöf. Ef menn lentu í erfiðleikum á köntunum var boltanum spilað til baka, vörnin spilaði og svo var reynt að fara upp hinn kantinn. Boltinn kom hreinlega aldrei inn á miðjuna og það var ekkert spil nálægt teig andstæðinganna. Engin þeirra fyrirgjafa sem reynd var lenti á sóknarmanni og þetta var orðinn hroðalega leiðinlegur leikur.
Þá sjaldan Olympiakos sótti komust þeir mun nær með spil sitt en United gerði þó að ekki kæmust þeir í færi. Þeir þurftu enda ekki færi til að skora. Á 38. mínútu skaut fyrirliði þeirra, Maniatis, að marki, Alejandro Domínguez slæmdi hælnum í boltann, akkúrat nóg til að De Gea næði ekki að skipta um stefnu í tæka tíð og boltinn lak inn. Skelfilegt mark sem hæfði skelfilegum leik.
Varla mínútu síðar fengu United aukaspyrnu, Rooney sendi inn í teig, varnarmaður skallaði yfir en markvörðurinn lenti í miklu samstuði við Van Persie sem vankaðist illa. Hann náði þó að halda áfram. United skreiddist þannig inn í hálfleikinn einu marki undir eftir versta hálfleik vetrarins.
Seinni hálfleikur byrjaði nákvæmlega jafn illa og það voru ekki tíu mínútur liðnar þegar Olympiakos sýndi United hvernig spila átti saman á miðjunni, Joel Campbell, lánsmaður frá Arsenal fékk að spila boltanum gegnum klofið á Carrick og skjóta glæsilega af 25 metra færi, nákvæmt skot með nægum snúningi til að boltinn small í netinu næstum úti við stöng, óverjandi fyrir De Gea og Olympiakos var komið í sanngjarna 2-0 forystu.
Þá loksins gerði Moyes breytingar. Cleverley og Valencia höfðu báðir verið skelfilegir frá fyrst mínútu og hefðu mátt fara útaf eftir hálftíma en ekki 60 mínútur eins og raunin var. Kagawa og Welbeck komu inná í staðinn fyrir þá. Og þar sem Welbeck hefur margoft spilað út úr stöðu úti á kanti og er þó frekar vanur því, var hann settur í holuna og Kagawa plantað á kantinn.
Þetta hafði engin áhrif til góðs á leik United og eftir því sem á leið fóru Olympiakos að vera meira og meira með boltann.
Loksins á 82. mínútu fékk United færi og það var frábært. Smalling fékk sendingu upp kantinn, náði fyrirgjöfinni og aldrei þessu vant beint á Van Persie sem lagði boltann fyrir sig framhjá varnarmanni og hamraði svo yfir. Örlítið meiri ömurð til að bæta við allt sem á undan var komið.
Því sem næst það eina sem hægt er að fara með úr leiknum jákvætt var að Rooney var þokkalegur á miðjunni. Hvað svo sem honum finnst þá hlýtur það að vera framtíðarstaða hans a.m.k. tvö ef ekki þrjú ár af þessum massífa fimm og hálfs ár samningi.
Vorið 1984 kom Barcelona á Old Trafford með tveggja marka forskot í farteskinu og Diego Armando Maradona í treyju númer tíu. Í stórfenglegasta leik sem Old Trafford hefur séð vann United 3-0 sigur og komst áfram í Evrópukeppni bikarhafa. Að þrem vikum liðnum bíður Manchester United erfiðara verkefni en þetta marskvöld fyrir 30 árum. Þá höfðum við nefnilega Bryan Robson. Nú höfum við engan slíkan.
Vertu með í Fantasy leiknum okkar!