Í dag hélt Manchester United til vöggu evrópskrar menningar, Grikklands og mæta á morgun sigursælasta liði Grikklands fyrr og síðar, Olympiakos frá Piræus. Síðan 1997 hafa Olympiakos orðið grískir meistarar öll árin nema tvö og á þessum árum tekið sjö tvennur. Þetta er í fjórða skiptið sem Olympiakos kemst áfram í Meistaradeildinni en Juventus, Bordeaux og Chelsea hafa séð til þess að sextán liða úrslit er enn besti árangur þeirra.
United voru fastagestir í Grikklandi í kringum aldamót, lentu fjögur ár í röð á móti þarlendum liðum. Tvisvar átti Olympiakos í hlut og í öllum fjórum leikjunum vann United öruggan sigur. Þetta verður þó í fyrsta sinn sem United heimsækir Karaiskakis leikvanginn. Á þeim árum voru Olympiakos í útlegð, léku í Aþenu en þó ótrúlegt megi virðast er þetta vinsælasta lið Grikklands frá hafnarborginni Piræus sem fyrr segir.
Hinn nýi Karaiskakis leikvangur var endurbyggður á árunum eftir 2000 einmitt þegar Olympiakos tók á móti United, og tekur nú 34 þúsund manns í stæði, en eins og sá leikmaður Olympiakos sem við þekkjum best, Roy Carroll sagði í viðtali fyrir þennan leik, þá er stemmingin slík að það er eins og um 100 þúsund manns sé að ræða. Það lítur út fyrir að þessi tólfti maður þeirra verði þeirra sterkasti maður. Góð frammistaða Grikkjanna í riðlakeppninni þar sem þeir unnu Anderlecht heima og heiman, unnu Benfica heima og gerðu jafntefli á Estádio da Luz í Lissabon en töpuðu báðum gegn PSG byggðist að miklu á mörkum þeirra Konstantinos Mitroglou sem var keyptur af Fulham í glugganum (Takk René) og Javier Saviola sem mun missa af leiknum vegna meiðsla. Þá er það víst framsækni miðjumaðurinn Alejandro Domínguez sem er eftir að aðalmarkaskorurum þeirra þannig að vonandi verður það minna mál en ella að halda þeim niðri.
Sem fyrr segir er okkar gamli markvörður Roy Carrol í röðum Olympiakos en hann er því miður bara varamaður og því ekki hægt að treysta á hann til að hjálpa okkur. Það er hins vegar þjálfari Olympiakos sem er þeirra langþekktasti liðsmaður. Það er enginn annar en Spánverjinn Míchel sem flestir knattspyrnuáhugamenn þekkja sem komnir á besta aldur. Hann var fastamaður Real Madrid og spænska landsliðsins á níunda áratugnum og fram á þann tíunda. Því miður var þetta þegar spænska landsliðið var eilíflega lélegra en efni stóðu til en Míchel var einn af þeim sem sköruðu fram úr þar. „El Quinta del Buitre“ voru fimmmenningar frá Real sem er alveg þess virði að lesa um til að kynna sér feril Míchel, Emilio Buitragueño og fleiri. Þjálfaraferill Míchels er þó ekki líkt eins glæsilegur og leikferillinn og vonandi tekur hann ekki upp á að næla stjörnum á sig fyrir að slá út Manchester United.
Að okkar mönnum: Góður sigur á laugardaginn gegn Crystal Palace er fínt veganesti inn í leikinn á morgun. Phil Jones og Jonny Evans eru enn frá vegna meiðsla og verða ekki með. Að öðru leyti er ekki hægt annað en að vona að liðið verði svipað og gegn Palace. Ég á erfitt með að sjá að gömlu mennirnir Vidić og Ferdinand þurfi báðir að þræla sér út þrem dögum eftir síðasta leik og ef Rafael er heill og hann er jú í Grikklandi þá slæ ég á þetta lið:
De Gea
Rafael Vidic Smalling Evra
Carrick Fellaini
Valencia Rooney Januzaj
Van Persie
Ég segi það alveg hreint út að það verða vonbrigði ef það á að fara að gefa Young eða Valencia einhverja sénsa inn í þetta. Ég yrði þó nákvæmlega ekkert hissa þó Januzaj verði ekki í byrjunarliði. Að hann hafi verið tekinn útaf á laugardaginn gefur manni samt von.
[viðbót] Ef ég hefði sett klausuna sem ég var að hugsa um, um að Míchel hefði þjálfað Mata hjá Real Madrid B en myndi ekki mæta honum af því Mata hefði ekki leikheimild hefði ég kannske ekki skrifað liðsuppstillinguna á autopilot. Eins og er þá held ég að Valencia sé líklegri en Young þarna inn og Januzaj verður örugglega með [viðbót endar]
Þetta er ósköp einfalt: Leikurinn á morgun á að vinnast. Ég get alveg gefið það upp hér og nú að ef staðan verður 1-0 fyrir okkur og lítið eftir og við förum að sýna varkáran leik og halda bara boltanum þá verð ég verulega pirraður!