Það er alveg ofboðslega gaman að vera stuðningsmaður United í dag. Liðið spilar hrottalega leiðinlega og óárangursríka knattspyrnu sem myndi varla sæma 4. deildinni hérna á Íslandi. Leiðið hugann að því hversu fáránlegt það er að reyna 82 fyrirgjafir í einum leik. Það er tæplega 1 fyrirgöf á mínútu. Það er ekkert í spilunum sem bendir til þess að United hafi getu né burði til að nálgast þetta 4. sæti. Ekki ef lið með Mata, Rooney, Robin van Persie, Januzaj og passívistu miðjumenn í heimi ætlar bara að dúndra boltanum í teiginn og vona það besta við hvert einasta tækifæri.
Nei, bestu lið heimsins spila ekki upp á von og óvon. Þau vita nákvæmlega hvernig þau ætla að vinna leiki og þau vita að eintómar fyrirgjafir eru svo sannarlega ekki leiðin til þess. Ég legg til að Moyes leggi 5000 punda sekt á hverja fyrirgjöf í leiknum gegn Arsenal. Það er áhrifaríkasta leiðin til að fá leikmenn liðsins til þess að gera eitthvað annað en að færa boltann á millli kanta og negla svo inn í á eina framherjann okkar sem er umkringdur 7 varnarmönnum.
Fyrsta tækifærið til að prófa nýja hluti er gegn Arsenal á morgun.
Þeir fóru á Anfield á laugardaginn og þar með hófst hið hefðbundna hrun Arsenal eftir áramót. Þeir fengu fullkomna rasskellingu á fyrsta korterinu og eru væntanlega í sárum eftir þann leik. Það er alltaf hressandi að mæta liðum sem eru nýbúin að fara í gegnum stór töp og leikurinn á morgun verður því mjög áhugaverður. Þar fáum við að sjá hvort að Wenger og lið hans búi yfir nógu miklum andlegum styrkleika til þess að halda áfram í titilbaráttunni. Þeirra eru að hefja rosalegt leikjaprógram og eftir 2-3 vikur munum við sjá hvort að Arsenal geti unnið titilinn.
Við eigum engan séns á því og 4. sæti fjarlægist bara með hverjum leik sem spilaður er. Það sem maður vill sjá það sem er eftir tímabilsins eru nýjar áherslur í leik liðsins og að leikmenn spili upp á framtíðina. Það þarf að hreinsa verulega til á Old Trafford og nú hafa ákveðnir kjörið tækifæri til að spila sig inn í framtíðina hjá United.
Rio og Vidic eru væntanlega báðir á förum sem opnar á möguleika fyrir Jones/Evans og Smalling að eigna sér þessar tvær stöður sem í boði eru. Rafael þarf að sýna það að hann geti verið hægri bakvörður nr.1 í framtíðinni. Á miðjunni þurfa menn að gera meira en að bara að fá boltann og senda hann á næsta mann og á köntunum þurfa leikmenn á borð við Young, Valencia og Nani að sýna það að þeir eigi heima í þessu liði. Það er pláss fyrir einhverja af þessum leikmönnum því að það er ekki hægt að skipta út heilu liði á einu bretti. Þeim leikmönnum sem tekst ekki að sanna sig þurfa að fara og búa til pláss fyrir nýtt Manchester United-lið. Það var auðvelt fyrir alla þessa leikmenn að koma inn í þá sigurhefð sem Sir Alex Ferguson skapaði. Núna þurfa þeir að sýna og sanna að þeir geti spilað hlutverk í stærstu áskorun Manchester United til þessa:
Að byggja upp nýja sigurhefð, nánast frá grunni.
Hefst það á Emirates á morgun? Vonum það.
Líklegt byrjunarlið:
De Gea
Rafael Smalling Evans Evra
Jones Carrick
Januzaj Rooney Mata
van Persie
Leikurinn verður spilaður á miðvikudaginn og hefst klukkan 19.45.