Það ömurlegasta sem ég veit um er að þurfa skrifa leikskýrslu fyrir leiki þar sem ég öskra af reiði á imbakassan í leikslok. Leikskýrslan í dag fellur í þann flokk.
Byrjum á staðreyndunum. Stoke sigraði United með tveimur mörkum gegn einu. Charlie Adam skoraði bæði mörk Stoke í leiknum (á 38′ og 52′ mín) en Van Persie fyrir okkar menn (á 47′ mín). Moyes var ekkert að tefla neinu miðlungsliði gegn Stoke. Það má alveg halda því fram að þetta hafi nú einfaldlega verið eitt af betri byrjunarliðum United í langan tíma, Rooney, Van Persie og Mata í framlínunni og Carrick óvænt mættur á miðjuna. Svona leit liðsuppstillingin hjá okkar mönnum í dag:
De Gea
Jones Smalling Evans Evra
Carrick Cleverley
Young Rooney Mata
Van Persie
Á bekknum voru svo: Lindegaard, Rafael, Hernandez, Welbeck, Fletcher, Valencia, Januzaj.
Rafael látinn vera á bekknum vegna fæðingargalla, þ.e.a.s hann er ekki nógu hávaxinn drengurinn og fékk því Jones það hlutverk að spila sem hægri bak. Á Britannia vellinum var leiðindavindur sem hafði nokkur áhrif á spilamennsku liðanna í dag. Eins og flest lið sem hafa mætt United á þessu tímabili, þá var dagsskipunin að pressa leikmenn United frá fyrstu mínútu. Af hverju gera lið það? Því það svínvirkar! Leikmenn United hafa í vetur átt í stökustu vandræðum með að refsa liðum sem spila þannig gegn þeim en ólíkt fyrri leikjum þá gerðu leikmenn United slíkt hið sama. Um leið og Stoke náði boltanum þá voru leikmenn United byrjaðir að hlaupa í átt að þeim í von um að ná boltanum aftur. Þetta var ánægjulegt að sjá og fékk maður þá tilfinningu að þetta yrði góður dagur fyrir okkar menn.
Byrjuðu þá ósköpin. Eftir tíu mínútur þurfti Moyes að gera breytingu þegar Evans byrjaði að haltra. Inn á kom Rafael í hægri bakvarðarstöðuna og fór Phil Jones færði sig yfir í miðvörðinn. Fyrsta færi United kom á 14. mínútu þegar Rooney fékk góða sendingu inn í teig frá Evra en skot hans vel framhjá. Fyrri hálfleikur var frekar jafn en United þarf að sjálfsögðu alltaf að byrja á því að fá á sig mark. Smalling fær dæmt á sig afskaplega vægt brot langt fyrir utan vítateig United. Charlie Adams þrumar í átt að markinu og lendir boltinn klaufalega í Carrick og gjörbreytir um stefnu þannig að hann lekur framhjá De Gea í markinu. Eitt núll fyrir Stoke eftir 38 mínútur. Hlutirnir voru svo ekkert að fara skána því stuttu síðar lendir Jones í samstuði við leikmann Stoke sem gaf honum heilahristing og þurfti að bera drenginn út af vellinum í kjölfarið. Inn á kom Welbeck, sem átti einn sinn allra slakasta leik fyrir United á þessu tímabili, sem þýddi það að Carrick þurfti að spila sem miðvörður út leikinn.
Í hálfleik voru United einu marki undir, búnir að gera tvær skiptingar og tveir leikmenn komnir á meiðslalistann. Fólk getur haft hvaða skoðun sem er á David Moyes en það verður ekki tekið af honum að þetta er alveg skelfileg óheppni. Þrátt fyrir þetta hélt maður í trúna því við höfðum alveg með nógu gott lið til að snúa þessu við í seinni hálfleik.
Seinni hálfleikur hófst og það tók United ekki meira en 90 sekúndur til að skora. Boltinn datt til Mata fyrir utan vítateig Stoke og kemur hann með þessa snyrtilegu sendingu á Van Persie sem klárar færið eins og sönnum framherja sæmir. Tveir leikir og tvær stoðsendingar fyrir Mata og sjöunda mark Van Persie í röð gegn Stoke. Staðan eitt eitt og nánast allur seinni hálfleikur eftir. Það hefur eitthvað hinsvegar verið eitthvað hrikalega gott í matnum hans Charlie Adam um morguninn því á 51 mínútu á hann alveg stórkostlegt skot, eftir skelfilega varnarvinnu hjá United, sem var algjörlega óverjandi fyrir De Gea markinu. Tvö eitt fyrir Stoke.
Moyes ákvað að taka Van Persie út af á 79. mín og setti Chicharito inn. United sótti vel að marki Stoke síðustu 10-15 mínútur leiksins en vörn Stoke stóð sig vel. Besta færið féll til Cleverley stuttu fyrir leikslok en eins og svo oft áður náði hann að þruma boltanum langt yfir markið.
Eins og gengur og gerist þá voru nokkur umdeild atvik í leiknum sem mætti alveg spyrja sig hvort dómarinn hefði ekki mátt gera betur. Þau sem ég tók eftir voru t.d.
– Brotið á Van Persie inn í vítateig Stoke í fyrri hálfleik
– Brotið á Mata inn í vítateig Stoke í seinni hálfleik
– Gula spjaldið sem Walters fékk fyrir brot á Smalling í seinni hálfleik
Staðreyndin er samt sú að United spilaði ekki nógu vel og Stoke vinnur deildarleik gegn United í fyrsta skipti síðan 1984.
Lokaorð
Ef Liverpool vinnur sinn leik á morgun gegn West Brom, sem verður nú að teljast ansi líklegt, þá verður alveg skelfilega erfitt fyrir United að ná fjórða sætinu. Liðið verður að fara spila betur og fara vinna sína leiki ef það á að eiga einhver möguleika á meistaradeildarsæti. Svo á sama tíma og við töpum gegn Stoke nær Everton þremur stigum gegn Villa og Spurs gera jafntefli gegn Hull sem þýðir að nú eru fjögur stig í sjötta sætið og fimm í það fimmta. Svo á sama tíma spilar Zaha fyrir Cardiff og nær tveimur stoðsendingum. Það er jafnmargar stoðsendingar og Antonio Valencia, Nani og Ashley Young hafa náð í sínum fjörtíu og einum leik á þessu tímabili.
Það er alveg einstaklega þreytandi að sjá liðið vera sífellt að koma með þessar löngu sendingar fram á völlinn (Já, ég er að horfa á þig Smalling) sem skila nákvæmlega engu. Ég hreinlega nenni ekki að fara yfir tölfræði leiksins en þetta voru nokkrir tugi sendinga sem leikmenn Stoke elska að fá og taka á móti. Þú vinnur ekki Stoke með þessari taktík því þetta er akkurat það sem þeir gera virkilega vel og vilja sjá frá andstæðingum sínum.
Maður er byrjaður að hljóma eins og biluð plata en að sjálfsögðu þarf að gefa Moyes meiri tíma en eitt tímabil. Það þarf sérstaklega að minna sig á þetta þegar það gengur illa því það er rosalega auðvelt að segjast vera þolinmóður stuðningsmaður þegar liðinu gengur vel. United er ekki að fara reka manninn og er ég persónulega ánægður með það því ég vil ekki sjá okkar lið fara breytast í sirkus eins og sést svo oft hjá Real Madrid, Man City og Chelsea. Áður en einhver fer að tala um hversu góð lið það eru, þá bendi ég á fílinn í herberginu, eigendur liðanna. Frekar þigg ég erfiða tíma sem gefur Moyes tækifæri til að byggja upp sitt lið og koma okkur á sigurbraut. Þrátt fyrir að styðja manninn 100% þá er hann ekki hafinn yfir gagnrýni. Takið eftir orðinu: „gagnrýni“, það er ekki þetta leiðinda drull sem maður sér allt of oft. Stundum fær maður þá tilfinningu að fólk hreinlega vilji sjá Moyes mistakast því hann var ekki sá sem það vildi sjá taka við Ferguson.
https://twitter.com/ProudRed85/status/429687761407201281
Eftir þennan leik þarf samt að spyrja Moyes af hverju í ósköpunum hann setur Welbeck inn fyrir Jones í stað t.d. Fletcher? Af hverju lætur hann Chicharito inn fyrir Van Persie þegar liðið er ekki að skapa neitt af viti, Chicharito skorar bara þegar United nær að skapa færi án þess að skora en ekki þegar liðinu vantar aðstoð við að skapa færin. Januzaj hefði að mínu mati verið skynsamlegri kostur ef það á að taka Van Persie út. Af hverju erum við sífellt að koma með háar sendingar langt fram á völlinn gegn Stoke? Af hverjum höldum við áfram að senda háar sendingar fram á við eftir að það er löngu orðið ljóst að það sé ekki virka?
Átta dagar í næsta leik sem spilaður verður á Old Trafford gegn Fulham. Eftir það ferðumst við til London og heimsækjum Arsenal á Emirates. Nú vonar maður að þessir átta dagar verði nýttir til hins ítrasta og að eitthvað stórkostlegt fari að gerast í spilamennsku liðsins.
Maður getur vonað.