Byrjum á góðu fréttunum. Samkvæmt The Telegraph hefur Chelsea samþykkt tilboð United í Juan Mata og allt er klappað og klárt, það eina sem eftir er læknisskoðun sem fram á að fara á morgun. Spennandi fréttir og vonandi fyrsta skrefið af mörgum til þess að bæta þennan leikmannahóp.
Þetta voru 119 mínútur af hreinræktuðum leiðindum, 2 mínútur af hreinni spennu og 5 mínútur af slökustu vítaspyrnukeppni í sögu knattspyrnunnar.
Byrjunarliðið var svona:
De Gea
Rafael Smalling Evans Büttner
Carrick Fletcher
Januzaj Welbeck Kagawa
Chicharito
Bekkur: Lindegaard, Evra, Jones, Cleverley, Giggs, Young, Valencia.
Sunderland: Mannone, Bardsley, Alonso, Brown, O’Shea (c), Cattermole, Colback, Ki, Johnson, Borini, Fletcher.
Fyrri leikurinn fór 2-1 og við þurftum því að skora meira en Sunderland til að fara áfram í kvöld. Það gekk ekki eftir. Það er nánast tilgangslaust að fjalla eitthvað um fyrstu 118 mínúturnar. Það var mikið um hlaup og mikið um baráttu hjá báðum liðum en afskaplega lítið um fótbolta. Okkur tókst þó að hnoða inn marki þegar Jonny Evans skoraði eftir horn. Leikurinn hóst af alvöru þegar David De Gea gerði sín verstu mistök í United-treyjunni til þessa. Á einhvern ótrúlegan hátt missti hann tiltölulega lélegt skot Bardsley í netið og staðan 1-1, Sunderland á leiðinni á Wembley. Virkilega slæmur tímapunktur til að gera mistök, David. Hann hefur verið slakur undanfarið en það er svo sem hægt að fyrirgefa honum það, hann hefur reddað okkur áður og það oft.
Við brunuðum í sókn og Chicarito gerði sitt allra besta til að skjóta yfir af 1 metra færi eftir frábæran undirbúning Adnan Januzaj en mistókst það og staðan því 2-1. Vítaspyrnukeppni staðreynd.
Darren Fletcher var sá eini sem skoraði úr víti fyrir okkur, Danny Welbeck og Phil Jones skutu yfir og Rafael og Januzaj létu verja frá sér. De Gea varði vítin frá Steven Fletcher og Adam Johnson, Graig Gardner skaut yfir en Ki-Sung Yueng og Marcos Alonso kláruðu sín víti.
Vítaspyrnukeppnin var alveg eins og leikurinn. Lítið um gæði en mikið um kraft enda kepptust menn við að negla yfir. De Gea hélt okkur inn í þessu með að verja tvo víti en þegar útileikmennirnir geta bara skorað úr einu af 5 er voðinn vís. Sunderland, já Sunderland sló okkur því út og verður því leitt til slátrunar á Wembley þegar liðið mætir City í úrslitunum.
Þessi leikur var í raun bara þverskurður af þessu tímabili. Liðið að spila illa en samt með forustu í leiknum 95% af honum og svo koma einhver fáranleg einstaklingsmistök sem kosta stigin eða úrslitin. Það segir allt sem segja þarf um hvað þetta lið þarf að fara í mikla endurnýjun að í leik eftir leik er Adnan Januzaj, 18 ára unglingur sem enginn vissi hver var fyrir örfáum mánuðum okkar langbesti leikmaður og það sem meira er, sá eini sem virðist vera tilbúinn til að leggja eitthvað á sig í leikjum liðsins. Er það tilviljun að hann er eini leikmaður liðsins sem spilaði ekki undir stjórn Sir Alex Ferguson? Eru leikmenn orðnir saddir og nenna ekki að leggja á sig það sem þarf til að rífa sig upp úr þessari lægð?
Moyes er vorkunn, enda mikið um meiðsli í hópnum en hann verður að átta sig á því að það er eitthvað ekki í lagi. Sumir leikmenn virðast áhugalausir og þeir sem eru slakir fá endalaus tækifæri. Afhverju má ekki gefa Fabio tækifæri fram yfir Evra? Hvaða tak hafa kantmennirnir okkar á Moyes og hversu slakur er Zaha á æfingum fyrst að hann kemst ekki í liðið á kostnað Valencia eða Young! Það má alveg prófa eitthvað nýtt!
David Moyes var ráðinn til Manchester United vegna þess að það er klúbbur sem ræktar hæfileika og klúbbur þar sem menn fá tækifæri til þess að vaxa í starfi, hvort sem að þú ert leikmaður eða knattspyrnustjóri. Svona hefur það verið, svona mun það vera og svona á það að vera. Moyes náði fínum árangri með Everton en fjandinn hafi það, það er ekki nógu gott fyrir Manchester United. Moyes þarf að sýna það að hann geti vaxið í þessu starfi líkt og Busby og Ferguson gerðu. Það væri fínt ef hann myndi byrja á því í næsta leik.