Á morgun tekur United á móti Swansea í annað skipti á innan við viku. Við þurfum ekkert að ræða það neitt frekar hvernig leikurinn spilaðist síðasta sunnudag, enda einn af lágpunktum tímabilsins (hingað til allavega). Ef ég væri leikmaður United þá væri ég mjög æstur í að spila þennan leik á morgun og hefna fyrir „ruglið“ um síðustu helgi. Það verður því forvitnilegt að sjá hvaða leikmenn mæta dýrvitlausir til leiks og hverjir ekki (ef einhverjir). Ef þetta er ekki tækifærið fyrir leikmenn liðsins til að sýna öllum hvað þeim virkilega finnst um gengið undanfarna daga, já þá veit ég ekki hvað þarf til að vekja þessa menn.
Skoðum aðeins hvernig byrjunarliðið gæti orðið. Rooney* ætti að vera kominn aftur, og kannski Phil Jones líka, en Evans og Ferdinand eru báðir meiddir. Spáum þessu svona:
De Gea
Rafael Smalling Vidic Evra
Carrick Cleverley
Valencia Rooney Januzaj
Welbeck
Já þetta verður athyglisverður leikur, tja eins og allir leikir liðsins þessa dagana. Ef ég sé einn United leikmann inn á vellinum með hangandi haus þá hrynur sá maður í áliti hjá mér. Ég ætla ekki að gera kröfu um einhvern 5-0 sigur, ég vil bara sjá menn leggja allt í sölurnar, þetta er tíminn til þess. Ég vil sjá liðið spila eins og þeir gerðu gegn Arsenal á Old Trafford, því ef við sjáum svoleiðis baráttu, þá getur þetta hæglega orðið 5-0 sigur!
Annars er það eitt að hefna fyrir tapið í bikarnum um síðustu helgi og svo er það annað að halda áfram að elta efstu sex liðin í deildinni. Flest þeirra eiga leiki í „auðveldari kantinum“ þannig að við megum ekki við því að missa þau lengra framúr okkur.
Leikurinn byrjar klukkan 17:30. ÁFRAM MANCHESTER UNITED!
* Uppfært: Það hefur verið gefið út að Rooney hefur verið sendur í frí til að ná sér góðum af nárameiðslum, hann spilar því ekki á morgun. Ætli Kagawa sé ekki líklegastur til að koma inn fyrir hann.