Eins og undanfarið var byrjunarliðið búið að leka til David McDonnell, blaðamanns á Daily Mirror, @DiscoMirror áður en nokkur annar birti það.
De Gea
Rafael Smalling Evans Evra
Cleverley Jones Anderson
Valencia Young
Welbeck
Varamenn: Johnstone, Hernandez, Nani, Fletcher, Kagawa, Büttner, Zaha
Þegar þetta lið var birt var ekki laust við að ég óttaðist að þriggja manna miðjan yrði aðeins of neikvæð. Það kom í ljós að það reyndist nokkuð rétt og nákvæmlega ekki neitt gerðist í fyrri hálfleik, utan að dómarinn tók leikmenn útaf í 5 mínútur þegar hríðin var orðin svo þétt að hann sá ekki út úr augum. Reyndar hjálpar ekki að skýrsluhöfundur sofnaði yfir leiknum og svaf fram í seinni hálfleik. Moyes hefur líklega heyrt af þessu því hann kippti Anderson útaf og setti Hernandez inná. Það tók ekki langan tíma ða bera ávöxt. Ashley Young sem hafði verið jafn slakur og alltaf kom á blússandi ferð upp miðjuna, gaf á Hernandez og fékk boltann beint til baka og bombaði í netið utan teigs. Sørensen hafði fingur á boltanum en hefði eins getað verið að stoppa fallbyssukúlu. Gjörsamlega ótrúlegt mark úr ótrúlegri átt. Young fagnaði enda gríðarlega þessu fyrsta marki frá maí 2012, hvarf inn í stuðningsmannahópinn fyrir aftan markið og uppskar gult spjald fyrir.
United voru síðan mun betri eftir markið, fóru að spila mun betur. Young sýndi betur hvað hann gat með skemmtilegu skoti sem fór um 20m framhjá. Svona til að kóróna underlegheit þessa leiks átti hann síðan snyrtilega sendingu á Evra sem komst á auðan sjó í teignum og skoraði með frábæru bananaskoti.
Hápunktur þess sem eftir var þegar Fletcher kom loksins inná og fékk óð sér til heiðurs frá stuðningsmönnunum í gestastúkunni sem voru gjörsamlega frábærir í kvöld, héldu uppi stemming frá fyrstu til síðustu mínútu. Þeir sungu „If Fletcher scores, we’re on the pitch“ og fengu fyrir vikið óslitna línu vallarvarða fyrir framan sig. Fletcher skoraði þó ekki í leiknum, tók ekki ráðum stuðningsmanna sem hvöttu hann til að skjóta hvenær sem hann fékk boltann.
Þetta stefndi allt í leiðinlegasta leik vetrarins en tvö frábær mörk björguðu málum.