Newcastle kemur í heimsókn til Manchester á morgun og hefst leikurinn kl. 12:45. Newcastle átti mjög góðan nóvember og var Alan Pardew valinn stjóri mánaðarins og Tim Krul leikmaður mánaðarins. Fyrir vikið er Newcastle stigi á undan United í 7.sæti. Þeir byrjuðu þó ekki desember gæfulega, töpuðu 3-0 í Swansea. Það er franska innrásin í Newcastle sem er að gera góðu hlutina þar (auðvitað fyrir utan Hollendinginn Krul, Fílabeinsstrendinginn Tiote, Senegalann Cissé og Argentínumanninn Coloccini) og leikmenn á borð við Loïc Rémy, Yohan Cabayé (sem hefur oft verið orðaður við okkur), Yoan Gouffran, Mathieu Debuchy, og Moussa Sissoko hafa allir staðið sig vel í vetur. Þannig það verður ekki mjög enskt lið sem kemur á Old Trafford!
United verður án Wayne Rooney sem er í leikbanni, óvíst er um heilsu Shinji Kagawa sem fékk einhvers konar aðsvif eftir leikinn á miðvikudag (ha? hvaða leik á miðvikudag? var leikur á miðvikudaginn?) og óvíst er um Robin van Persie.
Þannig að liðið getur litið einhvern veginn svona út:
De Gea
Rafael Evans Ferdinand Evra
Januzaj Cleverley Jones Nani
Fellaini
Chicharito
Þetta er byggt á hugmynd sem sumir hafa velt up í dag, að Fellaini hafi jú staðið sig hvað best í holunni þegar hann var að spila fyrir Everton í fyrra. Ef hann, Cleverley og Jones eru svo allir á miðjunni eru líkur á að við ættum jafnvel að geta haldið boltanum vel. Það er algerlega kominn tími á að Januzaj byrji og spili heilan leik, hann getur ekki staðið sig ver en aðrir hafa verið að spila.
Annars er fátt meira að segja akkúrat núna, þessi leikur á morgun mun segja okkur mikið, mikið meira.
Að lokum, þau sem vilja heyra ofanritaðan tjá sig á öldum ljósvakans um United geta farið hlustað á Sportrásina frá í gær, Umfjöllunin byrjar á 34:24.
Loks minni ég á verðlaunagetraun Rauðu djöflanna!