Við áttum alltaf eftir að tilkynna úrslitin í kosningunni á leikmanni októbermánaðar. Úrslitin eru eins tæp og þau geta orðið en Wayne Rooney stóp uppi sem sigurvegari með aðeins einu atkvæði meira en ungstirnið Adnan Januzaj. Rooney var einnig leikmaður septembermánaðar og stefnir hraðbyri á að vera leikmaður nóvembermánaðar enda búinn að vera besti leikmaðurinn í liðinu í nóvember. Til hamingju með þennan stóra titil, Wayne!
[poll id=“10″]
Í öðrum fréttum er það helst að Michael Carrick verður frá vegna meiðsla næstu 4-6 vikurnar. Færa má rök fyrir því að hann sé sá leikmaður sem liðið má minnst við því að missa. Hann er eini miðjumaðurinn í liðinu sem hefur sýnt einhvern stöðugleika og spilar nánast undantekningalaust vel. Nú þurfa hinir miðjumennirnir aldeilis að taka á honum stóra sínum. Já, Fellaini, við erum að horfa á þig.
Það eru þó ekki bara slæmar fréttir varðandi Carrick því að hann mun líklegast skrifa undir nýjan tveggja ára samning á næstunni en núverandi samningur hans rennur út í sumar.
Góðvinur okkar Rene Meulensteen hefur svo tekið sæti í þjálfarateymi Martin Jol hjá Fulham. Það hefur þrálátur orðrómur í gangi í þónokkurn tíma um að Meulensteen ætti að taka við af Jol þegar sá síðarnefndi yrði látinn fara enda Fulham í algjöru bulli í deildinni á þessu tímabili. Sjáum til hvort að Rene geti ekki snúið við þessari þróun hjá Fulham sem spilar eins og illi tvíburi Stoke um þessar mundir.
Eins og allir Íslendingar vita eru svo framundan landsleikir um helgina og eftir hana. Það er hellingur af leikmönnum United í landsliðsverkefnum en þeir Robin van Persie, Michael Carrick og Danny Welbeck hafa þó dregið sig úr sínum landsliðshópum vegna meiðsla.
Annars er þetta opin umræða, orðið er því laust!