Maður vissi ekki alveg við hverju maður átti að búast fyrir þennan leik. Síðustu ár hefur liðið verið steingelt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, satt best að segja var oft hundleiðinlegt að horfa á þá. Bætum því við að David Moyes hefur aldrei stýrt liði á þessu stigi knattspyrnu.
Þegar byrjunarliðið var hinsvegar birt var slegið á allan vafa og efa sem maður hafði fyrir þennan leik. Moyes stillti upp sterku byrjunarliði. Kagawa var frelsaður og fékk að byrja ásamt Fellaini. Maður fann bara á samfélagsmiðlunum eftir að liðið hafði verið birt að menn voru spenntir fyrir því að horfa á þennan leik. Byrjunarliðið var svona:
De Gea
Smalling Vidic Rio Evra
Carrick Fellaini
Valencia Rooney Kagawa
RvP
Pælum aðeins betur í liðinu og taktíkinni á eftir og rennum aðeins yfir gang leiksins.
United stjórnaði leiknum frá byrjun. Fellaini var öflugur á miðjunni og stoppaði flest það sem Leverkusen reyndi að gera. Kagawa var að finna pláss og menn voru sprækir. Á 22′ mínútu kom svo fyrsta mark leiksins. Robin van Persie dundaði sér með boltann við vinstri hornfánann í svona korter áður en hann kom boltanum á Evra sem gaf beint á Rooney. Hann gerði vel í að taka boltann á lofti og koma honum inn en líklega átti markið ekki að standa þar Valencia var rangstæður, stóð beint fyrir framan markmanninn og hafði talsverð áhrif á hann. Markið stóð og okkar menn komnir 1-0 yfir. Þannig stóðu leikar í hálfleik og fátt sem benti til annars en að United myndi sigra þennan leik. United var að spila taktískan og agaðan leik og Leverkusen átti engin svör.
Seinni hálfleikur var opnari en sá fyrri enda. Wayne Rooney klúðraði færi ársins þegar hann gaf/skaut fyrir opið markið og tókst hvorki að hitta markið né gefa á van Persie. Þetta hefði getað reynst dýrkeypt þar sem Leverkusen menn brunuðu í sókn og skoruðu mark beint í andlitið á okkur. Simon Rolfes átti fallegt skot og jafnaði metin. Eftir markið lifnaði aðeins yfir Þjóðverjunum og þeir voru nálægt því að skora rétt áður en Robin van Persie kom okkur aftur yfir. Valencia gerði vel á hægri kantinum og gaf flottan bolta fyrir sem Robin van Persie tók á lofti. Hann skaut reyndar beint á markið og í gegnum markmann Leverkusen sem gerði sitt versta í markinu og inn fór boltinn.
Eftir varnarmistök kláraði Rooney svo leikinn með sínu öðru marki og sínu 200. fyrir félagið. Hann var aftur að verki þegar hann lagði upp fjórða mark United eftir frábæra skyndisókn. Antonio Valencia skoraði það mark og fagnaði vel og innilega með því að minnast á Chucho Benitez, liðsfélaga sinn með landslið Ekvador og fyrrum leikmann Birmingham er lést fyrir skömmu. Leverkusen lagaði stöðuna aðeins eftir hornspyrnu og lokatölur því 4-2. Robin van Persie fékk reyndar frábært tækifæri til að skora fimmta mark leiksins þegar hann skaut framhjá um það bil 25 cm frá opnu marki. Engu að síður, 4-2 sigur niðurstaðan og flott frammistaða í þessum opnunarleik David Moyes í Meistaradeildinni.
Þetta var mjög skemmtilegur leikur og gaman að horfa á United í þessum leik. Ég er sannfærður um að í leiknum höfum við fengið að sjá það leikskipulag sem David Moyes hyggst nota í vetur og við ræddum m.a. annars um í þessum pistli. Er það einhvernveginn svona:
Það sást í leiknum að Kagawa var stillt upp á vinstri kant en hann fékk samt leyfi til að færa sig inn á miðjuna þar sem hann eyddi mestum hluta leiksins. Það er sú staða þar sem hann kann best að spila og þar sem hann nýtist mest. Í fyrri hálfleik var hann sprækur við að sækja og fá boltann. Í seinni hálfleik var hann ekki jafn áberandi enda augljóslega orðinn þreyttur sem rennur stoðum undir það að hann sé einfaldlega ekki í fullkomnu leikformi. Það að Kagawa dró sig inn á miðju gerði það að verkum að Evra þurfti að kovera allan vinstri kantinn sem hann gerði vel og lagði m.a. upp fyrsta markið. Fellaini koveraði svo fyrir Evra þegar hann fór upp kantinn. Smalling færði svo svo nær miðvörðunum þannig að við vorum með nánast þriggja mannar varnarlínu með þá Carrick og Fellaini fyrir framan.
Það að hafa Fellaini þarna er lykilinn að öllu þessu. Hann datt niður og var eins og veggur á miðjunni og dekkaði t.d. Sidney Sam út úr leiknum sem frelsaði Evra, hann gat leyft sér að sinna sóknarhlutverkinu sem hann varð að gera til að skapa breidd á vellinum, enda Kagawa að spila meira á miðjunni. Þetta virkaði vel og ég er sannfærður um að þegar Kagawa verður kominn í fullt leikform og menn farnir að venjast þessari uppstillingu mun liðið komast á blússandi siglingu. Ég hvet menn til þess að fylgjast með þessu og sjá hvort þetta verði ekki rauninn á næstunni.
Allt í allt virkilega örugg frammistaða hjá okkar mönnum, mjög evrópukeppnisleg ef svo má að orði komast og traustvekjandi að Moyes hafi stillt leiknum rétt upp. Vissulega voru Bayern Leverkusen-menn ekkert sérstaklega öflugir í þessum leik en það má að mikli leyti skýra með því hvað okkar leikmenn voru þéttir og öruggir í sínum aðgerðum.
Liðið stóð sig allt vel og vann virkilega vel saman sem heild. Mér fannst Smalling góður og Fellaini var öflugur varnarlega. Hann átti þónokkuð margar feilsendingar í leiknum en vann upp fyrir það með að brjóta upp sóknir Leverkusen. Antonio Valencia var virkilega góður í þessum leik og minnti mann á hvernig hann spilaði á þarsíðasta tímabili. Maður leiksins var þó klárlega Wayne Rooney. Hann skoraði 2 mörk og lagði upp eitt og var hreinlega allt í öllu. Moyes er að ná góðum frammistöðum út úr honum þrátt fyrir farsan í sumar. Það var svo meistaralega gert hjá Moyes að skipta honum útaf eftir þessa frammistöðu. Rooney vill vera elskaður og spilar best þegar hann finnur fyrir því að stuðningsmennirnir dá hann. Hann fékk dúndrandi lófaklapp fyrir frammistöðu sína og þetta hefur kveikt í honum fyrir leikinn gegn City og vonandi heldur hann áfram uppteknum hætti að skora gegn City um helgina.