Það er ekkert sem United-stuðningsmenn hata meira en að tapa gegn Liverpool. Til þess að nudda salti í sárin fleytti þetta tap Liverpool á toppinn fyrir landsleikjahlé sem mun virka eins og vítamínsprauta á sjálfstraust þeirra. Ég var verulega pirraður eftir leikinn og ákvað því að bíða með þessa leikskýrslu til þess að koma í veg fyrir að ég myndi skrifa einhverja knee-jerk færslu.
Liðinu var stillt upp svona
De Gea
Jones Ferdinand Vidic Evra
Cleverley Carrick
Young Giggs Welbeck
RvP
Á bekknum sátu: Lindegaard, Nani, Valencia, Buttner, Smalling og Hernandez
Ef við horfum yfir leikinn er óhætt að segja að United-hafi verið ívið sterkari aðilinn. Þeir voru meira með boltann og ógnuðu meira. Liverpool skoraði þó snemma sem þýddi að þeir gátu leyft sér að liggja til baka. Miðjumenn og sóknarmenn Liverpool voru einstaklega duglegir við að loka svæðum sem gerði það að verkum að það var erfitt fyrir okkar menn að ná takti. Van Persie var algjörlega einangraður frammi og fékk enga þjónustu. Miðjumenn okkar voru alltof djúpir og það var gríðarlegt bil á milli sóknar og miðju. Þéttleiki Liverpool gerði þetta að verkum og við náðum aldrei að opna Liverpool að einhverju ráði. Liverpool náði heldur aldrei að opna vörn okkar en markið sem kom snemma eftir röð varnarmistaka skildi liðin að.
Það er í raun rannsóknarefni afhverju United-liðið mætir alltaf á Anfield með hjartað í buxunum, þetta var svona undir Ferguson og virðist ætla að halda áfram undir Moyes. Menn virðast vera skíthræddir við þetta Liverpool-lið á Anfield sem er mjög sérstakt, sérstaklega núna. Þrátt fyrir að vera á toppnum núna verða menn að viðurkenna, ef maður horfir á mannskapinn í liðunum að með öllu jöfnu ættum við að taka þetta lið. En hugarástandið er 50% af leiknum og Liverpool-menn voru tilbúnari í þennan leik og nýttu sitt færi. Það skildi liðin að. Það er ennþá of snemmt að dæma Moyes, það eru bara þrír leikir búnir af tímabilinu og nóg eftir. Menn verða að nýta þennan leik sem spark í rassinn og áminningu um það að þó liðið heiti Manchester United er ekkert gefins. David Moyes, þú ert í djúpu lauginni og það mun enginn henda til þín björgunarkút. Þú þarft að redda þér sjálfur. Þú hefur ekki mikinn tíma til þess að læra að synda.
Þó maður sé auðvitað hundfúll með þetta tap er þetta þó auðvitað ekki heimsendir. Það er ekki eins og deildin sé búin hjá okkur, síðustu 5 ár höfum við fengið samtals 3 stig á Anfield. Það eru 35 leikir eftir af tímabilinu og þegar þeir eru búnir er það öruggt að Liverpool mun vera fyrir neðan okkur í töflunni.
Þessi leikur hlýtur að hafa leitt menn endanlega til þess að sjá að það þarf að eitthvað að hrista upp í þessum mannskap. Við verðum að fá nýtt blóð á miðjuna. Við þurfum einhverja innspýtingu, annars grípa hin liðin tækifærið og fara fram úr okkur. Á morgun lokar félagsskiptaglugginn. David Moyes og Ed Woodward, þið eigið leik.
Á morgun munum við fylgjast grannt með gangi mála fyrir lok gluggans og færa ykkur allar fréttir sem tengjast United. Vonum að menn geri eitthvað á morgun og bæti í hópinn.