Eins og í fyrra (og nú oftar færðar fréttir af stöðunni) verðum við með Fantasy deild
Swansea City fyrstu mótherjar David Moyes
Á morgun verður flautað til leiks á Liberty Stadium í Swansea og Robin van Persie og Danny Welbeck renna boltanum á milli sín og hefja nýjan kafla í sögu Manchester United. David Moyes er tekinn við.
Í morgun birtum við spekúlasjónir bloggskríbenta Rauðu djöflanna um tímabilið sem koma skal (fimmti pistillinn hefur bæst við frá í morgun), en nú er komið að því að einbeita sér að einum leik í einu. Það er ekki eins og undirbúningstímabilið hafi gefið miklar vísbendingar um hvað David Moyes telur sitt besta lið en svona er mín spá fyrir morgundaginn
Stærstu spurningamerkin þarna set ég við að Cleverley gæti komið í stað Anderson og Kagawa í stað Welbeck. Ætla að giska á að frammistaða Welbeck gegn Skotum í vikunni skjóti honum í liðið. Rooney ferðaðist auðvitað með til Swansea og verður eflaust á bekknum
Mótherjar okkar í fyrsta leik er lið Swansea sem hefur sannarlega stimplað sig inn í úrvalsdeildina á þeim tveim árum sem þeir hafa verið í henni. Skemmtilegt og léttleikandi lið sem Michael Laudrup hefur náð að styrkja vel með spútnikleikmanni síðustu leiktíðar, Michu og góðum kaupum í sumar. Margir búast við að Wilfried Bony, framherji keyptur frá Vitesse Arnhem muni skora vel í vetur, hann mun í það minnsta taka þunga af Michu í þeirri deildinni. Annars fór Laudrup á kunnuglegar slóðir og bætti nokkrum Spánverjum í hópinn, og Jonjo Shelvey mundi ekkert þykja leiðinlegt að gera okkur lífið leitt á morgun.
Swansea hefur staðið sig vel á undirbúningstímabilinu, er þegar komnir af stað í Evrópudeildinni, eru komnir þar í lokaútsláttarumferð og ættu að koma sterkir til leiks. Hugsanleg uppstilling þeirra er skv Forza Swansea
Svo eru í hópnum nýliðar á borð við Cañas sem er djúpur miðjumaður og Amat sem ku vera efnilegur varnarmaður, báðir spænskir.
Ég á von á erfiðum leik á morgun og ætla samt að spá 2-1 sigri.. Eitt sem næsta víst er er að Swansea mun ekki fá víti, frekar en allt síðasta tímabil, og ekki frekar en að United fékk ekki á sig víti allt síðasta tímabil.
Keppnistímabilið 2013-14 – Spekingar spá
Loksins, loksins er komið að því að alvaran fari af stað og við fáum eitthvað til að dreifa athyglinni frá endlausum þönkum um hvort við fáum nú ekki almennilegan miðjumann.
Rauðu pennarnir hafa spáð í spilin og hver fyrir sig komist að niðurstöðu um hvað tímabilið ber í skauti sér
Elvar Örn
Spennandi. Það verður ekki annað sagt að þetta tímabil verður afskaplega spennandi. Nýtt tímabil, nýtt gras, nýr Zaha og síðast en ekki síst nýr stjóri.
Þetta tímabil mun algjörlega snúast um Moyes. Það er staðreynd. Rooney mun pottþétt stela einhverjum blaðafyrirsögnum (kallgreyið, alltaf reiður og ruglaður) en Moyes verður maður tímabilsins hjá United. Hvernig hann mun stjórna liðinu og höndla álagið sem fylgir því að stjórna þessu yndislega liði? Eins skrítið og það var að sjá kappann stjórna um síðustu helgi, þegar United vann skjöldinn fallega, þá er ég strax byrjaður að venjast Moyes við hliðarlínuna.
Persónulega er ég orðinn bara vel sáttur við þessa ráðningu því mér finnst hann vera búinn að koma vel fyrir, óhræddur við að láta ungu stráka spila og virka öruggur. Hann hefði samt alveg mátt sleppa samsæriskenningunum um leikjadagskrána (leyfa stuðningsmönnum Liverpool liðanna eiga þær í friði) og sleppa því að svara öllum spurningum um Fabregas eltingarleikinn (Svona mál eiga einfaldelega að vera fyrir luktum dyrum þar til leikmaðurinn er kominn til United).
Því verður hinsvegar ekki neitað að minn helsti ótti eru allar bull-fyrirsagnirnar, bull-fréttirnar og bull-umræðurnar sem munu óumflýjanlega fylgja þegar United tapar leik eða gerir einhver mistök. Ég hef þurft að eyða góðum tíma í andlegan undirbúning fyrir þetta því svona hlutir fara svo innilega í mínar fínustu. Við munum sjá blöðin missa sig í fyrirsögnum á borð við: „Er álagið að fara með Moyes?“, „Moyes búinn að missa stuðning leikmanna“, „Er Moyes búinn að átta sig á að starfið sé honum ofviða“ og fleira í þessum dúr. Það er því miður eitthvað sem við verðum bara að sætta okkur við þrátt fyrir að vera einstaklega þreytandi og vitlaust. Kannski þarf ég bara að fara hætta þessu væli?
Varðandi liðið þá held ég að við séum bara í ágætis málum. Ferguson skildi eftir fínt lið fyrir Moyes nema (það sem allir vita) frábæran leikmann á miðjuna með Carrick. Held að allir sem mig þekkja hafi þurft að horfa upp á ansi mikið slef koma út úr mínu munnviki þegar umræðan snerist um að kaupa jafnvel bæði Fabregas og Fellaini. Úfff… ég er byrjaður aftur. Það bara… þaðbrra… þaðbbbbarrr… þabbbbarra hefðu bara verið svo brillijíant kaup fyrir United. En við erum víst ekki fara sjá það gerast og við verðum einfaldlega að bíða lengur eftir fyrstu „alvöru“ kaupum Moyes, sem eru víst alltaf handan við hornið.
Það verður svo fróðlegt að sjá Zaha spila með liðinu í deildinni. Strákurinn er svakalegt efni og nær vonandi að blómstra þarna á kantinum og vekja hina kantmenn liðsins. Van Persie mun áfram vera frábær, vörnin ætti að standa sig vel og vonandi nær Kagawa að sleppa við meiðsli og stimpla sig inn í liðið.
Eins og ég segi og skrifa, þetta verður spennandi!
Mín spá:
United berst við City um annað og þriðja sætið og Chelsea tekur titilinn.
Mín krafa:
Að United spili flottan bolta, að Moyes haldi áfram að gefa ungu peyjunum tækifæri (Lingard og Januzaj sérstaklega) og að liðið verði í toppbaráttunni.
Magnús Þór
Margir stuðningsmenn liðsins eru svartsýnir fyrir komandi leiktíð og mislukkaðar tilraunir til að fá leikmenn til liðsins hjálpa ekki til. Við höfum heldur ekki verið að missa frá okkur leikmenn þó svo að nokkrir mættu alveg fara.
Slúðrið í kringum liðið í sumar hefur verið pirrandi og hef ég efasemdir um að það sé mikið að marka mest að þessu bulli. Svo er þetta Wayne Rooney mál algjörlega óþolandi og mun ég eiga erfitt með að taka hann í sátt. Ég ætla að ganga svo langt og segja að hann megi fara en ekki í lið á Englandi og klárlega ekki til Chelsea.
Ungu strákarnir hafa nokkrir verið áhugaverðir á undirbúningstímabilinu þá sérstaklega Adnan Januzak, Jesse Lingard og Wilfried Zaha. Ég giska á að Lingard gæti verið lánaður en væri til að sjá hina fá nokkur tækifæri í vetur.
Ég er hreinlega bara ekki með nógu góða tilfinningu fyrir stöðu okkar í deildinni, það mun fara eftir hvernig liðið byrjar mótið. Myndi telja sigur gegn Swansea í fyrsta leik sé algjört möst og að ná úrslitum gegn Chelsea og Liverpool. Ætla að gerast svo djarfur að spá okkur 2.sæti.
Sigurjón
Eins og flest allir United aðdáendur er ég mjög spenntur yfir komandi tímabili, en á sama tíma alveg sallarólegur. Ég geri hóflegar væntingar til liðsins af augljósum ástæðum, það er nýr maður í brúnni sem er að taka við einu stærsta verkefni fótboltasögunnar. Hvernig er hægt að ætlast til þess að allt verði bara eins og það var?
Leikmannamál standa ágætlega, þrátt fyrir ekkert virðist hafi gengið í sumar að fá inn nýja leikmenn. Rooney verður áfram og það er gríðarlega mikilvægt mál, ég held nefnilega að hann komi inn í vetur alveg dýrvitlaus og sýni sitt rétta andlit, sem myndi vega mjög þungt. Ef hann gerir það ekki, heldur áfram að vera með vesen eða spilar með hangandi haus, þá veit ég ekki hvað ég geri! Einnig er ég bjartsýnn varðandi Valenca og Nani, það litla sem ég sá frá þeim á undirbúningstímabilinu lofaði góðu, þeir virkuðu mun sprækari en við höfum séð þá í langan tíma. Við vorum ekki með kantmenn í fyrra, þannig að ef þeir detta aftur í gang þá er eins og við höfum keypt tvo nýja leikmenn. Svo er Zaha mættur og þar held ég að Ferguson hafi gert enn ein snilldarkaupin. Hann verður nú ekki lykilleikmaður strax í vetur, en hann mun klárlega koma inn og lífga upp á hlutina.
Veikasta staðan er augljóslega miðjan, enda hafa verið gerðar endalausar tilraunir til að kaupa nýjan miðjumann í sumar. Þrátt fyrir að ekkert hafi gengið upp enn sem komið er þá er ég sáttur við tilraunir Moyes, hann hefur verið að eltast við heimsklassa miðjumenn sem myndu passa fullkomlega inn í liðið. Ferguson í sömu stöðu hefði líklega keypt einhvern gutta sem hefði þurft 1-2 tímabil til að aðlaga sig á meðan Moyes er að reyna við leikmenn sem myndu láta til sín taka á fyrstu mínutu í fyrsta leik. Ég vona bara að hann kræki í einhvern áður en glugganum lokar, ef það gerist ekki þá fyrst fer ég að hafa smá áhyggjur.
Varðandi væntingar mínar þá ætla ég að hafa þær hóflegar. Ég vil sjá liðið komast upp úr riðlakeppninni í Meistaradeildinni og lenda í topp 4 í deildinni. Chelsea og Man City hafa styrkt sig mikið í sumar (mest í þjálfaramálum) og ég held að þau tvö verða í sérflokki í vetur. Ef United kemur siglandi í 3 sætinu þá yrði ég mjög sáttur, það væri mjög gott upp á framtíðina. Það eina sem ég er hræddur um er að stuðningsmenn liðsins sem fæddir eru með silfurskeið í munni og ætlast til þess að United vinni hvern einasta leik 4-0, að raddir þeirra yfirgnæfi aðra stuðninsmenn liðsins í vetur. Ég átti varla til orð yfir hegðun sumra á undirbúningstímabilinu, menn vildu bara láta reka Moyes strax vegna þess að liðið tapaði fyrir Yokohama með einu marki. Stuðningsmenn annara liða elska að bauna á vanþakkláta United aðdáendur og í vetur verðum við að breyta þessari hegðun. Það er einn fyrir alla og allir fyrir einn…í allan vetur!
Tryggvi Páll
Í fyrsta skipti í afskaplega langan tíma erum við stuðningsmenn United líklega nokkuð taugaóstyrkir fyrir komandi tímabil. Við vitum lítið um hvernig David Moyes muni láta liðið spila, við vitum lítið um hvort að hann nái eitthvað að styrkja liðið fyrir komandi tímabil, við vitum lítið um það hvort að Wayne Rooney muni klæðast rauða búningum á ný, við vitum ekkert um hvort að David Moyes muni höndla pressuna. Við lifum í óvissu og það er frekar óþægilegt.
Ef við horfum á okkur helstu keppendur er ljóst að þeir hafa styrkt sig nokkuð vel. City hefur fengið alvöru stjóra í brúnna hrjá sér og sagt bless við ítalska slembilukkuriddarann. Á Brúnni er svo einn af örfáum stjórum sem hefur losað um ofurkrumlu United á titlinum. City hefur styrkt sig vel fyrir komandi átök og Chelsea mun án efa vera sterkara undir Jose Mourinho en undir stjórn Rafa Benitez.
Sumarið hefur einkennst af vandræðum hjá United. Sumarið hófst á orðrómum um Bale og Ronaldo en við sem erum raunsæir og höfum fylgst með United á markaðnum undanfarin ár vissum að það væru ekkert nema draumórar. Þó að maður vissi að þessir fiskar væru of stórir bitar var samt að vona að stjórnarmenn United myndu sjá til þess að 1-2 gæðaleikmenn yrðu keyptir. Ég var því mjög bjartsýnn fyrir Thiago eða Fàbregas og hafði trú á því að það væri raunsætt mat að þessir leikmenn vildu koma. Ég er enn að vona að einhver leikmaður af þeirra kaliberi láti sjá sig á Old Trafford í vetur.
Ekki það að liðið sé eitthvað veikt. Þetta er sami hópur og vann titilinn nokkuð auðveldlega í fyrra. Hann er auðvitað sterkur og hin liðin ættu að óttast hann. En með nýjan og óreyndan stjóra hefði það verið svo gott ef það hefði verið búið að tryggja 1-2 gæðaleikmenn inn í hópinn snemma í sumar. Það hefði skapað meðbyr fyrir Moyes sem er afskaplega mikilvægur fyrir þetta tímabil.
Við stuðningsmenn United þurfum nefnilega að búa okkur undir að áskrift okkar af titlinum er að líða undir lok og næstu árin verði keppnin um titilinn mun harðari en hún hefur verið. Við þurfum að sýna þolinmæði og megum ekki búast við því að David Moyes nái árangri strax. Hann er hæfileikaríkur stjóri en algjörlega óvanur því að stjórna liði af okkar kaliberi. Hann hefur alla burði til þess að ná langt með þetta lið og halda arfleifð Sir Alex Ferguson á lofti en hann þarf að fá tíma til þess að læra að fljúga.
Það er erfitt að spá fyrir að hvar við endum tímabilið. Ef ég á að vera raunsær segi ég 3. sæti. Ég geri mér grein fyrir því að hópurinn hefur alla burði til þess að vinna titilinn en það er of mikið að ætlast til þess að Moyes vinni titilinn á sínu fyrsta tímabili. City og Chelsea verða ógnarsterk á þessu tímabili og ég held að við munum hanga í þeim lengst af tímabili en heltast úr titilbaráttu lestinni í vor. Því segi ég 3. sæti.
Ég ætla ekkert að minnast á Wayne Rooney því ég botna nákvæmlega ekki neitt í öllu því máli.
Björn Friðgeir
Fyrirfram eitthvert mest spennandi tímabil í áraraðir. Manchester United heldur inn í það sem meistarar eftir sannfærandi sigur á síðasta móti og kemur, eins og staðan er í dag, inn í nýtt tímabil með óbreyttan hóp. Og þó. Maðurinn sem ég, og fleiri, telja hafi dregið okkur yfir línuna í fyrra er sestur í helgan stein og nýr skipstjóri komin í brúnna.
Okkur hefur gengið svona upp og ofan á undirbúningstímabilinu, enda ýmsar útgáfur af byrjunarliðinu verið reyndar og margir ungir leikmenn fengið sitt fyrsta tækifæri. Enn á ný sýnir það sá breiði hópur sem fyrst og fremst færði okkur titilinn er enn til staðar og hugsanlega erum við enn með besta hópinn í deildinni. Olíukóngarnir hafa þó ekki setið auðum höndum. City hefur bætt við fjórum sterkum kaupum, sem munu þó líklega fyrst og fremst styrkja breiddina, enda var það þeirra galli síðasta vetur. Nýr stjóri þeirra, Manuel Pellegrini verður því miður mun betrí að stjórna liðinu og koma sáttum á eftir stormasama tíð Mancini. Á Brúnni er svo komið gamalkunnugt andlit sem þó verður sjaldan kennt við sátt og samlyndi. Chelsea hefur líka bætt við sig mönnum sem fyrst og fremst styrkja breiddina líkt og hjá City og því má búast við því að þessi lið verði ekki jafn brothætt og í fyrra.
En á sama hátt megum við alveg eins búast við því að United hópurinn verði ekki eins brothættur og í fyrra. Þó við séum ekkert að gera ráð fyrir því, megum við alveg vonast til þess að Rio og Vidic haldist heilir allt tímabilið, að Valencia spili aldrei aftur jafn illa og hann gerði í fyrra og frekar eins og fyrri tímabil, að Nani haldist ómeiddur og nái við það fyrra formi og að Kagawa verði sömuleiðis meiðslafrír og gefi okkur aukna möguleika í uppstillingum framávið. Og þá er ég bara að tala um hluti sem er vel líklegir til að gerast.
Að auki gæti Anderson náð að haldast meiðslafrír og halda við sixpakknum sem hann skartaði í sumar (hann ku vera ánægður með Moyes og tilbúinn að leggja meira á sig fyrir hann). Fabio gæti auðveldlega tekið skrefið sem bróðir hans er búinn að taka. Wilfried Zaha ætlar að sýna að hann er peninganna virði, og ef þið eruð ekki spennt fyrir Adnan Januzaj og Jesse Lingard, þá er alveg eins gott að fylgjast bara með leikjunum í textavarpinu.
Já og svo erum við enn með besta markmann í deildinni, besta leikstjórnandann í deildinni og besta framherjann í deildinni.
Það býr svo ótalmargt í þessu liði og það þarf ekkert að vera hræddur um að David Moyes sé ekki maður til að ná því besta úr þessum hóp. Sem fyrr segir hafa þó hin liðin líka styrkt sig það og það yrði vissulega mikill styrkur fyrir Chelsea ef þeir næðu að stela Wayne Rooney.
Að öllu þessu sögðu ætla ég nú engu að síður að spá okkur þriðja sæti í hörkuspennandi deild. Ég held að Pellegrini nái að stýra City til sigur og Mourinho dragi Chelsea í annað sætið. Margt fer þó eftir því hvernig framherjarnir þeirra standa sig. Jovetic og Negredo sýnast mér sterkari viðbót í framherjahóp City en Lukaku er hjá Chelsea, þó sá síðarnefndi sé góður.
Og ef svo ólíklega vill til að einhver af þessum stjörnumiðjumönnum sem verið er að orða okkur við gengur til liðs við okkur fyrir 2. september. Nú, þá tökum við titilinn!
En tímabilið sem framundan er snýst ekki um að vinna deildina, þó að það geti hæglega gerst. Það er ekki málilð að vinna Evrópukeppnina, enda það afskaplega ólíklegt. Það snýst ekki um að vinna bikara, þó að það sé mjög líklegt, ef deildin fer okkur úr greipum og áherslubreyting verður með vorinu.
Það snýst um að styrkja David Moyes sem framtíðarframkvæmdastóra Manchester United, það snýst um að ná því áfram því besta úr bestu mönnunum okkar, það snýst um að hjálpa þeim leikmönnum sem valdið hafa vonbrigðum síðasta ár til að stíga aftur upp í hóp þeirra bestu og það snýst um að vera stefnu Manchester United trúir og gefa ungu drengjunum okkar tækifæri, því eins og Sir Matt Busby sagði og drengurinn sem lék sinn fyrsta leik fyrir United fyrir réttum 10 árum síðan sýndi „Ef þeir eru nógu góðir þá eru þeir nógu gamlir“
Ég get ekki beðið eftir þessu. Og þarf enda ekki lengi að bíða. Við förum yfir til Wales á morgun, mætum Swansea og upphitunin kemur síðar í dag.
Manchester United 2:0 Wigan Athletic
Manchester Utd og Wigan mættust í dag í leiknum um Samfélagsskjöldinn (Góðgerðaskjöldurinn hét hann þegar ég byrjaði að fylgjast með fyrir alvöru). Þessi leikur var ekki og mun ekki verða einn af þeim spennandi sem United hefur leikið. Það var nokkuð ljóst að töluverður gæðamunur er á þessum liðum frá byrjun. Augljóst að Wigan án Roberto Martínez mun ekki spila mest sexí boltann í Championshipdeildinni. Það tók ekki nema 6 mínútur fyrir okkar menn að skora fyrra markið og þar var á ferðinni efnilegur hollenskur framherji sem heitir Robin van Persie eftir stoðsendingu frá Patrice Evra. Staðan 1:0 í hálfleik.
Rafael fór útaf meiddur í hálfleik og í hans stað kom Chris Smalling sem fór í miðvörðinn og Phil Jones tók bakvarðarstöðuna. Robin van Persie skoraði svo annað mark sitt og leiksins á 59.mínútu eftir smávægilega hjálp frá varnarmanni Wigan. Meira var ekki skorað í þessum leik en United sótti þó talsvert en tókst ekki að bæta við mörkum, 2:0 sigur því staðreynd.
Þó að leikurinn hafi ekki verið kynþokkafyllsti knattspyrnuleikur sögunnar þá var þessi sigur gríðarlega mikilvægur fyrir Moyes og líka með þessum yfirburðum. Man ekki eftir jafn fáránlegri og allt að því heimskulegri gagnrýni á æfingaleiki sem skipta akkúrat engu máli og þessi maður hefur þurft að þola. Tímabilið var bara búið áður en það byrjaði. Sir Alex sagði að verkefni okkar allra sem styðjum þetta stærsta lið í heimi væri að styðja knattspyrnustjórann. Allir klöppuðu fyrir því en efndirnar voru ekki meira en þetta. Þetta mun verða erfitt tímabil, Chelsea og City hafa styrkt sig og munu gera atlögu að titlinum. En við erum Man Utd og eins og einn frægasti stuðningsmannasöngurinn segir: „We’ll Never Die.“
Menn leiksins: Michael Carrick og Robin van Persie
Byrjunarliðið:
De Gea
Rafael Jones Vidic Evra
Zaha Cleverley Carrick Giggs
Welbeck van Persie
Bekkurinn: Lindegaard. Evans. Anderson. Smalling. Valencia. Kagawa. Januzaj
Wigan: Carson, Boyce, Barnett, Perch, Crainey, Watson, McArthur, McCarthy, McClean, Holt, Maloney
Loksins, loksins alvöruleikur, Wigan á Wembley á morgun
Á morgun mætum við bikarmeisturum Wigan (já, þið lásuð rétt) í árlega leik meistara meistaranna eða Samfélagsskildinum. Ég man ekki hvenær það gerðist síðast að annað liðanna í þessum leik var ekki í úrvalsdeildinni og ykkur er velkomið lesendur góðir að minna mig á það í athugasemdunum.
Lið United fór um víðan völl þetta undirbúningstímabil og úrslitin kannski ekki þau bestu enda sjaldan stillt upp sterkasta liði. Ungu strákarnir fengu að njóta sín og þá sérstaklega litu þeir vel út Adnan Januzaj og Wilfried Zaha og ég yrði fyrir vonbrigðum ef þeir verða lánaðir. Margir stuðningsmenn eru pirraðir á getuleysi United á leikmannamarkaðinum og hafa þeir ýmislegt til síns máls. Kannski hefði verið betra að reyna við raunhæfari markmið en við skulum ekki örvænta alveg strax enda eru rúmar 3 vikur til loka félagsskiptagluggans.
Wigan eins og flestir vita féllu úr úrvalsdeildinni í vor eftir nokkur erfið tímabil. Þeir líkt og við eru komnir með nýjan stjóra eftir að Roberto Martínez tók við af David Moyes hjá Everton. Nýji stjórinn þeirra er Owen Coyle sem áður var með Burnley og Bolton. Wigan hafa styrkt hóp sinn ágætlega fyrir átökin í Championship-deildinni og ber þar helst að nefna Marc-Antoine Fortuné, James McClean og Grant Holt, líklegt verður að teljast að þeir muni byrja leikinn á morgun.
Ég á frekar erfitt með að giska á byrjunarlið á morgun enda er ekkert viðmið ennþá. Ég geri svona ráð fyrir því að flestir af þeim sem spiluðu í gær muni lítið koma við sögu á morgun og á taki sæti á bekknum. En svona til að giska eitthvað út í bláinn:
Lindegaard
Rafael Vidic Jones Evra
Young Carrick Cleverley Giggs
Welbeck
van Persie
Endilega látið vita hvernig þið viljið hafa byrjunarliðið, getið séð hverjir eru meiddir hér. Hvernig fer þessi leikur?
PS: Þið sem eruð á Twitter þá munið þið eftir #Djöflarnir og þið gætuð endað í leikskýrslu. Fyrir ykkur sem hafið einhvern áhuga að fylga okkur í ritstjórninni á Twitter: @Maggi_Thor, @ellioman, @sigurjon, @bjornfr og @tryggvipall.
Leikurinn hefst kl. 13:00