1. Hvernig fannst ykkur þetta tímabil hjá United?
Bjössi:
Öll tímabil sem enda með meistaratign geta ekki verið annað en góð! Að mörgu leyti mjög skrýtið tímabil. Byrjaði frekar brösuglega að manni fannst og bæði Chelsea og City voru á góðu skriði. Síðan fór skútan að réttast, léttur riðill í Meistaradeildinni vannst auðveldlega, Chelsea fór að gefa eftir og við að raka inn stigum.City fór svo að sýna veikleikamerki og allt í einu í febrúar vorum við með pálmann í höndunum, og gáfum ekkert eftir fyrr en titillinn var í höfn. Töpuðum fyrir Chelsea í báðum bikarkeppnum sem er ekkert il að skammast sín fyrir og Real leikurinn var eins og við vitum.
Þannig að allt í allt, gott tímabil.
En. Þetta var mjög skrýtið tímabil. Það voru einir fimm menn sem koma út úr því með eitthvað kredit, restin var annað hvort of róterandi vegna meiðsla eða slakleika. Vörnin var góð en sjaldnast sú sama, stundum fannst manni eins og við værum bara með einn miðjumann í hópnum og fæst orð hafa minnsta ábyrgð um kantmennina.
En við eigum nóg inni og menn geta gert betur.
Sigurjón:
Ég er auðvitað mjög sáttur! Fyrir tímabilið voru ekki margir (aðrir en United aðdáendur) sem höfðu trú á því að liðið gæti endurheimt titilinn, fólki fannst eins og City og Chelsea væru með mun betri hóp og var þeim oftast spáð sigri. Deildin reyndist vera mun sterkari í ár en hún hefur verið tæp síðustu 20 ár, til dæmis dugðu þau 72 stig sem Tottenham fékk ekki einu sinni í Meistaradeildina. Það þarf að fara aftur til tímabilsins 1994/95 til að finna lið í 5 sæti sem fékk fleiri stig en það. Þrátt fyrir þetta vann United Englandsmeistaratitilinn með 11 stiga mun og það er auðvitað frábær árangur. Liðið leit vel út í Meistaradeildinni en féll þar út mjög ósanngjarnt, þannig að það er helst FA bikarinn þar sem menn stóðu ekki alveg undir væntingum. Það er hinsvegar ekkert sem situr í manni núna, sérstaklega þar sem Wigan vann glæsilegan sigur á City í úrslitunum.Elvar:
Heilt yfir er ég bara mjög ánægður. Frábært að flytja titilinn aftur til Old Trafford og enn betra að taka hann af erkióvinunum í City. Maður var afskaplega smeykur um hvernig þetta færi í byrjun þegar maður hugsaði um hversu öflugt lið City var með og svo Chelsea búið að græja tvo af efnilegustu ungu leikmönnum heims (Hazard & Oscar). Á sama tíma var vörn United að leka inn mörkum. Það er ekki hægt að segja annað en að okkar lið hafi frábæran karakter. Leikmennirnir gáfu alltaf 110% í alla leiki þar til titilinn var kominn í höfn. Sjáið til dæmis þessa tölfræði frá Opta: „23 – Only Manchester United (29) have recovered more points from losing positions than Tottenham Hotspur this season. Resilient“.Það helsta sem ég get sett út á liðið á þessu tímabili er að það hefði oft á tíðum mátt spila skemmtilegri bolta en ég hef ekki nú ekki töluverðar áhyggjur af því. Nú bíður maður bara spenntur eftir að sjá hvernig liðið verður með Moyes við stjórnvölinn.
Maggi:
Lengi leit út fyrir að liðið myndi vinna tvennuna eða þrennuna. Ég verð samt að segja að þrátt fyrir að það tækist ekki þá hafi þetta verið mjög gott tímabil svona heilt yfir. Það þarf ekki að segja hversu mikilvægt það var að vinna titillinn okkur aftur. Eftir að Sir Alex tilkynnti það að hann myndi hætta sem knattspyrnustjóri United þá setur það viðbrögðin við tapinu gegn Real Madrid í Meistaradeildinni í samhengi.Tryggvi:
Hvað varðar deildina var þetta auðvitað frábært tímabil. Frá því að liðið komst á toppinn var ekki litið til baka og önnur lið áttu aldrei séns eftir það. Ótrúlegir yfirburðir og ótrúlegur stöðugleiki sem liðið sýndi. Að því sögðu voru það vonbrigði að komast ekki lengra í Meistaradeildinni og að sama skapi er manni farið að lengja eftir því að liðið vinni FA-bikarinn á nýjan leik. Alltof langt síðan.Það eru einnig blendnar tilfinningar hjá manni eftir þetta tímabil fyrst að Sir Alex Ferguson er að hætta. Maður man ekki eftir öðrum en honum við stjórnvölinn og hans verður sárt saknað en að sama skapi er maður spenntur fyrir nýja stjóranum og nýju tímabili.
2. Hver var besti leikmaður United?
Bjössi:
Robin van Persie. Honum að þakka að við komum inn í febrúar með fyrrgreinda forystu, breytti liðinu frá síðasta tímabili og gaf okkur aukið sjálfstraust um að vinna erfiða leiki.Annars voru auðvitað De Gea, Rafael, Carrick frábærir líka og Ferdinand mjög góður. Restin varla betri en rúmlega meðal. Helst Chicharito og svo Rooney framan af.
Sigurjón:
Þó svo Robin Van Persie hafi verið frábær fyrir okkur þá er Michael Carrick klárlega besti leikmaður tímabilsins. Hann var maðurinn sem færði okkur stöðuleikann á þessu tímabili og stöðuleikinn var það sem færði okkur Englandsmeistaratitilinn.Elvar:
Ég á rosalega erfitt með að velja á milli Van Persie og Carrick. Carrick er búinn að vera aðalmaður liðsins á miðjunni og Persie… já… tjahh… horfið bara á þetta vídeó. Held að Carrick verði fyrir valinu fyrir stöðuleika og yfirburða frammistöður á miðjunni í vetur.Maggi:
Að mínu mati var Michael Carrick bestur. Reyndar finnst mér margir hafa verið mikilvægir eins og Rio Ferdinand sem átti sitt besta tímabil lengi og Patrice Evra sem virðist hafa vaknað af værum blundi. Robin van Persie gaf okkur X-faktorinn sem okkur hefur vantað. En Michael Carrick spilaði nánast alla leiki hjá okkur í vetur og var algjörlega frábær og fékk loksins það kredit sem hann á skilið.Tryggvi:
Michael Carrick var frábær, sem og David De Gea en Robin van Persie hlýtur að fá þessa nafnbót. Markahæsti maður mótsins og það sem skildi á milli feigs og ófeigs í deildina. Minnir mig mjög mikið á Cantona og er augljóslega mikill leiðtogi inn á vellinum.
3. Hvaða leikmaður sýndi mestu framfarir?
Bjössi:
De Gea er orðinn einn besti ef ekki best markmaður í deildinni, og Rafael stefnir í að verða besti hægri bakk þó hann vanti aðeins upp á. Frábærir strákar.Sigurjón:
Rafael var mjög góður á þessu tímabili, sem og David De Gea þegar ég hann fékk loksins að spila að staðaldri. Ég ætla hinsvegar að nefna Michael Carrick aftur. Alveg síðan hann kom frá Tottenham árið 2006 hefur Carrick staðið sig með sóma, en á þessu tímabili tók hann sig til og spilaði eins og heimsklassa miðjumaður.Elvar:
Ég er hér aftur með valkvíða og í þetta skiptið er það á milli De Gea og Rafael. Þegar maður hugsar aðeins út í það, þvílík forréttindi að eiga erfitt með að velja milli tveggja kornungra varnarmanna. Þessir strákar eiga bara eftir að verða betri leikmenn og svo til að gera þetta enn betra þá tippa ég á að Phil Jones verði valinn hérna á næsta tímabili. Vörnin okkar er í frekar góðum málum þó svo að hún hafi lekið inn of mörgum mörkum á þessu tímabili. Úr því ég verð að velja þá segi ég De Gea en þeir eru hníjafnir.Maggi:
Rafael da Silva. Einhverjir myndu segja David de Gea og myndu hafa ýmislegt til síns máls en Rafael finnst mér hafa þroskast gífurlega. Leiðinlegt var að sjá hann rekinn af velli gegn Chelsea eftir kjánalegt brot á „Olnabogaskota Luiz“ en hann verður að halda betri stjórn á skapinu.Tryggvi:
Rafael er að blómstra og er að verða besti hægri bakvörður í deildinni en á þessu tímabili tók David De Gea skrefið frá því að vera efnilegur markmaður í að vera frábær markmaður. Besti markmaðurinn í deildinni á þessu tímabili og er klárlega búinn að hrista af sér allar efasemdir sem menn gátu haft um hann. Frábær markmaður og vonandi verður hann hjá okkur næstu 15-20 ár.
4. Helstu vonbrigði þessa tímabils?
Bjössi:
Úrslin gegn Real. Nani og Valencia. Vesenið á Rooney. Meiðsli Kagawa og að hann fengi ekki að spila meira í sinni stöðu.Sigurjón:
Þó Meistaradeildin hafi verið ákveðin vonbrigði þá ætla ég að segja bikarleikurinn gegn Chelsea á Old Trafford. Í stöðunni 2-0 átti United að klára Chelsea og komast áfram í undanúrslitin, en í staðinn misstu leikinn niður í jafntefli og þurfti að spila aukaleik á versta tíma, leik sem svo tapaðist. Ég held að United hefði átt mjög góðan séns á því að verða bikarmeistari hefðu þeir ekki sofnað á verðinum gegn Chelsea á Old Trafford.Elvar:
Ef ég hefði verið spurður fyrir mánuði síðan þá hefði svarið mitt verið seinni leikurinn gegn Real. Maður verður oft fúll þegar United tapar eða dettur út úr keppnum en ég var einfaldlega reiður þegar *BEEEEEP* dómarinn rak Nani af velli fyrir þetta bull og svo að sjá liðið falla saman eftir það.En þessi spurning kemur til mín í lok maí, þegar tímabilið er búið og þá verð ég að segja að ruglið í Rooney hafi skyggt á annars mjög gott tímabil og þar af leiðandi orðið mín helstu vonbrigði á þessu tímabili. Drengurinn er búinn að vera minn uppáhalds leikmaður í næstum tíu ár og núna í annað skiptið biður hann um að vera seldur frá United. Kommon! Fyrra skiptið var vegna þess að United var ekki að kaupa nógu góða leikmenn, United kaupir svo flotta leikmenn og þá er hann ósáttur því hann er að spila illa og er tekinn af velli. Fussumsvei!
Maggi:
Þau eru nokkur, vængmennirnir okkar Nani, Valencia og Young. Að detta út úr FA Cup endurspili eftir að hafa verið 2-0 yfir í fyrri leiknum. Rauða spjaldið sem var ranglega dæmt á Nani gegn Real Madrid. Veikindi Darren Fletcher. Anderson. Afsögn Sir Alex.Tryggvi:
Rauða spjaldið sem Nani fékk gegn Real Madrid. Bulldómur og gerði það að verkum að Real-liðið komst aftur inní leikinn. Fram að því gekk leikplan Ferguson fullkomlega upp og við vorum á leiðinni í 8-liða úrslit. Gríðarleg vonbrigði.
5. Besti leikurinn?
Bjössi:
Sigurinn gegn Manchester City á Etihad fékk mann virkilega til að trúa, þó að þetta hefði verið tæpt og haustið erfitt.Sigurjón:
Er hægt að nefna eitthvað annað en 3-2 leikinn við Manchester City á Etihad Stadium.Elvar:
Erfitt að velja eitthvað annað en sigurleik United gegn City á Etihad. Mig langar samt að nefna leikinn gegn Villa þegar United tryggði sér tuttugasta titilinn. United spilaði, sérstaklega í fyrri hálfleik, alveg frábæran fótbolta.Maggi:
Held að það hljóti að vera 2-3 sigurinn gegn City á Etihad.Tryggvi:
3-4 leikurinn gegn Reading var ábyggilegi sá skemmtilegasti. En 2-3 sigurinn á City á Etihad vellinum var frábær. Fyrstu tvö mörkin voru verulega góð og hversu fáranlega sætt var það hjá Robin van Persie að setja sigurmarkið beint úr aukaspyrnu á lokasekúndum leiksins.
6. Besta markið?
Bjössi:
Robin gegn Villa. Í öðru sæti, Rafael gegn Liverpool. Í þriðja sæti, Rafael gegn QPR.Sigurjón:
Ég held að það sé vonlaust að líta framhjá öðru marki Robin Van Persie gegn Aston Villa á Old Trafford. Hinsvegar hef ég alltaf verið sökker fyrir þrumufleygum (enda Scholes aðdáandi) og því finnst mér markið hjá Rafael gegn QPR vera hrikalega nett.Elvar:
Auðvelt val, Persie gegn Villa.Maggi:
Ætla að velja tvö. Rafael gegn QPR og að sjálfsögðu annað mark Robin van Persie gegn Aston Villa.Tryggvi:
Ég ætla ekki að reyna að gera upp á milli neglunnar hjá Rafael gegn QPR og viðstöðulausa markinu hans RvP gegn Villa.
7. Flottasta varslan?
Bjössi:
De Gea gegn Coentrão, fingurgómabjörgunin.
í öðru sæti, De Gea gegn Coentrão, sparkið
í þriðja sæti De Gea gegn Bryan Ruiz í Fulham, fingurgómar aftur!Sigurjón:
Því verður fljótt svarað. Þrátt fyrir fjöldann allan af flottum vörslum hjá De Gea í vetur þá slær ekkert úr vörsluna hans gegn Torres á Stamford Bridge í október. Stórkostleg varsla sem vann leikinn.Elvar:
De Gea er búinn að vera alveg frábær á þessu tímabili og er alveg fáránlega erfitt að velja eina vörslu frá honum. Ég ætla samt að velja þessa hér úr fyrri leik United gegn Real. Ég skil ekki ennþá hvernig hann fór að því að verja þennan bolta.Maggi:
Allur leikurinn gegn Real Madrid á Bernabeu. Og gegn Chelsea. Hvort tveggja David de GeaTryggvi:
Heildarframmistaða De Gea á Bernabeu fær mitt atkvæði.
Að lokum
Bráðlega kemur svo seinni hluti uppgjörsins þar sem sumarið verður tekið fyrir ásamt öðrum pælingum. Hafið þið einhverjar spurningar sem þið viljið sjá okkur svara? Komið með þær hér í athugasemdunum. Endilega deilið svo ykkar svörum við spurningunum fyrir ofan.