Þá er komið að því, síðasti leikur tímabilsins er runninn upp og sumarfríið blasir við. Það klikkar ekki að á hverju ári þegar að þessum tímapunkti kemur verður maður leiður yfir fótboltaleysi sumarsins. Svo þegar fólk segir manni að slaka á og að það hljóti nú að vera hægt að bíða rólegur í þrjá mánuði, hugsa ég til spaka mannsins þegar sagt var við hann: „Við erum með dóttir þína. Hún er örugg en hvort henni verði haldið þannig ræðst af þér. Þú ætlar að vera samvinnuþýður og fá hana til baka, rétt?“ og hann svaraði svo snilldarlega: „Rangt!“.
Ykkur til upplýsinga, þá munum við hjá Rauðu Djöflunum koma með á næstunni nokkrar greinar til að gera upp tímabilið ásamt því að ræða um sumarið og væntanlegar breytingar innan félagsins. Ritstjórnarteymið mun þar af leiðandi fylgja þessari frægu ráðleggingu spaka mannsins sem sagði: „Hleypið út smá gufu!“.
Það verður samt lítið sumarfrí hjá Manchester United þar sem liðið er að ganga í gegnum eina mestu breytingu í sögu félagsins. Leikurinn á morgun verður sá fimmtán-hundraðasti hjá Ferguson við stjórnvölinn hjá United og því miður sá allra síðasti. Svo til að bæta gráu ofan á svart ætlar einn allrabesti miðjumaður í sögu United að leggja skóna á hilluna í annað skiptið. Það er því nóg ástæða til þess að horfa á liðið spila í síðasta skipti á þessu tímabili sem verður gegn West Bromwich Albion á heimavelli þeirra, The Hawthorns.
Í gær fékk Ferguson sérstök heiðursverðlaun fyrir framlag sitt til ensku deildarinnar síðustu 26 ár. Að auki var hann svo valinn besti stjóri ensku deildarinnar á þessu tímabili og er það í ellefta skipti sem hann vinnur þau verðlaun. Fyrst vann hann þau árið 1994 og svo fylgdu árin 1996, 1997, 1999, 2000, 2003, 2007, 2008, 2009, 2011 og nú 2013. Flottur endir hjá langbesta stjóra í sögu fótboltans. Verðlaunin verða svo afhend stuttu fyrir leikinn á morgun en myndin hér á hægri hönd var tekin í gær þegar kappinn tók við Merit verðlaunum á Carrington æfingarsvæðinu.
Fyrir langa löngu, nánar tiltekið tuttugu og sjö árum, sjö mánuðum og fjórtán dögum, var vinur minn að ganga í gegnum mikla erfiðleika í sínu lífi og ýmsir voru að valda honum ama og erfiðleikum. Einum þeirra gaf hann hátíðlegt loforð sem tekið var hæfilegt mark á, þó menn hefðu ef til vill betur gert það, enda vinur minn maður orða sinna. Þó kom svo nokkru síðar að vinur minn var minntur á loforðið. Þá höfðu aðstæður þó breyst og vinur minn neyddist til að ganga á bak orða sinna og gat ekkert sagt nema : „Ég laug!“. Af hverju vitna ég í þessa lygi félaga míns? Jú, því það væri lygi hjá mér að halda því fram að þessi leikur muni snúast um eitthvað annað en snillinginn Sör Alex Ferguson.
Ég ætla samt að gera tilraun til að gera leikinn örlítið spennandi fyrir ykkur. Ótrúlegt en satt þá hafa bæði lið góðar ástæður til að spila vel og ná þessum þremur stigum sem í boði eru. Hvaða ástæður? Jú, fyrir United þá myndi sigur jafna stigamet liðsins (91 stig sama og tímabilið ’99-’00), bæta klúbbsmetið í fjölda sigra í úrvalsdeildinni á einu tímabili og sem bónus þá myndi mark frá t.d. Scholes betrumbæta metið sem United setti í síðasta leik, með fjölda leikmanna sem hafa skorað mark fyrir eitt lið á einu tímabili. Gleymum svo ekki að leikmennirnir vilja kveðja Ferguson með sigri. Fyrir WBA þá vilja þeir tryggja sér áttunda sætið og ná besta árangri liðsins í úrvalsdeildinni sem svo skemmtilega yrði einnig besti árangur liðsins síðan 1981.
Meiðsli/Veikindi/Leikbönn
Hjá United….
- C Smalling (Fótur, uppskurður) => Tilbúinn: Óvitað
- N. Powell (Óvitað, uppskurður) => Tilbúinn: Óvitað
- A Young (Ökkli/Fótur) => Tilbúinn: Óvitað
- D. Fletcher (Sáraristilbólga) => Tilbúinn: Óvitað
Hjá West Bromwich Albion….
- S. Reid (Ökkli/Fótur) => Tilbúinn: 19 maí
- G. Reyes (Hné) => Tilbúinn: Óvitað
- G. Thorne (Hné) => Tilbúinn: Óvitað
- Z Gera. (Hné) => Tilbúinn: Óvitað
Lykilmaður WBA
Gareth McAuley. Þessi þrjátíu og þriggja ára leikmaður hefur verið frábær í vörninni WBA á þessu tímabili. Á galafagnaði leikmanna WBA og var hann valinn besti leikmaður liðsins á þessu tímabili af bæði leikmönnunum og af stuðningsmönnum. Það kom því ekki á óvart að WBA hafi fengið kappann til að skrifa undir nýjan tveggja ára samning.
Líkleg byrjunarlið
Ferguson gaf það til kynna á fréttamannafundinum að það yrðu gerðar breytingar á liðinu og að hann myndi leyfa nokkrum af yngri leikmönnum liðsins að spila á morgun.
„I don’t have any injury problems. I’ll make a few changes – maybe a few younger players will play. Anders Lindegaard will be in goal. I don’t have Rafael so I need to make a decision about right-back. I want to play Jones and Evans at centre-back – they could be the future. Rio (Ferdinand) and (Nemanja) Vidic will have to have a place on the bench! I’m looking forward to it. It’s going to be great.“
Þessi yfirlýsing ásamt fréttinni um að Powell og Smalling hafi báðir farið í aðgerð, auðveldar mér aðeins vinnuna með byrjunarliðsspána. Hér er mitt gisk…
Lindegaard
Vermijl Jones Evans Büttner
Welbeck Cleverley Scholes Kagawa Giggs
Chicharito
Svo vona ég að Adnan Januzaj, sem á dögunum var valinn besti ungi leikmaður United á þessu tímabili, fái að sitja á bekknum og spili jafnvel einhverjar mínútur.
Að lokum
Enda þetta svo með nokkrum skemmtilegum staðreyndum sem mig langaði að deila með ykkur.
- West Brom hefur aldrei unnið Manchester United í úrvalsdeildinni. Þrettán leikir, 11 sigrar hjá United og tvö jafntefli.
- United tapaði síðast gegn WBA árið 1984 í mars. Sá leikur endaði 2-0.
- Markahæsti leikur liðanna var árið 1968, mánuði áður en United varð Evrópumeistari, sem endaði 6-3 fyrir West Brom.
- West Brom hafa tapað síðustu þrem leikjum og ekki skorað í síðustu tveim.
- West Brom hefur aðeins unnið einn leik af síðustu átta. Einn sigur, tvö jafntefli og fimm töp.
- Stigamet West Brom í úrvalsdeildinni er 47 stig og hafa þeir nú þegar bætt það (eru með 48 stig).
- Rio Ferdinand skoraði gegn Swansea um síðustu helgi. Hann hafði ekki skorað mark fyrir United í 1947 daga eða síðan janúar 2008.
- Ryan Giggs hefur spilað í 77% af öllum 809 úrvalsdeildarleikjum Manchester United.
- United hefur skorað 15 mörk úr hornum á þessu tímabili.
- Aðeins Arsenal (18) og Tottenham (17) hafa skorað fleiri mörk en United (16) á síðustu 15 mínútunum.
Fabulous stat from @AdamSMarshall: RvP has scored more league goals in his debut season than ANY other player in #mufc history.
— Nick Coppack (@nickcoppack) April 29, 2013
1500: Sunday will be Fergie’s 1500th and final game in charge of #ManUtd in all competitions. He has won 895 to date.
— ManUtd Fact (@ManUtd_Fact) May 16, 2013
62/33 – In 265 games for Man Utd David Beckham scored 62 goals compared to just 33 in 269 league games for other clubs. Retirement.
— OptaJoe (@OptaJoe) May 16, 2013