Jæja, þetta var ansi dapurt. Ferguson stillti upp þessu liði í kvöld:
De Gea
Rafael Rio Vidic Evra
Valencia Carrick Jones Kagawa
van Persie Rooney
Bekkur: Amos, Evans, Giggs, Cleverley, Nani, Welbeck og Hernandez
Það er óhætt að segja að þetta byrjunarlið hafi engan vegin staðið sig í dag. Frá fyrstu mínútu voru okkar menn á hælunum og komst liðið aldrei í takt við leikinn. Það er eitthvað mikið að þegar lið eins og West Ham, þar sem leikstíll liðsins gengur beinlínis út á að forðast það að stjórna leiknum, hefur tögl og haldir nánast allan leikinn. United-liðið var á afturfótunum frá byrjunum og var stálheppið að fá ekki á sig mark á fyrstu mínútum leiksins þegar Andy Carroll komst í gott færi. Skömmu síðar komust West Ham menn þó yfir. Matt Jarvis komst inn í teig og plataði Rio Ferdinand upp úr skónum með afskaplega einfaldri gabbhreyfingu, kom boltanum fyrir og einhvernveginn tókst Vaz Te að hnoða boltanum inn. 1-0 fyrir West Ham.
Ekki batnaði leikur okkar manna við þetta en nánast eina sókn liðsins í leiknum þar sem liðið náði að vinna saman að einhverju ráði bar ávöxt. Van Persie og Kagawa unnu vel saman á vinstri kantinum sem endaði með því að Kagawa komst upp að endamörkum, renndi boltanum fyrir framan markið þar sem Antonio Valencia var mættur og passaði sig að hafa öryggið á oddinum með því að pota boltanum í autt markið. 1-1 og þannig var staðan í hálfleik. Hans fyrsta mark í vetur, merkilegt nokk.
Menn hafa ekki hlustað mikið á Ferguson í hálfleik því í seinni hálfleik buðu menn upp á það sama. Það var augljóst að leikskipulagið og liðsvalið var ekki að virka. Rooney átti afskaplega dapran dag og Phil Jones virtist ekki hafa mikla hugmynd um hvað hann ætti að gera á miðjunni. Rooney kórónaði frammistöðu sína þegar Diame plataði hann gjörsamlega upp úr skónum í seinna marki West Ham með álíka einfaldri gabbhreyfingu og Rio hafði fallið fyrir í fyrri hálfleik. Markið hans Diame var þó nokkuð laglegt því hann sneri sér frá Rooney og sneri boltann í fjærhornið. 2-1 fyrir West Ham og hausinn á Sam Allardyce alveg við það að springa.
Ferguson hafði samt ekki mikinn áhuga á því að breyta til þrátt fyrir að liðið væri að spila illa. Kannski var það sú staðreynd að leikmenn United sköpuðu sér nokkur ágætis færi en Jussi var í hörkuformi í markinu. Engu að síður var liðið að spila hörmulega og full þörf á breytingum. Rooney fór útaf fyrir Giggs og við það braggaðist leikurinn örlítið, ekki mikið en smá. Kannski var það bara sú staðreynd að menn áttuðu sig á því að þeir þyrftu að skora. Okkar mönnum tókst að jafna leikinn þrátt fyrir að eiga ekkert skilið úr þessum leik. Kagawa gerði vel fyrir framan teiginn og átti bylmingsskot í báðar stengurnar, þaðan barst boltinn til Robin van Persie, sem var rangstæður en ekkert dæmt og afgreiddi hann boltann snyrtilega í netið og staðan orðin 2-2.
Síðustu mínúturnar sótti United en sóknirnar fóru yfirleitt í vaskinn og lokaniðurstaða var fullkomlega óverðskuldað jafntefli. City vann sinn leik en það ætti ekki að koma sök. Við þurfum aðeins að sigra tvo leiki af þeim 5 sem eftir eru. Það ætti nú að vera gerlegt og rúmlega það.
Þetta var afskaplega dapurt og eiginlega ótrúlegt að Ferguson hafi ekki séð að þetta væri ekki að virka. Hernandez kom inná síðustu 10 mínútunar en ef það er ekki hægt að nota hann meira en þetta í svona leik þá skil ég það afskaplega vel ef hann er ósáttur hjá liðinu. Okkar menn virtust bara vera með hugan við eitthvað annað og voru eiginlega allir arfaslakir í dag. De Gea stóð sig reyndar ágætlega þrátt fyrir ýmsar árásir frá Andy Carroll en sá sem var minnst lélegastur í kvöld var Shinji Kagawa. Hann reyndi í hvert sinn sem hann fékk boltann þó það hafi ekki mikið gengið upp. Hann lagði upp bæði mörkin og fyrir það fær hann nafnbótina maður leiksins.
Næsti leikur er gegn Aston Villa á Old Trafford og þar getum við tekið eitt af þeim tveimur skrefum sem þarf að taka til að gulltryggja titil nr. 20.
Endum þetta á nokkrum tístum:
Wow am I happy that I don't have to deal with those challenges like @D_DeGea just got anymore!!
— Edwin van der Sar (@vdsar1970) April 17, 2013
Veit SAF ad United er ad tapa? #EnginAhaetta #HaldaStiginu #WaitWhat
— Runólfur Trausti (@Runolfur21) April 17, 2013
https://twitter.com/DoronSalomon/status/324628383319330819
https://twitter.com/DoronSalomon/status/324628732893593600
Man Utd now need to win their last five games to set a new Premier League points record.
— Duncan Alexander (@oilysailor) April 17, 2013
This booing of De Gea is one of the weirdest things this season.
— Scott Patterson (@R_o_M) April 17, 2013
Fyrsta mark Valencia á tímabilinu. Segir allt um tímabilið hans… #djöflarnir
— Birkir Vilhjálmsson (@birkirhrafn) April 17, 2013
This is exactly how I feel! pic.twitter.com/NkjX74lBuy
— Helin (@MUnitedGirl) April 17, 2013