Leikurinn byrjaði fjörlega. United sótti frá fyrstu mínútu, Fulham lá nokkuð til baka og tók skyndisóknir, í þeirri fyrstu komst Rodallega inn fyrir en var ekki í góðu færi, gaf boltann og Evans komst fyrir. Evans þurfti síðan að taka boltann snyrtilega af Rodallega í næstu sókn, vel gert. Hinu megin pressaði United, úr einu horni varð mikið japl jaml og fuður í teignum, Schwarzer varði vel skot Evra, svo skallaði varnarmaður skot Rooney frá og loksins hélt Schwarzer skoti Evra
Það er búið að vera röfla mikið á netinu undanfarið um að Asmir Begovic sé á leiðinnni til United, en De Gea sýndi hvað hann getur þegar hann varði snilldarlega ekta John-Arne Riise neglu. De Gea setti síðan örlitla snertingu með löngutöng í skot frá Ruiz, en það var nóg til að skotið small í stöng.
Þannig að þrátt fyrir mikla sókn United, fór verulega um mann þegar Fulham kom upp á móti. Það vantaði að taka á móti þeim, sérstaklega á miðjunni.
Eftir þessa hasar byrjun mátti búast við að leikurinn róaðist aðeins og það varð til þess að United náði góðum tökum á leiknum og Fulham féll enn aftar á völlinn. Yfirburðunum fylgdi meðal annars að Rafael (í skóm merktum Fabio) spiluðu mjög framarlega. Nani datt stundum inn á miðjuna af vinstri kantinum og átti alveg þokkalega spretti en á hinum kantinum var Valencia eins og hann hefur oft verið í vetur, ekki nógu góður.
Eftir hálftíma leik kom enn einn sénsinn hjá United, gott skot Rooney small í stöng. Annars var þetta mikið til spil hjá United á vallarhelmingi Fulham og tilraunir til að finna holur í varnarveggnum.
Rétt fyrir hálfleik átti United horn, þegar allt í einu slokknaði á öllum flóðljósum, eftir smá bið tók dómarinn liðin útaf. Biðið varð ekki mjög löng samt, einhverjum tókst að kveikja á ljósunum og síðan tók smá tíma að komast í fulla birtu, og leikmenn komu aftur inn á. Ekkert varð úr horninu og ekkert að ráði þessar síðustu fjórar mínútur.
Seinni hálfleikurinn byrjaði á svipaðan hátt. United hélt boltanum að mestu, Fulham reyndi en fengu þó ekki færi. Það var alveg kominn tími á skiptingu eftir klukkutíma leik og það var Javier Hernandez sem kom inná fyrir Tony Valencia. Enn einn vonbrigðaleikurinn frá TonyV og spennandi skipting. Hún frískaði aðeins upp á leik United en ekki þó nóg. Giggs kom inn á þegar kortér var eftir fyrir Cleverley. Rétt eftir það kom svakalega sending frá Carrick inn á Van Persie sem reyndi að flikka boltanum til hliðar á Hernandez í staðinn fyrir að skjóta sjálfur, og boltinn fór í varnarmann. Eitt besta færið í seinni hálfleik þar þó vissulega væri þrengt að Van Persie.
Hinumegin skallaði Rafael af línu eftir horn og svo kom loksins loksins mark. Það þurfti eitthvað sérstakt til þess. Rooney fékk langa sendingu fram, lék beint inn í teiginn og í stað þess að gefa þvert á Van Persie eða Hernandez, tók hann skarið af og með nákvæmu skoti setti hann boltann framhjá varnarmanni og Schwarzer og í hornið fjær. Glæsilegt mark, hans tíunda í 10 leikjum.
Leiknum lauk með miklum hasar. Van Persie skallaði af línu, United fór beint upp og Hernandez var kominn maður á móti markmanni en tókst að vera of lengi að hlutunum með mann í bakinu og ekkert varð úr skotinu.
En á endum hafðist þetta. Enn einn leikurinn þar sem við hirðum þrjú stig með smá herkjum. Um tíma vorum við að spila glimrandi bolta og skapa góð færi og Mark Schwarzer vann sannarlega fyrir kaupinu sínu í dag. En Fulham lék líka vel og De Gea var sömuleiðis góður í dag. Að auki komu tveir skallar af línu (skylduvörn reyndar báðir) og við getum verið ánægð með þrjú stig sem voru sannarlega ekki gefins.
Auk De Gea áttu margir góðan leik. Evra var flottur, Ferdinand og Evans að mestu traustir í vörninni og Carrick á miðjunni. Nani spilaði mjög vel og boðar vonandi gott fyrir næstu mánuði. Valencia hins vegar slakur, og Robin van Persie ekki mjög sýnilegur. En til þess erum við með tvo stjörnuleikmenn frammi, ef annar á rólegan dag er hann engu að síður að taka til sín varnarmenn og opna fyrir hinn. Og Rooney hefur sannarlega verið að nýta það, maður leiksins.
Það er engin ástæða til að vera að telja einhverjar hænur á þessu stigi tímabils, en það er bara fínt að vera með 10 stiga forskot þegar við höfum leikið leik meira. Fleiri svona sigra takk.