Bekkur: Lindegaard, Rafael, Ferdinand, Nani, Valencia, Cleverley, Büttner
Southampton á Old Trafford
Síðast þegar þessi tvö lið mættust á St. Mary’s skoraði Robin van Persie sína fyrstu þrennu fyrir United. Leiknum lauk 3-2 eins og svo mörgum af okkar leikjum. Leikskýrslu þessa leiks er að finna hér.
Félagsskiptaglugginn er búinn að vera á fullu þennan mánuðinn og hafa bæði liðin verið að fá til sín leikmenn. Southampton fengu hinn norska Vegard Forren frá Molde sem Liverpool var líka á eftir og United keyptu hinn efnilega og eftirsótta Wilfried Zaha frá Crystal Palace en hann mun klára tímabilið á lánssamningi hjá Palace.
Við ættum að geta stillt upp mjög sterku liði annað kvöld en það er gífurlega mikilvægt að vera búnir að endurheimta menn úr meiðslum, sérstaklega þar sem möguleiki er á þrennunni svokölluðu sem við unnum síðast 1999, þá er ég auðvitað tala um deild, bikar og Meistaradeild Evrópu. Eftir því sem ég best veit eru allir leikmenn klárir fyrir leikinn en reyndar eru Jonny Evans og Ashley Young enn tæpir. Rio Ferdinand tístaði því að hann teldi að Rafael væri besti hægri bakvörðurinn í Evrópu, Rafael hefur virkilega blómstrað á þessari leiktíð og virðist sem að fjarvera bróður hans Fabio sé bara að gera honum gott.
Mikið hefur verið rætt um brottvikningu Nigel Adkins frá Southampton sem kom manni vægast sagt mjög á óvart, það var mikill stígandi í þeirra leik og þeir komnir úr fallsæti. Líklegt verður að teljast að ástæðan sé ekki fótboltalegs eðlis heldur frekar samskiptalegs eðlis.
Ég persónulega vil fá að sjá mjög sóknarsinnað United lið á morgun og ætla að spá þessu einhvern veginn svona. Tel nánast öruggt að Vidic og Rio verði í vörninni eftir að hafa hvílt um helgina. Nani mun byrja í stað Valencia sem hefur bara verið í skugginn af sjálfum sér og veitti kannski af að komast á eins og eitt Tony Robbins námskeið.
Ætla að spá 3-0 sigri en treysti mér ekki til að spá fyrir um markaskorara.
Leikurinn hefst klukkan 20:00
Manchester United 4:1 Fulham
Eftir að hafa átt í töluverðum vandræðum með West Ham í þriðju umferð FA bikarsins var komið að því að taka á móti Fulham í fjórðu umferð á Old Trafford. Á síðustu tveimur árum hefur Manchester United gengið frekar vel gegn Fulham, í síðustu 6 viðureigum hefur United 5 sinnum haft betur og einu sinni hafa liðin gert jafntefli. Maður var því tiltölulega bjartsýnn fyrir leikinn í dag og drengirnir okkar sýndu að maður hafði allan rétt á því. Ferguson gerði sex breytingar á liðinu frá leiknum við Tottenham.
De Gea
Rafael Jones Smalling Evra
Carrick Anderson
Nani Rooney Giggs
Hernandez
Leikurinn byrjaði fjörlega því eftir aðeins 72 sekúndur skoraði United fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu. Eftir ágæta sókn á fyrstu sekúndum leiksins fékk United hornspyrnu. Rooney smellti boltanum inn í boxið, Smalling stekkur upp og var við það að skalla boltann þegar Aaron Hughes, sem stökk upp með Smalling, rak vinstri hendina í knöttinn. Clattenburg tók 1-2 sekúndur í að hugsa málið og flautaði svo víti, sem var samkvæmt endursýningu alveg rakið. Giggs tók vítið og skoraði, ekki svo örugglega því Schwarzer náði að setja hendurnar í boltann. Virkilega góð byrjun á leiknum.
Á næstu mínútum eftir markið datt leikurinn hálfpartinn niður í „gönguhraða“ ef við getum sagt svo. Fulham héldu boltanum ágætlega á milli sín á miðju vallarins sköpuðu sér þó engin færi. Á 20 mínútu átti United svo að fá annað víti þegar Duff augljóslega setti hendina viljandi í boltann. Clattenburg sá atvikið vel en virtist réttlæta aðgerðir Duffs með einhverjum hætti gagnvart Giggs og Evra sem mótmæltu. Ég hef ekki hugmynd um hvaða rök Clattenburg hafði gegn því að dæma víti því þetta var ansi augljóst gagnvart öllum á vellinum, þar á meðal Duff. Í kjölfarið að þessu atviki fékk United horn og upp úr því gott færi þegar Rooney skaut að marki en Schwarzer varði í þverslá.
Fátt annað markvert gerðist það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Eins og ég hafði áður sagt þú héldu Fulham boltanum ágætlega fyrri hluta hálfleiksins en ógnuðu ekkert, áttu til dæmis bara eitt skoti á rammann. United voru yfirvegaðir í sínum varnaraðgerðum en sóknarlega voru hlutirnir kannski ekki alveg jafn vel smurðir. Í lang flestum tilvikum kom boltinn upp miðjan völlinn og menn voru að reyna að þræða boltanum í gegnum vörn Fulham, nú eða reyna skot sem voru flest hver hættulaus. Í öðrum tilfellum var boltanum komið á Nani á hægri kantinum en það virtist vera alveg vonalaust fyrir greyið manninn að koma boltanum inn í teiginn, annað hvort stoppaði hann sóknina með því að klappa boltanum aðeins of mikið (og allir varnarmenn Fulham voru mættir á sinn stað) eða þá að sendingarnar hans höfnuðu í fyrsta varnarmanni Fulham. Það voru helst föstu leikatriðin sem sköpuðu mestu hætturnar í fyrri hálfleik. Allavega, 1-0 í hálfleik.
Seinni hálfleikur byrjaði næstum því jafn fjörlega og sá fyrri. Nani átti loksins góða uppbyggingu á hægri kantinum, gaf fyrir á Rooney sem átti hörku skot sem Aaron Hughes varði á línu. Rooney brást hinsvegar ekki bogalistinn nokkrum mínútum seinna þegar hann skoraði loksins annað mark United í leiknum, nánar tiltekið á 50 mínútu. Anderson fékk boltann á miðjunni og átti frábæra stungusendingu á Rooney, sem lék vel á varnarmenn Fulham og negldi honum framhjá Schwarzer í markinu, með vinstri takk fyrir! Loksins kom markið sem maður var búinn að bíða eftir í 48 mínútur.
Tveimur mínútum seinna gerði Hernández út um leikinn með því að setja þriðja mark United. Eftir góða skyndisókn, sem virtist reyndar vera að fjara út, fékk Rooney boltann á hægri kantinum, gaf fyrir og þar var Litla Baunin einn og óvaldaður, tækifæri sem Mexíkaninn sleppir sko ekki. Gott mark og loksins gat maður farið að halla sér aftur í sætinu og njóta lífsins.
Á 61 mínútu var Carrick skipt útaf fyrir Scholes og 5 mínútum seinna skoraði Hernández svo annað mark sitt í leiknum og fjórða mark United. Það var smá heppnisstimpill yfir því marki því boltinn átti viðkomu í varnarmanni Fulham og skoppaði svo rólega framhjá Schwarzer sem var búinn að skutla sér í það horn sem boltinn virtist stefna í. Þar með var leikurinn búinn og Ferguson ákvað að grípa tækifærið og nota restina af skiptingunum sínum þegar Kagawa og Valencia komu inn á fyrir Anderson og Giggs.
Fulham klóraði í bakkann á 76 mínútu þegar Aaron Hughes skallaði boltann í netið eftir horn. Í stöðunni 4-0 þá skipti þetta mark engu máli, en hefði þetta til dæmis verið jöfnunarmark þá hefði ég orðið ofboðslega pirraður út í Rooney, sem var alveg út á þekju í því að dekka sinn mann. Rooney ætlaði reyndar að bæta upp fyrir þau mistök þegar hann skoraði að mínu mati fullkomlega löglegt mark á 83 mínútu. Clattenburg dæmdi hinsvegar brot á Hernández í aðdraganda marksins. Rangur dómur þar á ferðinni, fáránlegur satt best að segja, og kórónaði dómarinn þar með slakan frammistöðu sína í dag. Það mun hinsvegar enginn aðdáandi samsæriskenninga muna eftir framistöðu Clattenburg í dag fyrst United vann leikinn auðveldlega.
Þar með er það upptalið úr leik dagsins, góður og sanngjarn sigur United á Fulham. Þessi lið eigast aftur við eftir nákvæmlega viku, þá á Craven Cottage í Lundúnum. Sá leikur verður pottþétt erfiðari en við skulum kannski fyrst einbeita okkur að leiknum gegn Southampton á miðvikudaginn. Nokkrir koma til greina sem maður leiksins í dag. Giggs var til dæmis mjög góður, Anderson líka og öll vörnin hreinlega. Ég er ennþá að reyna að finna eitthvað sem ég get kennt De Gea um…það hlýtur að koma eitthvað fljótlega.
Að lokum, tvö tíst:
4 – Javier Hernandez has bagged himself four goals in his last five games for Manchester United in all competitions. Finisher.
— OptaJoe (@OptaJoe) January 26, 2013
7 – Wayne Rooney has now scored seven goals in his last eight appearances for Manchester United in all competitions. Strike.
— OptaJoe (@OptaJoe) January 26, 2013
Byrjunarliðið gegn Fulham
Liðið gegn Fulham er komið:
De Gea
Rafael Jones Smalling Evra
Carrick Anderson
Nani Rooney Giggs
Hernandez
Varamenn: Lindegaard, Ferdinand, Kagawa, Scholes, Valencia, van Persie, Welbeck
Bikarleikur gegn Fulham á Old Trafford
Fyrsti heimaleikur United í deildinni þetta tímabil var gegn Fulham, fyrsti af mörgum 3:2 sigrum tímabilsins. Þessi lið eru á ólíkum stað í deildinni þar sem United er á toppnum á meðan Fulham er í 14. sæti sex stigum frá fallsæti. Einhverjir gætu sagt að við værum óheppin að fá strax 2 úrvalsdeildarlið í röð svona snemma í keppninni, reyndar hafa verstu klúðrin yfirleitt verið gegn liðum úr deildunum fyrir neðan.
Með Fulham leika eins og margir vita tveir fyrrverandi leikmenn United, Kieran Richardson og Búlgarski sjarmurinn og sjentilmaðurinn Dimitar Berbatov. Richardson verður ekki með vegna meiðsla, Dimitar Berbatov mun leika sinn fyrsta leik gegn United í langan tíma. Berba hefur skorað 7 mörk í 17 leikjum fyrir Fulham eða rúmlega 20% marka þeirra.
Leikmenn Manchester United skelltu sér í æfingarferð til Qatar í vikunni og hafa vonandi náð að hlaða batteríin. Samkvæmt blaðamannafundi Ferguson í dag verða Ashley Young og Jonny Evans ekki með á morgun, hann segir að stutt sé í Young en að það sé aðeins lengra í Evans.
Það getur oft verið strembið að skjóta á rétt byrjunarlið þessa dagana en ég spái þessu svona:
Ég spái þessum leik 3-1, van Persie, Nani og Cleverley skora fyrir okkar menn og Berbatov skorar fyrir Fulham.