Það voru hvort eð er allir of uppteknir í dag til lesa þessa upphitun var það ekki?
Sú var tíð að jóladagur var fótboltadagur í Bretlandi en síðan eru 55 ár. Nú er það annar í jólum sem gegnir þessu hlutverki. Enn ein ástæðan fyrir þvi að jólin eru betri þegar þau eru í miðri viku!
Eftir fyrsta jafntefli leiktíðarinnar um helgina, sem lítil þörf er á að rifja upp, er komið að því að taka á móti Newcastle United. Newcastle hefur gengið illa í vetur eftir að hafa látið Alan Pardew stjóra sinn fá ekkert minna en átta ára samning. að er þó lítið annað en nafnið eitt, því hann mun víst aldrei fá meira en eitt ár greitt up ef honum er sagt upp.
En hvað sem því líður virðist Newcastle sem kemur í heimsókn ekki það skeinuhætta lið sem það var í fyrra. Þeir sigruðu QPR naumlega um helgina á heimavelli en hafa tapað síðustu þrem leikjum á útivelli og hafa enn ekki unnið úti á leiktíðinni. Cheik Tiote verður í banni á morgun og það eru góðar fréttir fyrir miðjubaráttuna sem hefur nú ekki verið okkar sterkasta hlið í vetur. Einnig eru menn á borð við Yohan Cabaye og Hatem Ben Arfa frá vegna meiðsla
Eftir liðsuppstillingu á sunnudaginn sem alls ekki var hægt að kvarta undan er ekki auðvelt að sjá fyrir liðið okkar. Við vitum að rótering er lykilorð í jólavertíðinni og ég ætla að skjóta á eftirfarandi
De Gea
Rafael Rio Vidic Evra
Valencia Cleverley Fletcher Welbeck
Hernandez Van Persie
Ég er að vonast til að Rafael verði orðinn góður af meiðslunum, býst fastlega við róteringu á miðjunni og held það sé illskárra að sjá Fletcher þar inni frekar en Scholes og þá sé liklegra hann komi inn fyrir Carrick en Cleverley. Welbeck er líklega okkar besti kantmaður í dag, því miður og allt eins líklegt að Young haldi sæti sínu eins og Valencia. Sá síðarnefndi vann í dag algerlega óformlega skoðanakönnun á Twitter hver hefði verið okkar slakasti maður í vetur. Það er hálf sorglegt að sjá hvað hann er orðinn ragur og allt annar leikmaður en hann hefur verið.
Miðvarðaparið er algert ágisk, gæti verið hvaða par sem er af þessum fimm sem allir eru heilir, en Ferdinand og Vidic ættu að fá tækifærið til að sýna að þeir séu enn okkar megin menn ef þeir eru leikfærir.
Ég hefði alveg þegið að hafa aðeins hættuminni lið á heimavelli en Newcastle og West Bromwich núna, til að geta notað menn eins og Powell í byrjunarliði og þá í tígli. Hugsa samt að við eigum eftir að sjá tígulinn gegn West Brom eða Wigan, en til þess þarf Anderson að vera heill og svo Kagawa sem fremstur í tígli eða Rooney. Á morgun þarfnast Rooney klárlega hvíldar eftir arfaslaka frammistöðu á sunnudag og ég spái að Chicharito fái að byrja.
En nóg um það. Jólagjöfin okkar i ár var fjögurra stiga forysta. Rétt’upp hönd öll þau sem hefðu þegið þá jólagjöf með þökkum ef hún hefði verið boðin í haust? Öll? Fínt. Og fjögurra stiga forysta með frammistöðu eins og liðið hefur oft sýnt í haust og við kvartað sárlega undan? Jafnvel betra!
Þannig við lítum á björtu hliðarnar og á morgun spái ég 2-0 sigri. Við erum jú með Robin van Persie. Og Javier Hernandez.
Vonum svo að jólin hafi verið jafn skemmtileg og hjá tvíburunum, Ángelo Henriques, litlu baun og aðalmarkmanni United.