Það er allt vitlaust að gera í ensku úrvalsdeildinni þessa dagana, maður er rétt að ljúka yfirferð sinni á leikjum fjórtándu umferðar þegar sú fimmtánda er komin í gang. Á morgun sækja okkar menn Reading heim á Madejski vellinum í Berkshire héraði í Suður Englandi. Fyrir fram ætti þetta að teljast frekar léttur leikur fyrir United þar sem Reading hefur alls ekki vegnað vel í deildinni það sem af er tímabils. Þeir sitja í næst neðsta sæti deildarinnar með 9 stig, sem þeir hafa önglað saman með einum sigri og sex jafnteflum.
Eins og rætt hefur verið hér margoft hefur United hefur verið að ströggla svolítið gegn minni liðunum í vetur og gæti leikurinn á morgun því orðið erfiður. Reading getur varist vel og þeir hafa eflaust legið yfir spilamennsku Norwich gegn United til að sjá hvernig væri best að nálgast leikinn varnarlega. Svo er það spurning hvernig Ferguson ætlar að setja þennan leik upp, svona miðað við spilamennsku liðsins gegn West Ham í vikunni. Þó svo miðjan og vörnin hafi staðið sig vel í þeim leik þá var sóknin afskaplega bitlaus. Ætlar Ferguson að nota sama plan og vonast til þess að sóknin batni eða ætlar hann að breyta til í þeim tilgangi að fá meiri breidd í sóknarleikinn?
Meiðslalistinn okkar gefur þó til kynna að það gæti reynst Ferguson erfitt að koma með breidd í sóknarleikinn. Nýjustu fréttir af Valencia eru þær að hann verður ekki klár á morgun, Kagawa er auðvitað ennþá meiddur sem og Nani en það eru umræður í gangi þess efnis að hann verði frá mun lengur en menn héldu, jafnvel framyfir jól. Meðalaldur byrjunarliðsins gæti þó hækkað verulega með endurkomu Scholes, hefur snúið aftur úr leikbanni, og Giggs sem er kominn aftur á fullan snúning eftir smávægileg meiðsli aftan í læri. Einnig er Ferdinand líklegur til að mæta aftur í byrjunarliðið eftir að hafa verið hvíldur gegn West Ham. Ég veit ekki alveg hverju skal spá með byrjunarliðið nema því að við sjáum Anderson þar, held að annað væru stór mistök. Ég ætla að skjóta á þetta svona:
De Gea
Rafael Ferdinand Evans Evra
Anderson Carrick
Young Rooney Welbeck
Van Persie
Ég er hræddur um að Ferguson setji Chicharito aftur á bekkinn (þó svo ég persónulega vilji sjá hann alltaf byrja!) og hann gefi Young og Welbeck sénsinn til að fríska upp á sóknarleikinn, þó svo þeir hafi ekki verið upp á sitt besta undanfarið. Mikilvægast þó fyrir sóknina er að Rooney eigi góðan leik, en það gerist þá hef ég ekki miklar áhyggjur af því hvaða leikmenn eru þar til að hjálpa honum.
Mikið væri það nú þægilegt að sjá ferska og einbeitta United pilta fara með þægilegan sigur að hólmi á morgun, helst komnir með +2 marka mun strax í fyrri hálfleik og e.t.v auka þann mun í þeim seinni. Munið þið eftir svoleiðis spilamennsku? Ahhhh, minningar!