Á morgun ætla leikmenn United að skutlast til Birmingham til að spila við Aston Villa á Villa Park. Verður þetta síðasti leikur dagsins á morgun og byrjar klukkan 17:30. United hefur farið í gegnum ansi þétta dagskrá undanfarið, dagskrá sem ég persónulega missti mest megnis af vegna fellibylsins Sandy en hún tók af mér rafmagnið í heila viku hér í New York. Ég veit því lítið um hvernig spilamennska liðsins hefur verið síðan í deildarleiknum við Chelsea. Úrslitin hafa verið þó verið góð, sigur gegn Chelsea og Arsenal. Aston Villa hefur gengið hálf brösuglega það sem af er tímabilinu, eru í 17 sæti með aðeins 9 stig. Það eru mikil vonbrigði fyrir Villa aðdáendur en þetta er lið sem ætti aldrei að fara mikið neðar en um miðja deild.
Af United er það að frétta að Jonny Evans og Nani nældu sér í smá meiðsli gegn Braga og verða ekki með um helgina. Engin breyting er á þeim Vidic, Jones og Kagawa sem eru ennþá frá. Hér er það sem verður að teljast líklegt byrjunarlið:
De Gea
Rafael Ferdinand Smalling Evra
Carrick Cleverly
Valencia Rooney Young
Van Persie
Semsagt, nokkuð veginn sama lið og byrjaði leikinn gegn Arsenal. Tölfræðin er með okkur hliðholl í þessum leik, Ferguson hefur víst ekki tapað á Villa Park í deildinni síðan 1995! Ég er þó farinn að taka öllu slíkum tölum með fyrirvara því mér hefur fundist úrslit hafa farið mikið „gegn sögunni“ undanfarið. Það er því ekkert gefins í þessum leik, Villa þurfa að girða sig í brók og fara að leika betur og það hefur sýnt sig að minni liðin leika oft hvað best gegn United. Villa er þó í miklum vandræðum með meiðsli, er með einhverja 4-5 lykilmenn meidda. Ég ætla því að spá frekar „öruggum“ 2-0 sigri í þessum leik. Van Persie með bæði mörkin og ég held að við höldum hreinu, sem er svaka djörf spá af minni hálfu.
Fyrst við erum að tala hér um Villa, þá ætla ég að enda þetta á einu af mínum uppáhalds United mörkum. Scholes á Villa Park árið 2006.
http://www.youtube.com/watch?v=LEBuxDDBRtU