Enn einu sinni hefst United sigur með einu marki, en í þetta skiptið sýnir markatalan ranga mynd af leiknum.
Leikurinn var varla byrjaður þegar veikleiki Arsenal varnarinnar gerði vart við sig. Santos fylgdi Rafael ekki vel eftir og leyfði fyrirgjöf inn á teiginn, en Vermaelen gerði mjög skemmtileg mistök og gaf því sem næst beint á Robin van Persie sem afgreiddi boltann örugglega í hornið.
Annars fór leikurinn frekar tíðindalítið fram fram undir miðjan hálfleikinn að bæði lið áttu góð færi, en Mannone og De Gea sáu um það. Arsenal voru nokkuð öflugri og United menn fóru í spjaldasöfnun, Young, Carrick og Cleverley fengu allir gul spjöld fyrir brot.
Undir lok hálfleiksins fengu United síðan víti. United fengu horn og síðan átti Ashley Young fyrirgjöf sem Santi Cazorla stökk fyrir og stöðvaði með hendi. Arsenal menn allt annar en sáttir, en Rooney hélt áfram vítavandræðum United og brenndi vítinu. Svo sem skiljanlegt að Van Persie sé ekki látinn taka vítið, en miðað við að Rooney er ekki alltaf öruggur í vítum, hættulegt.
Ekki var mínúta liðin af seinni hálfleik þegar United átti enn að bæta í, Vermaelen missti enn boltann frá sér og Van Persie stal honum, lék upp, gaf fyrir og á óskiljanlegan hátt tókst Valencia að láta boltann flækjast fyrir sér frekar en að renna honum í netið.
United var engan veginn að ná tökum á miðjunni í þessum leik, Arsenal var mun meira með boltann þar, United lá frekar aftarlega og var með skyndisóknir.
Enn og aftur fóru United menn illa að ráði sínu um miðjan hálfleikinn þegar Robin van Persie fékk frábæra sendingu frá Ashley Young inn fyrir vörnina, en skotið var ekki nógu gott og Mannone varði í horn. Úr horninu kom þó langþráð annað markið, Rooney með fyrirgjöfina og Evra skoraði með góðum skalla.
Skömmu eftir markið var Jack Wilshere rekinn útaf. Hann hafði fengið gult fyrir seina tæklingu í fyrri hálfleik og verið að smábrjóta af sér. Fékk síðan annað gult þegar hann missti boltann aðeins of langt frá sér og fór í ökklann á Evra við að reyna ná til hans. Verulega klaufalegt hjá Wenger að vera ekki búinn að taka hann útaf eins og Ferguson var búinn að taka Cleverley útaf fyrir Anderson. Cleverley var í svipuðu rugli og Wilshere, báðir áttu tæklingar sem hefðu getað verið annað gult, Cleverley var tekinn útaf, Wilshere ekki og því fór sem fór.
Síðustu 20. mínúturnar voru síðan daufar og það leit út fyrir að leikurinn væri að fjara út, en undir lokin sótti Arsenal nokkuð og með síðasta skoti leiksins minnkaði Santi Cazorla muninn með laglegu marki.
Þetta var sanngjarn sigur United í frekar slökum leik. Leikmenn voru frekar grimmir í dag og spjaldaveislan dró úr ánægjunni. United réði ekki spilinu eins og ég hefði viljað, en Anderson átti þokkalega innkomu. Leikurinn vannst hins vegar á mun betri sókn United og það verður að viðurkennast, slakri vörn Arsenal. Ef ekki fyrir mistök hefði sigurinn átt að vera stærri og öruggari.
Þessi stig eru vel þegin í leik sem er erfiður á pappírnum. Framundan er leikjahrina þar sem United á að búast við sigri í hverjum leik, fram að Manchester-slagnum 9. desember og vonandi verðum við í góðri stöðu í deildinni þegar við förum á Etihad.