Rússíbanakvöld í boði Manchester United.
Þetta byrjaði ekki byrlega fyrir okkar menn. Eftir 90 sekúndur voru Braga-menn komnir yfir og þar var að verki tískufyrirmynd Anderson, leikmaður að nafni Alan. Hann var umkringdur varnarmönnum United en náði engu að síður skallanum og inn fór boltinn. Eftir markið var United meira með boltann en Braga ógnaði með fámennum skyndisóknum. Það var úr þannig sókn sem Braga komst í 0-2. Éder og Alan voru einir gegn svona átta United-mönnum. Éder fíflaði miðvörðinn Carrick alveg við hliðarlínuna, gaf inn í teig þar sem Jonny Evans var að horfa á einhverja sæta stelpu upp í stúku, í það minnsta ekki neitt að pæla í því hvern hann ætti að vera að dekka. Alan nýtti sér það og skoraði ágætis mark, staðan 0-2.
Okkar menn voru þó ekki lengi að minnka muninn. Fimm mínútum eftir annað mark Braga tók Robin van Persie einn nettan Zidane á þetta og snarsneri sér framhjá varnarmanni Braga við vítateigshornið. Varnarmanninum brá svo mikið að hann gat ekki annað en brotið á van Persie, boltinn barst til Kagawa inn í teignum og dómarinn gerði vel í að beita hagnaðarreglunni. Kagawa gaf boltann á fjærstöng þar sem Chicharito var einn og óvaldaður og skallaði boltann í markið. Staðan 1-2 eftir 25. mínútur. Restin af hálfleiknum einkenndist af því að United var meira með boltann án þess að ógna verulega. Staðan var því 1-2 í hálfleik.
Nani kom inná í hálfleik fyrir Kagawa og óhætt að segja að United hafi gjörsamlega átti seinni hálfleikinn. Liðið setti þunga pressu á andstæðinginn sem þurfti alltaf að færa sig neðar og neðar og það var í raun bara tímaspursmál hvenær United myndi jafna. Liðið sótti og sótti og átti nokkrar álitlegar sóknir án þess þó að ná að skora. Jöfnunarmarkið kom nú samt fyrir rest og það gerðist á 62. mínútu þegar Jonny Evans hnoðaði boltanum inn eftir frekar dapra hornspyrnu. Skítt með það, staðan 2-2.
Menn voru ekkert að taka fótinn af bensíngjöfinni og héldu áfram uppteknum hætti. Það bar árangur á 75. mínútu þegar Tom Cleverley fékk boltann úti á kanti og átti frábæra Beckham-fyrirgjöf þar sem Chicharito kórónaði frábæran leik sinn með því að skalla í markið. Hann var aftur óvaldaður á fjærstönginni og þó að hann sé smár er hann hörkuskallamaður. Þetta var óumflýjanlegt því leikmenn Braga höfðu fram að þessu ekki náð mikið meira en 3-4 sendingum á milli sín áður en þeir misstu boltann.
Eftir síðasta markið reyndu leikmenn Braga að jafna leikinn en það tókst ekki og því enduðu leikar 3-2 fyrir United. Það er alls ekki flókið að velja mann leiksins. Javier Hernandez var frábær í leiknum. Ekki nóg með það að hann hafi skorað tvö mörk heldur barðist hann út um allan völl, tók góðan þátt í spilinu og kom mönnum í færi. Tom Cleverley og Wayne Rooney voru einnig mjög sprækir og það verður að hrósa varnarlínunni í seinni hálfleik en hún stoppaði allar álitlegar sóknir Braga-manna.
Auðvitað var mjög gott að vinna þennan leik, sérstaklega eftir að hafa lent 0-2 undir. Liðið er nú með 9 stig eftir þrjá leiki og svo gott sem búið að tryggja sér efsta sætið í riðlinum (Cluj er með 4 stig í 2. sæti) meðan okkar helstu andstæðingar í deildinni eru í þó nokkru basli í Meistaradeildinni. Það sem verður hinsvegar að ræða er þessi staðreynd hér:
8 – Manchester United have conceded the first goal in eight of their 12 competitive games so far in 2012-13. Dozy.
— OptaJoe (@OptaJoe) October 23, 2012
Ég hef aldrei séð aðra eins tölfræði. Auðvitað eru talsverð meiðsli á varnarlínunni okkar og allt það en lið sem ætlar sér að vinna titla getur einfaldlega ekki leyft sér að byrja nánast alla leiki á því að lenda marki undir, hvað þá tveimur. Það er kannski allt í lagi gegn liðum eins og Braga og Southampton en gegn stærri liðum kemur það bara í kollinn á mönnum eins og bersýnilega sást gegn Tottenham fyrir skömmu. Málið er einnig það að þessi mörk sem liðið er að fá sig eru ekki einhver óverjandi Barcelona-mörk. Mörkin eru flest að koma vegna þess að menn eru ekki að fylgjast með í dekkingu á mörkum. Menn eru einfaldlega ekki að einbeita sér og að gera grundvallarmistök aftur og aftur.
Þetta er eitthvað sem verður að laga og það verður að berja þetta í kollinn á mönnum: Einbeitið ykkur frá fyrstu sekúndu! Leikmennirnir gerðu það gegn Newcastle í deildinni og uppskáru mjög sannfærandi 0-3 útisigur. Framundan eru þrír erfiðir leikir gegn Chelsea og Arsenal. Í þeim leikjum verða menn að vera með frá fyrstu mínútu, annars fer illa.