Eins og vænta má, þrem dögum fyrir lokun félagaskiptagluggans, ræður slúðrið ríkjum. Dimitar Berbatov er skv. fréttum í flugvél á leiðinni til Flórens í læknisskoðun eftir að United tók tilboði Fiorentina, sem ku vera um 4 milljónir punda. Virðist nokkuð vel staðfest frétt.
Moussa Dembélé, sem margir United menn hafa viljað sjá koma til félagsins, er hins vegar á leiðinni til Tottenham Hotspur eftir að þeir buðu þær 15 milljónir sem útkaupaklásúlan í samningi hans kvað á um. Orðið á götunni er að United hafi haft áhuga en ekki sem svaraði meira en 11 milljónum.
Og loks staðfesti Anderson það á Instagram að Nani væri EKKI á leiðinni frá félaginu. Sjáum til hversu áreiðanlegt það reynist.
Uppfært kl 21:50 (Sigurjón): Berbatov málið tók heldur betur óvænta stefnu núna í kvöld. Fiorentina voru að senda frá sér yfirlýsingu þess efnis að þeir hafi átt von á Berbatov í Flórens seinni partinn í dag en hann hafi hinsvegar ekki látið sjá sig, var það út af „hrokafullri hegðun annarra félaga“ eins og það var orðað. Juventus virðist nefnilega hafa blanda sér í málin sem og Fulham en þeir virðast ætla að nota sína Dembélé peninga í eitthvað gáfulegt, og það strax. Það verður spennandi að fylgjast með framvindu þessa málsins á næstu dögum.