Hvar skal byrja?
Þessi leikur var frábær skemmtun og leit mjög vel út allt þar á 94. mínútu. Ég nenni ekki að fara yfir á hvaða mínútu mörkin komu og allt það. Í staðinn ætla ég bara að nefna nokkra hluti sem mér fannst athyglisverðir við þennan leik.
Byrjum á byrjunarliðinu. United stillti upp hefðbundnu deildarbikarliði. Vegna meiðsla varnarmanna okkar fengu M.Keane og S. Wooton tækifæri á ný í byrjunarliðinu ásamt Büttner. Rafael var í hægri bak til þess að gefa varnarlínunni smá reynslu (!). Þrátt fyrir að leikurinn hafi endað 5-4 fyrir Chelsea er ekki annað hægt en að hrósa Wooton og Keane. Allt fram á 94. mínútu stoppuðu þeir nánast allt sem kom að marki United og stóðu sig einstaklega vel. Það eru svo tvenn mistök sem hiklaust er hægt að skrifa á reynsluleysi og þreytu sem gefa Chelsea mark númer 3 og 4. Wooton gerði mistökin en stóð sig annars vel. Ég var samt sérstaklega hrifinn af Keane, mér fannst hann standa sig mjög vel og ég held að hann geti alveg dekkað þessa stöðu vandræðalaust ef meiðslin halda áfram. Auðvitað er grátlegt að mistök Wooton hafi kostað okkur sigurinn í þessum leik en þetta fer í reynslubankann og það er ómetanlegt.