Ef þessi sami bikarleikur hefði verið settur á fyrir 6 vikum síðan þá hefði maður líklega upplifað miklu meira stress en spennu fyrir leik og sennilega óskað eftir því að skemmtanastigið í leiknum yrði við frostmark því þar lægju helst möguleikar Manchester United til að fá eitthvað út úr þessum leik. Ó, hve mikil breyting hefur orðið á ekki lengri tíma. Núna beið undirritaður óþreyjufullur alla vikuna eftir leiknum, hlakkaði mikið til að sjá hvernig liðið yrði og var verulega bjartsýnn bæði á að leikurinn gæti orðið skemmtilegur áhorfs og að það myndi einmitt þýða að Manchester United ætti góðan séns á að halda sigurgöngu sinni áfram. Enda gekk það líka eftir!
Emirates
Arsenal 2:0 Manchester United
Það kom loksins að því. Manchester United tapaði knattspyrnuleik í deildinni. Enn og aftur er það í London en liðið hefur tapað þar fyrir Chelsea í bæði deild og bikar í ár.
Ofan á allt saman þá var þetta fyrsta tap Mourinho fyrir Wenger á ferlinum. Wenger getur því sest sásttur í helgan stein eftir tímabilið.
Það kom fáum á óvart að Mourinho gerði mikið af breytingum, átta talsins, fyrir leikinn. Hann hafði gefið út eftir jafnteflið við Swansea City síðustu helgi að öll einbeiting liðsins væri nú á Evrópudeildinni. Wayne Rooney kom því inn í liðið ásamt meiðslapésunum Chris Smalling og Phil Jones. Síðan byrjaði Axel Tuanzebe sinn fyrsta leik fyrir félagið en hann lék í stöðu hægri bakvarðar þó hann sé hafsent að upplagi.