Brúnin hefur lyfst heldur á stuðningsmönnum Manchester United eftir fyrstu leiki nýs árs þótt afrekin séu ekki stærri en tvö jafntefli. En það sem raunverulega skilur milli feigs og ófeigs í enska boltanum er hvort viðkomandi spili vel á köldu kvöldi í Stoke. Á morgun verður prófraunin á janúarkvöldi í Manchester gegn Southampton.
Stuðningsmenn United hafa glaðst yfir jafntefli gegn Liverpool og sigri í vítaspyrnukeppni gegn Arsenal í bikarnum. Báðir leikirnir voru á útivelli en sannarlega úrslit sem United þáði eftir þrjú töp í deildinni í röð, þar af tvö á Old Trafford.
Það er samt rétt að hafa fæturna á jörðinni, samanlagt var xG-gildi leikjanna um það bil 6-2. United átti það kannski inni eftir að hafa farið illa út úr Bournemouth leiknum fyrir jól. En mörkin eru það sem telja og kannski hefur það jákvæðasta verið að sjá hjarta í liðinu, eins og eftir að það lenti manni undir gegn Arsenal.
En jafntefli eru lítils virði og verða fljótt gleymd ef United tekst ekki að vinna Southamtpton sem er rígbundið við botninn með sex stig, sem er með því verra sem deildin hefur séð.
Janúarglugginn
Það er umrót á United miðað við fréttir. Marcus Rashford hefur ekki sést í mánuð og ferill hans hjá félaginu virðist einfaldlega búinn. Líklegast virðist að hann fari til AC Milan. Napoli er klárlega að míga utan í Alejandro Garnacho. Í það minnsta umboðsmenn hans og mögulega hann sjálfur virðast ekki afhuga ítalska liðinu, trúlega í von um feitar greiðslur og United hefur í það minnsta ekki skellt á þá dyrunum en virðist gera kröfur sem eru langt umfram það sem Napoli virðist tilbúið að borga. Þá verður ekki mikið um að vera.
Anthony er áfram orðaður við önnur lið en ekkert hefur enn hreyfst þar. Það sama gildir um Casemiro. Í kringum Christian Eriksen og Victor Lindelöf er allt hljótt. Samningar þeirra tveggja síðasttöldu renna út í sumar og eru því væntanlega falir ef tilboð berst. Toby Collyer var tekinn fram yfir miðjumennina þegar fríska fætur þurfti gegn Arsenal og átti frábæra innkomu. Til dæmis var ánægjulegt að sjá hann spretta fram í þeim fáu skyndisóknum sem United fékk undir lokin og skapa pláss fyrir samherjana með hlaupalínum sínum.
Sem stendur er ekkert sem hönd á festir um þá sem orðaðir eru við félagið. Trúlegustu sögurnar eru Ruben Amorim vilji fá vinstri kantbakvörð en þar eru engin nöfn. Ef Rashford fer gæti verið þörf á sóknarmanni en þar er einnig fátt um sögur. Randal Kolo Muani, sem helst var orðaður við liðið, virðist vera farinn annað. Frumskilyrði virðist að leikmenni verði seldir eða lánaðir til að fjármagna þá sem gætu komið inn.
Dalot í leikbanni
En fyrst er það Southampton á morgun. Diogo Dalot er í banni eftir brottvísunina gegn Arsenal. Hann hefur verið fastamaður á vinstri kantinum. Tyrrell Malacia kom inn í þá stöðu seint í leiknum á sunnudag, hefur nokkrum sinnum spilað hana og virðist því líklegasti kosturinn.
Altay Bayindir átti stórleik þegar á leið sunnudaginn en varla nóg til að Andre Onana verði ekki áfram í byrjunarliðinu í úrvalsdeildinni, eins og öllum leikjum tímabilsins. Harry Maguire var veikur í aðdraganda bikarleiksins en lagði sig allan fram í 90 mínútur og er vonandi búinn að ná sér alveg.
Southampton vann sinn fyrsta leik undir stjórn Ivan Juric um helgina, gegn Swansea úr B-deildinni í bikarnum. Jack Stephens er meiddur og því verður Southampton án fyrirliða síns. Ross Stewart og Flynn Downes eru einnig á meiðslalistanum.
Leikið er á Old Trafford og hefst leikurinn klukkan 20:00