Öllum að óvörum dúkkuðu allt í upp fréttir í gær frá Hollandi að United væri við það að kaupa 23ja ára gamlan leikmann frá Vitesse Arnhem. Enn hefur ekkert heyrst frá United um málið en svo virðist sem fréttirnar hafi verið staðfestar af bæði Büttner og Vitesse. Óhætt er að segja að alla hafi rekið í rogastans, bæði þau okkar sem ekkert þekkja til pilts og hinna líka, viðbrögðin frá Hollandi virðast flestöll á þann veg að hann sé alls ekki af United klassa. Büttner virtist á leið til Southampton fyrr í sumar en ágreiningur um greiðslur til þriðja aðila stöðvuðu það. Nú hafa United og Sir Alex ekki talað fallega um umboðsmenn og slíkar greiðslur, en það er alla vega ekki að stöðva þetta núna.
Büttner var í úrtakshóp Hollands fyrir EM, en unglingurinn Jetro Willems frá Ajax var tekinn framfyrir. Í viðtali við Büttner frá 2010 kemur fram að hann sé alinn upp í fátæku hjólhýsahverfi og fótboltinn á götunni hafi hert hann þannig að hann ætti alveg að geta varist vel. Fram hefur komið að hann þyki líka frekar framsækinn.
En aftur komum við að því að í Hollandi þykir sem þessi leikmaður eigi frekar heima í Southampton en Manchester United. Kaupverð ku vera 3,9m punda og af þessu öllu er ljóst að þarna er verið að kaupa ódýra lausn á hugsanlegum vanda ef Evra lendir í meiðslum, án þess að vera að eyða pening í menn á borð við Leighton Baines. Unglingastarfið mun vonandi gefa af sér framtíðarlausn í þessa stöðu, Tyler Blackett er efnilegur vinstri bakvörður og þarf ekki að hafa áhyggjur að þessi kaup loki á framtiðarmöguleika hans.
Ágæt tímabundin lausn ef af verður.
Skildu eftir svar