31. ágúst 2008 var viðburðaríkur dagur í Manchester. Sheikarnir frá Abu Dhabi keyptu Manchester City, og í æsingnum við að kaupa sterkan leikmann buðu þeir meira að segja 30m punda í Lionel Messi þegar einhver misskildi orð annars um að „things were getting messy“. Þeir buðu líka í Dimitar Berbatov. En Manchester United bauð líka í Dimi og í hans huga kom ekkert annað til greina. Manchester United hafði eytt yfir 20 milljónum punda í leikmann í fyrsta sinn síðan Malcolm Glazer keypti félagið og reyndar í síðasta sinn þangað til Robin van Persie kom til liðsins fyrir tveimur vikum. Verðið var reyndar rúmar 30 milljónir og Berbatov er dýrasti leikmaður í sögu félagsins.
Allt átti þetta sér auðvitað skýringu, félagið vissi á þessum tíma að Ronaldo var búinn að fá loforð um að fá að fara frá félaginu næsta sumar og víst að hann yrði seldur góðu verði.
Það er alveg óhætt að segja að Berbatov hafi skipt stuðningsmönnum United í tvo hópa síðan þá. Sumir dá hann, aðrir líta á hann sem letihaug. Ég skammast mín ekkert fyrir að vera í fyrri hópnum. Fyrsta árið skoraði hann 9 mörk í 31 leik í deild og margir stuðningsmenn voru æfir yfir að Tévez væri látinn fara en ekki Berbatov. Þar litu menn auðvitað alveg framhjá því að það hefði kostað amk 25 milljónir að kaupa Tévez til að vera áfram. En ansi margir voru hrifnari af þindarlausum hlaupum hins síðarnefnda frekar en áreynslulausu spili Berbatov sem byggðist á bestu fyrstu snertingu í heimi og tækni sem var meiri en nokkur sem ég hef séð síðan kóngurinn Cantona var og hét.
Árið eftir töpuðum við deildinni til Chelsea, Berbatov skoraði 12 mörk í deild og var ekki að vinna hug og hjörtu þeirra sem ekki voru hrifnir af honum. En tímabilið 2011-12 ætti að nægja hverjum sem er til að dá Dimitar Berbatov. Hann skoraði 20 mörk í 32 leikjum, var markahæstur í deild (ásamt þessum fyrrnefnda fyrrverandi United leikmanni) og var ein meginástæðan fyrir því að United vann 19. titilinn sinn, titil sem þarf væntanlega ekki að segja neinum sem þetta les hvers vegna er svo mikilvægur okkur.
En í fyrra var ljóst að Sir Alex hafði ákveðið að það sem fyrst og fremst vantaði í leik United væri aukinn hraði, og það þýddi bara eitt. Dagar Dimitars hjá United voru taldir. Engu að síður skoraði hann sjö mörk í tólf deildarleikjum og sagði aldrei eitt styggðaryrði um klúbbinn né Sir Alex. Ótrúlega kurteisleg og virðingarverð framkoma sem er óvenjulegt að sjá frá knattspyrnumanni úti í kuldanum
Í vor var nýtt ákvæði í samningi hans og sá framlengdur um ár, og það var nokkuð ljóst að það væri bara til að United fengi einhvern pening fyrir hann þegar hann færi. Samt virtist enginn hraði á hlutunum, fyrr en síðustu tvo daga að allt fór að gerast og núna er Berbatov Fulham leikmaður. Ég hefði svo miklu heldur viljað sjá hann á Ítalíu í aðeins hægari bolta, þar sem hann væri ólíklegur að gera okkur skráveifu. Og að auki er Fulham búið að spila á Old Trafford nú þegar þannig stuðningsmenn fá ekkert að hylla hann.
Að lokum. Í mínum huga snýst Berbatov ekki um 19. titilinn, markakóngstitil, eða meinta leti. Hann var einfaldlega mesti töframaður sem ég hef lengi séð. Í 99,9% hata ég af einlægni tónlist sem menn velja við fótboltamyndband. Hér kveðjum við sannan meistara með frábæru myndbandi með fullkomlega viðeigandi tónlist.
httpv://www.youtube.com/watch?v=29czY142IpQ
Magnús Þór says
Frábær pistill Bjössi! Er hjartanlega sammála öllu sem þarna kemur fram.
ellioman says
Á hvað fór kappinn?
Sigurjón says
Fimm milljónir segja miðlar…ég er næstum því með þá upphæð á mér!
Ívar Örn Indriðason says
Í fyrsta lagi er leiðinlegt að missa þennan leikmann út, en að fá bara fimm kúlur fyrir hann er hrikalegt. Ef maður nú bara vissi almennilega hvað Ferguson er að hugsa. Það getur ekki verið að það hann losi sig við Berbatov bara vegna þess að hann vilji „auka hraðann í liðinu“, ekki þegar maðurinn er svona markheppinn.
Egill Óskarsson says
Það er ekkert skrýtið að Berba hafi farið á fimm milljónir. Aldurinn, það að maðurinn er á síðasta ári á samning, það að allir vissu að Fergie vildi losa sig við hann og síðast en ekki síst væntanlegur launakostnaður útskýra það nokkuð vel.
Enda sáum við það að í stað þess að lið kepptust við að fá hann til sín þá varð þessi verðmiði til þess að menn hikðu.
Það er leiðinlegt að Berba sé farinn en listamenn þurfa að fá að tjá sig. Það gerir Berbatov inni á vellinum, ekki á bekknum. Þannig að ég held að þetta hafi verið farsælt fyrir alla þegar upp er staðið.
Pétur Orri says
Ótrúlega fallegt! Maður táraðist liggur við!