Loksins er runninn upp stundin sem við höfum beðið eftir frá því að skelfilegri riðlakeppni Meistaradeildarinnar lauk í fyrra. Þrátt fyrir að vera í þokkalega léttum riðli tókst okkur ekki að vinna nema tvo leiki og lentum í þriðja sæti eftir tap gegn Basel í síðasta leik. Skuldinni má að hluta skella á meiðsli en einnig er ljóst að Sir Alex tók allt of létt á keppninni og ætlaði að vinna þetta með vinstri, hvíldi leikmenn of mikið og því sem fór.
Það hefur verið alveg ljóst síðan þá að ekki á að gera sömu mistök í ár. Enn eitt árið fáum við alveg fínan drátt, við mikinn fögnuð samsæriskenningasmiða og enn verðum við að segja að United á hiklaust að komast upp úr riðlinum og gera má kröfu um að vinna hann. Eitt sem skaut mönnum skelk í bringu þegar deildarleikjaplanið kom var að við áttum útileiki við Liverpool, Newcastle, Chelsea og Manchester City helgina á eftir Meistaradeildarleikjum. Drátturinn varð okkur síðan það hagstæður að það er aðeins Newcastle leikurinn sem fylgir í kjölfar útileiks og því ekki ferðalögin til að þreyta okkur.
Fyrsti leikurinn í Meistaradeild Evrópu er sem sagt á morgun þegar Galatasaray AŞ kemur í heimsókn á Old Trafford í þriðja skipti. Fyrir þá stuðningsmenn United sem komnir eru um og yfir þrítugt fylgja þessu nafni slæmar minningar. Haustið 1993 fékk Manchester United loksins tækifæri til að reyna sig í Evrópukeppni meistaraliða í 24 ár og reyndar var það annað árið sem keppnin bar hinn nýja titil ‘Meistaradeild Evrópu’. Honved var sigrað í fyrstu umferð og síðan beið Galatasaray. Það sem menn héldu yrði auðvelt varð það síður en svo. Í fyrri leiknum rétt náðu United 3-3 jafntefli með jöfnunarmarki Eric Cantona á 80. mínútu eftir að United hafði komist í 2-0 eftir kortér.
Í geðveiku andrúmslofti á gamla Ali Sami Yen vellinum náði Galatasaray síðan að halda 0-0 jafntefli í seinni leiknum, leik sem við fjöllun nánar um í upphitun fyrir útileikinn. United féll þannig úr keppni við mikil vonbrigði.
Árið eftir mættust liðin aftur, nú í riðlakeppni. Fyrri leiknum í Istanbúl lauk sem fyrr 0-0 en í seinni leiknum voru möguleikar United að komast áfram úti og nokkrir ungir leikmenn fengu tækifæri og United vann 4-0. Enginn man nú eftir Simon Davies sem sem skoraði fyrsta markið, en einhverjir muna eftir öðrum pilti sem skoraði sitt fyrsta United mark, David Beckham.
Og eins fjarstæðukennt og það hljómar um leiki fyrir 18 og 19 árum síðan var þessi 4-0 leikur sá eini sem Ryan Giggs missti af af þessum fjórum. Knattspyrnulegt langlífi hans hættir aldrei að verða ótrúlegt.
En nú eru Galatasaray, eða Galata höllin, aftur komnir í heimsókn sem Tyrklandsmeistarar.
Þeir hafa byrjað vel í deildinni í vetur, unnið þrjá leiki og gert eitt jafntefli og unnu leik sinn um helgina 4-0 eins og við og ættu því að koma fullir sjálfstrausts í leikinn. Í liðinu er þó nokkrir leikmenn sem víðhorfðir knattspyrnuáhugamenn kannast við. Markvörður er Fernando Muslera, landsliðsmarkvörður Úrúgvæa, toppkeeper þar á ferð. í vörninni er Emmanuel Eboué, á miðjunni Hamit Altıntop kominn til Tyrklands eftir næsta árangurslaust tímabil hjá Real Madrid og Brasilíumaðurinn Felipe Melo og frammi þeir Johan Elmander og Milan Baros. Baros hefur ekki leikið í vetur, Elmander hefur skorað 2 mörk, en það hefur líka Tyrkinn Burak Yılmaz. Markaskorarinn hjá Galatasaray virðst þó vera Umut Bulut, 29 ára leikmaður sem hefur lítið farið utan Tyrklands nema hvað á síðasta tímabili fór hann til Toulouse í Frakklandi. Hann er nú á láni hjá Galatasaray. Annar fyrrum púlari, og reyndar fyrrum City maður lika er hjá Galatasaray, en ólíklegt er að Albert Riera byrji leikinn.
Þjálfari Galatasaray er gamla brýnið Fatih Terim, sem hefur komið víða við, var þjálfari Galatasaray áður en hann varð þjálfari Tyrklands þegar þeir komust í fyrsta skipti á EM ’96, tók síðan við Fiorentina og AC Milan og er nú aftur kominn til Galatasaray.
Þessir leikmenn og þjálfari sýna að engin ástæða er til að vanmeta Galatasaray, en engu að síður á United að vinna þennan leik
Sem fyrr segir hefur Fergie staðhæft að í þetta sinn verði engir sénsar teknir. Þrátt fyrir að leikurinn um næstu helgi sé eilítið mikilvægur… svo ekki sé dýpra í árina tekið… þá ætla ég að spá sterku liði.
De Gea
Rafael Vidic Evans Evra
Cleverley Carrick
Valencia Kagawa Nani
Van Persie
Menn hafa túlkað Fergie á blaðamannafundinum sem svo að De Gea verði í marki og ég fagna því. Kagawa og Van Persie eru heilir og spila örugglega en Young er víst ekki góður og því er Nani á kantinum. Ég ætla að gerast svo djarfur að spá því að Rio Ferdinand hvíli fyrir Liverpool leikinn og Jonny Evans komi í staðinn til að fá leik eftir meiðslin.
Þetta er lið sem á að vinna leikinn, 2-0.
ásgeir says
væri gaman að sjá buttner inná eftir snildarframmistöðu í síðasta leik.. bíða með evra þangað til í liverpool leiknum ;) en annars sammála með uppstillinguna
Narfi Jónsson says
Ég geri ráð fyrir að United mæti að fullum krafti frá byrjun og tryggi stigin þrjú í fyrri hálfleik. Sá seinni verður daufari og menn gætu misst inn eins og eitt mark. 3-1 lokatölur.
ellioman says
Held það verði ekkert rugl á okkar mönnum í kvöld. Skora böns og koma aðalmönnunum á bekkinn sem fyrst til að hvíla fyrir Liverpool leikinn. Sammála þessu byrjunarliði en ef allt gengur upp þá sé ég fyrir mér að gæjar eins og Welbeck, Chicharito og Powell komi inn í seinni hálfleik.
Egill Guðjohnsen says
Ég vill sjá 2 frammi í þessum leik en þetta verður alls ekki auðveldur leikur og það á bara að einbeita sér á þessum leik í kvöld annars er ég sammála byrjunaliðinu
Pillinn says
Held að kannski verði Welbeck inná frekar en Nani, hann er duglegri en Nani. En annars held ég að þetta verði liðið. De Gea sem betur fer kominn aftur í markið. Finnst alltaf að hann eigi að vera númer 1. Ekkert rótera markmönnunum. Það hefur ekki gefið góða raun og það er ástæða fyrir því að öll lið í heiminum eru með einn aðalmarkmann.
DMS says
Væri flott að fá linka á live strauma af leiknum þegar nær dregur.
Annars vil ég sjá okkur sigra þennan leik örugglega, sérstaklega í ljós ummæla Nuri Sahin hjá Liverpool. Byrjar á því að segja að United muni lenda í öðru sæti á eftir Galatasaray og talar í dag um að Liverpool sé stærsta lið Englands.
Byrjum á því að sigra Galatasaray og tökum svo Liverpool um helgina…