Það verður vonandi reglulegur viðburður hér fyrir stórleiki að fá stuðningsmann mótherjanna til að segja okkur aðeins frá liðinu sínu frá sínum sjónarhóli svo við getum aðeins kynnst þeim betur. Stórleikirnir gerast ekki stærri en leikurinn á sunnudaginn og það er við hæfi að fá fótboltabloggara sem er hokinn af reynslu sem fyrsta gest okkar hér.
Við bjóðum velkominn í heimsókn Kristján Atla Ragnarsson frá kop.is
Hvernig er almennt álit Liverpool stuðningsmanna á Brendan Rodgers?
Er hann rétti maðurinn í starfið?
Það er of snemmt að segja. Mönnum líst almennt mjög vel á hann; Swansea spiluðu flottan bolta á síðustu leiktíð og hann hefur sagt allt það rétta síðan hann tók við Liverpool. Hann kemur mjög vel fyrir. Hins vegar var sumarglugginn hálfgert klúður og það er erfitt að fylkja sér á bak við knattspyrnustjóra sem segir allt það rétta þegar hann hefur ekki unnið leik í fyrstu fjórum umferðunum. Ég skal svara þér um jólin.
Hvað þyrfti Liverpool að gera til þess að þú yrðir ánægður með þetta tímabil?
Hvar endar Liverpool í deild?
Mín von í upphafi tímabils var að liðið myndi bæta sig frá síðustu leiktíð og berjast um Meistaradeildarsæti. Hins vegar er leikmannahópurinn svo þunnskipaður að það þurfa nánast allir aðalliðsmenn að spila framar vonum og enginn þeirra má meiðast til að þær vonir standist. Og miðað við byrjun tímabilsins og þá ömurlegu staðreynd að Lucas Leiva sé þegar búinn að meiðast í 2-3 mánuði er ég nánast þegar búinn að gefa upp vonina. Í dag kæmi mér þægilega á óvart ef liðið næði Evrópusæti.
Hverjir verða meistarar?
Manchester City stigu stóra skrefið á síðustu leiktíð og verða illviðráðanlegir í vetur. United hafa reynsluna og Chelsea virka feykisterkir í upphafi móts en ég held að breiddin hjá City segi sitt. Ég verð hissa ef þeir verja ekki titilinn í ár, þótt ég búist við að Chelsea og United muni pressa þá alla leið að venju.
Hverjir eru mikilvægustu leikmenn Liverpool?
Lucas Leiva og Luis Suarez. Ef sá fyrrnefndi er ekki með stórsér á allri spilamennsku liðsins og ef sá síðarnefndi skorar ekki mörkin í vetur gerir það enginn. Í alvöru, hafið þið séð sóknarlínuna okkar? Suarez er helmingurinn af henni og hinn helmingurinn er að spila fyrir West Ham.
Hver er helsti veikleiki Liverpool-liðsins?
Sóknin, aftur. Ef Suarez skorar ekki mörkin gerir það enginn. Liðið skoraði aðeins 47 mörk í deildinni á síðustu leiktíð og veikti sóknarlínuna frekar en að styrkja hana í sumar. Lið sem skora ekki mörk ná ekki árangri.
Hvað þurfa leikmenn Liverpool að hafa mest í huga er þegar þeir mæta United?
Hvar er United hættulegast?
Robin Van Persie er augljóst svar, hann er heitasti framherji heims utan Spánar í dag og hann kálaði Liverpool á Anfield með ótrúlegri tvennu á síðustu leiktíð. Hins vegar er ég einnig logandi hræddur við Shinji Kagawa. Ég fylgdist vel með honum hjá Dortmund sl. tvö ár og miðað við hvernig Santi Cazorla fór með vörn Liverpool fyrir rúmum tveimur vikum ætti Kagawa að geta leikið sama leik ef hann fær tækifæri til. Liverpool verður að þagga niður í þessum tveimur til að eiga séns.
Hvaða veikleika telur þú United hafa sem Liverpool gæti nýtt sér?
Ég myndi segja að vörn United sé ekki sú sterkasta sem þeir hafa átt en þar mætir veikileiki United, vörnin, veikleika Liverpool, sókninni. Hins vegar hefur United annan veikleika sem aðdáandi United ræddi í podcast-þætti TheAnfieldWrap.com sl. mánudag, þ.e. að United virðist hafa nálgast Anfield af ákveðinni hræðslu síðustu ár. United virðist spila þessa leiki upp á jafntefli í stað þess að ráðast á Liverpool og ef þeir gera það núna eru þeir að bjóða hættunni heim. United er með sterkara liðið í dag og ég vona því að þeir sýni áfram sömu varkárni og undanfarin ár. Ef þeir ráðast að Liverpool eru mínir menn í vandræðum.
Ef þú gætir fengið einn leikmann frá United til Liverpool, hvern myndir þú velja?
Robin Van Persie. MÖRK ÓSKAST!
Hvernig myndir þú stilla Liverpool-liðinu upp fyrir leikinn?
Sterkasta lið Liverpool er nokkuð sjálfvalið þessa dagana og ég sé lítið sem breytir því, sérstaklega á meðan Lucas er meiddur. Pepe Reina verður í markinu, Johnson, Skrtel, Agger og Enrique verða í vörn, Allen, Gerrard og annað hvort Sahin eða Shelvey á miðjunni og Suarez, Borini og hinn ungi Sterling verða frammi. Ég vona að Nuri Sahin verði klár í þennan leik og ég vona að Rodgers hætti að prófa Glen Johnson í vinstri bakverði á kostnað Jose Enrique.
Hverju eiga United menn helst að taka eftir í leik Liverpool? Hvaða leikmanni/taktík?
Joe Allen. Hann er að spila langbest af okkar mönnum enda sá sem fylgdi Rodgers yfir frá Swansea og þekkir spilamennsku hans best. Aðrir leikmenn eiga í vandræðum í upphafi tímabils með að aðlagast nýjum leikstíl og Allen hefur staðið höfuð og herðar yfir aðra leikmenn liðsins hingað til, þrátt fyrir smæð. Auðvitað má líka benda mönnum á að fylgjast með hinum 17 ára Raheem Sterling sem hefur reynt fleiri „einvígi“ (þ.e. að sóla andstæðing) en nokkur annar leikmaður í deildinni hingað til.
Þín spá fyrir leikinn?
Suarez og Evra takast ekki í hendur og allt verður vitlaust … utan vallar. Eða þá að Evra verður á bekknum og Buttner í byrjunarliðinu. Get ég pantað það, plís? Allavega, leikurinn endar í jafntefli sem hentar báðum liðum ágætlega vel.
Hver er uppáhaldsleikur Liverpool og United sem þú hefur séð?
Ég hef þrisvar sinnum séð leiki þessara liða á Anfield og United hefur unnið þá alla. Ég hef svarið þess eið að fara aldrei, aldrei, aldrei aftur á leiki við United og ég mun fara í gröfina pirraður yfir John O’Shea-markinu vorið 2007. Hins vegar fór 1-4 sigurinn 2009 langt með að bæta mér þessa þrjá leiki upp. Það er og verður uppáhalds leikurinn minn um ókomna tíð grunar mig, enda ekki oft sem Liverpool vinnur svo stóran sigur á Old Trafford. ANDREA DOSSENA!
Nú erum við hér uppi á Íslandi ekki eins beintengdir í óvildina milli stuðningsmanna úti, en finnst þér aukin illindi milli stuðningsmanna síðasta tímabil hafa skilað sér upp á skerið?
Já. Því miður. Ég á nokkra bestu vini sem halda með United og það hefur verið þögult samkomulag okkar á milli að ræða Suarez/Evra-málið aldrei. Það þýðir bara ekkert. Hafi verið rígur þarna á milli í mörg ár er þar núna bara tilefni til rifrildis því Suarez og Evra bera nánast alltaf á góma og þá fer fólk að rífast. Ég veit ekki hversu langan tíma það tekur að hætta að rífast yfir þeirra máli, sennilega róast það ekki aftur fyrr en þeir eru báðir hættir að spila með sínum liðum. Þannig að ef þið væruð til í að selja Evra strax í janúar væri það vel þegið og myndi strax byrja að græða sárin :-)
Við þökkum Kristjáni Atla kærlega fyrir og vonum að þið hafið haft gaman af þessari innsýn í hugarheim Liverpool manna.
Halldór Marteinsson says
Frábær hugmynd, mjög flott viðbót við síðuna að fá inn þessi mótherjaviðtöl. Viðeigandi að byrja fyrir þennan leik og skemmtilegt viðtal. Góð byrjun á helginni, takk. :)
Nesi Cool says
Það er alveg rétt að við höfum verið að spila upp á jafntefli síðustu ár á Anfield höfum ekki unnið þar síðan Tevez skoraði 0-1 árið 2007 eða 2008. Þó svo það gæti kostað okkur leikinn þá held ég að það væri allavegana meiri líkur á að við myndum sigra heldur en tapa.
Kristján Atli says
Ég þakka Birni fyrir að hugsa til mín, og óska ykkur United-mönnum til hamingju með þessa vefsíðu. Kop.is er orðin átta ára gömul og þegar við stofnuðum hana vorum við vissir um að það myndu ekki líða margar vikur áður en United-síða sprytti upp í kjölfarið. Það tók tíma en þessi síða er glæsileg og ég vona að þið skemmtið ykkur jafnvel hér á heimavelli og við Púllararnir gerum á Kop.is.
Einnig skal tekið fram að ég spáði byrjunarliði Liverpool áður en Jose Enrique skeit upp á bak gegn Young Boys í gærkvöldi. Eftir leikinn í gær er ekki séns í helvíti að hann fái að byrja á sunnudag. Glen Jonson verður í vinstri bakverði og Martin Kelly í hægri.
Guðmundur says
Vá, þetta er algjör snilld:) gaman að lesa þetta:D
en ég set ? við eitt atriði..
Hvernig er jafntefli í þessum leik gott fyrir unted ef t.d. Chelsea vinnur stoke..
og hvernig er jafntefli gott fyrir liverpool, ef liðin sem eru fyrir neðan vinna sína leiki.. :/
En burt séð frá því, algjör snilld:)
Ingi Rúnar says
Tetta er skemmtilegt, fá svona vidtol fyrir allavega „stóru“ leikina. Sammála honum í tví ad ef United rádast á tá grimmilega allan leikinn tá eru Liverpool í vandrædum, teir eru svoldid vængbrotnir núna og gott tækifæri til ad rúlla yfir tá, ég hef t.d ekki miklar áhyggjur af tessum leik. En tetta er Liverpool vs United, madur veit aldrei….
KristjánS says
Frábært framtak þessi síða! Algjör snilld og með fyrstu stoppum á netrúntinum hjá manni núna.
Varðandi leikinn á sunnudag þá er ég smeykur fyrir hönd okkar manna. Hef tilfinningu fyrir því að Liverpool rífi sig upp og vinni sannfærandi sigur ásamt því að okkar menn misnoti vítaspyrnu, hvað annað… Vonandi reynist ég ekki sannspár!
Finnst Kristján Atli hitta naglann á höfuðið varðandi það þegar hann minnist á það hvernig Man Utd nálgist leiki sína við Liverpool á Anfield. Er algjörlega sammála þessu, finnst einmitt Man Utd hafa mætt hræddir á Anfield undanfarin ár og að liðið sætti sig við jafntefli.
Vona svo að þetta Evra/Suarez/handaband fyrir leik/sagan endalausa verði ekki það sem menn ræði eftir leik.
Narfi Jónsson says
Skemmtilegt viðtal, setur vonandi tóninn hvað varðar samskipti mótherja á þessari síðu. Ég ætla rétt að vona að United hætti að valda vonbrigðum og spili almennilega frá fyrstu mínútu. Ég held það sé bara til bóta að Rooney verði ekki með, hann hefur einhvern veginn ekki fúnkerað gegn Liverpool í gegnum tíðina.
Binni says
Heyr Heyr.
Gaman að fá að heyra sjónarmið Kristjáns Atla, greinilega alvöru stuðningsmaður með réttan móral í gangi …. meira af þessu takk :)
Tryggvi Páll says
Sir Alex skrifaði þetta bréf sem hver stuðningsmaður United sem mætir á Anfield mun fá. Flott framtak hjá kallinum og sýnir eindreginn stuðninr hans við aðstandendur fórnarlamba Hillsborough-slyssins og aðstandur þeirra sem og Liverpool.
http://www.manutd.com/~/media/Files/PDF/Sir_Alex_Liverpool_Letter_201213.ashx
KristjánS says
Flott hugmynd hjá Fowler:
http://fotbolti.net/fullStory.php?id=133717
Sigurjón says
Sælir
Legg ekki í vana minn að taka þátt í svona umræðum, en vil gera það núna. Það að taka aðalmann andstæðinga í viðtal er frábært framtak. Við eigum það allir sameiginlegt að halda með fótboltaliði, og elskum liðið okkar. Það er heila málið. Allt annað, svo sem rígur eða fjandskapur vegna þess að menn halda með öðru liði er bara rugl.
Ég er einn af þeim sem hef haft gaman af kop.is og lesið síðuna, ekki endilega útaf Þórðargleðinni einni saman, oft hefur maður verið að lesa hana þar sem leikgreining manna þar er flott. Hef dáðst af Liverpool mönnum fyrir síðuna. Helst galli umræðunnar þar er oft einmitt sá að óþroskaðir einstaklingar, sem halda með öðrum liðum reyna að skemma hana. Það kannski sýnir okkur að við þurfum að temja okkur meiri virðingu fyrir andstæðingum.
Síðuhaldara frá hól frá mér fyrir þetta. Þetta er til fyrirmyndar.
Kristján fær sérstakt hól fyrir að taka þátt í þessu. Virðing til þín.
DMS says
Frábært framtak og gaman að þessum nýja lið á síðunni. Þetta er eitthvað sem síður eins og Therebuplikofmancunia.com hafa gert reglulega, að fá stuðningsmann andstæðinga í viðtal.
Hvað varðar leikinn þá er ég ekkert alltof bjartsýnn. Við erum mun sterkari á pappírunum en sagan segir okkur að við höfum átt í erfiðleikum á Anfield og sama hvernig gengi Liverpool er þá mæta þeir alltaf extra mótiveraðir í þennan leik. Örugglega enn meira núna út af þessum fregnum með Hillsborough slysið og öllu umtalinu sem því hefur fylgt. Ég væri ánægður með jafntefli en mikið væri ég nú til í það svona einu sinni að við myndum spila upp á sigur og mæta þeim af hörku. Eins og Kristján segir réttilega, þá yrðu hans menn í vandræðum.
Egill Óskarsson says
Ánægður með þetta framtak, sérstaklega í samhengi við þær vonir manna að stuðningsmenn beggja liða haldi sér á mottunni á sunnudaginn.