Newcastle mætti á Old Trafford í kvöld í þriðju umferð deildarbikarsins og unnu okkar menn mjög fínan 2-1 sigur. Miklar vangaveltur fóru fram á meðal stuðningsmanna United hvernig Ferguson myndi stilla upp liðinu í kvöld enda meira og minna öll vörnin frá vegna meiðsla. Ferguson kom mönnum svolítið með því að stilla upp nánast óreyndri vörn. Liðið leit svona út:
De Gea
Vermijl Wootton Keane Büttner
Anderson Fletcher(c) Cleverley
Rooney Hernandez Welbeck
Bekkur: Johnstone, Lingard, Tunnicliffe, Brady, Evans, Powell
Af varnarmönnunum í kvöld höfðu aðeins Michael Keane og Alexander Büttner spilað leik fyrir félagið, hvor um sig spilað einn leik. Marnik Verjmil og Scott Wootton spiluðu sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið í kvöld og því stóð heildarleikjatala varnarmannana fyrir leikinn í kvöld í 2!
Við réðum alveg ferðinni í fyrri hálfleik. Miðjan var mjög sterk hjá okkur og áttu Tiote og félagar lítið í Fletcher, Anderson og Cleverley. Vörnin hélt vel og glímdi vel við flest það sem Newcastle lét reyna á hana. Sóknarlega var Hernandez sprækur og ógnandi en það voru miðjumennirnir okkar sem ógnuðu mest. Snemma leiks átti Anderson gott hlaup inní teiginn og komst í virkilega gott skotfæri en Rob Elliott varði mjög vel frá honum. Tom Cleverley klúðraði einnig algjöru dauðafæri eftir mjög vel útfærða sókn þar sem hann var einn á móti Elliott.
Það var hinsvegar Anderson sem opnaði markareikninginn sinn á tímabilinu með frábæru marki á 43. mínútu. Hann gerði vel undir pressu frá leikmanni Newcastle og smurði boltanum í stöngina og inn vel fyrir utan teig. Óverjandi og staðan 1-0 í hálfleik.
Newcastle-menn komu mun sprækari út í hálfleik og ógnuðu vel sem gerði varnarmenn okkar nokkuð óstyrka. Það var gegn gangi hálfleiksins sem Tom Cleverley skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið og fyrsta markið á tímabilinu fyrir framan Stretford End á 58. mínútu. United-menn komust í skyndisókn sem endaði með því að Cleverley setti boltann í hornið með fínu skoti rétt fyrir utan teig.
Alan Pardew svaraði með því að setja Shane Ferguson og Papiss Cissé inná á 61. mínútu og það tók þá félaga aðeins 65 sekúndur til þess að skapa mark saman. Shane Ferguson lék á Vermijl á kantinum og gaf frábæra sendingu fyrir þar sem Cissé var mættur til þess að skalla boltann í markið. Eftir markið sóttu Newcastle menn meira en okkar menn ógnuðu alltaf með skyndisóknum. Liðið datt alltaf meira og meira til baka enda hættan fyrir hendi að fá á sig jöfnunarmarkið. Liðið hélt þó út og lokastaðan 2-1 og við förum áfram í 4.umferð.
Þetta var ágætur leikur að okkar hálfu og góð liðsframmistaða. Miðjumenn okkar spiluðu mjög vel og spiluðu raunar nákvæmlega eins og maður hefur oft saknað frá miðjunni okkar. Cleverley og Anderson studdu mjög vel við framlínuna en voru einnig duglegir að pressa miðjumenn Newcastle sem gerði það að verkum að Darren Fletcher gat setið til baka og sópað upp af miðjunni. Það verndaði hina afar reynsulitlu varnarlínu okkar mjög vel en strákarnir í vörninni verða að fá hrós fyrir frammistöðu sína. Auðvitað gerðu þeir einhver mistök en heilt á litið geta þeir verið ánægðir með sig. Rooney stóð sig mjög vel í playmaker-hlutverkinu og Hernandez og Welbeck voru duglegir og ógnandi allan leikinn.
Það er erfitt að velja mann leiksins og ég er að spá í að skella því bara á miðjumennina okkar þrjá saman, Cleverley, Fletcher og Anderson. Þeir skoruðu mörkin og sáu um að vernda vörnina. Allir þrír voru hlaupandi allan leikinn enda sást það bara best á því hvað Anderson og Fletcher voru alveg búnir á því undir lok leiks enda kannski ekki í besta forminu.
Rétt í þessu var dregið í 4.umferð keppninnar og ljóst að við fáum stórleik umferðarinnar þar sem við drógumst gegn Chelsea á útivelli. Leikurinn verður væntanlega spilaður 31.október sem þýðir að við spilum tvo leiki í röð á Stamford Bridge þar sem við eigum að spila við þá í deildinni 28.október.
Björn Friðgeir says
Oooog við fáum Chelsea úti í næstu umferð. Helgina á undan er … Chelsea úti í deild, helgina á eftir Arsenal heima.
Held við getum reiknað með svipuðu liði! Sem ég bjóst ekki við eftir að ég sá dráttinn og áður en ég sá hvaða leikir eru á undan og eftir
ellioman says
Og samkvæmt physioroom.com þá verður Smalling mættur til baka en ekki Jones og Vidic.
Þetta verður spennandi. Trúi ekki öðru en að Chelsea hvíli leikmenn líka fyrir bikarkeppnina, verst ég hef ekki hugmynd um hvernig varaliðið hjá þeim lítur út.
Tryggvi Páll says
Það eina sem ég veit um varaliðið hjá Chelsea er að Paulo Ferreira er þeirra leikreyndasti leikmaður.
DMS says
Þetta var ágætis leikur. Það var gaman að sjá þessa ungu stráka í vörninni og kannski sniðugast hjá Ferguson að stilla þeim öllum upp saman. Þeir eru með reynslu að spila saman í varaliðinu og því kannski ekkert vitlaust að stilla M.Keane og Wootton saman upp í miðverðinum frekar en að para annan hvorn þeirra með Evans eða Rio.
Það er vonandi að Anderson og Cleverley haldi áfram að henda inn mörkum af miðjunni, við þurfum á því að halda. Bæði glæsileg mörk.
Það hefði verið skemmtilegra að fá heimaleik en þetta verður athyglisverður leikur gegn Chelsea. Ég býst við að Fergie muni stilla upp svipuðu liði, óreyndir leikmenn í bland við einhverja reyndari.
Var Rooney ekki eiginlega að spila sem miðjumaður í þessum leik? Hann var að detta mjög langt niður, en átti fínan fyrsta leik eftir meiðsli.
ellioman says
Nema þeir ákveði að nota Malouda eitthvað eftir að hafa skipað honum að æfa með U21 strákunum :)