Jæja, fyrsti sigur Tottenham á Old Trafford síðan 1989 staðreynd. Ekki alveg það sem ég bjóst við, reyndi að vera bjartsýnn á að United myndi koma ferskir til leiks og vinna frekar sannfærandi sigur. Hinsvegar voru það 45 mínútur af hörmulegum fótbolta Manchester United í fyrri hálfleik skóp sigur Tottenham í leiknum. Þrátt fyrir að halda alltaf í vonina var ég nánast búinn að sætta mig við tap í hálfleik, þú getur ekki gefið Tottenham tvö mörk með þessum hætti. Í seinni hálfleik spilaði liðið svo frábærlega og í lok leiksins er ég vonsvikinn að hafa ekki a.m.k. fengið eitt stig út úr leiknum. Dómar í óhag, skot í stöng og slá, nokkur dauðafæri, einn af þessum dögum býst ég við. Við skulum hinsvegar byrja á byrjuninni og skoða liðin.
Lið Manchester United:
Lindegaard
Rafael Evans Ferdinand Evra
Nani Scholes Carrick Giggs
Kagawa
Van Persie
Bekkur: De Gea, Anderson, Rooney, Hernandez, Welbeck, Cleverley, Wootton
Lið Tottenham:
Friedel
Walker Caulker Gallas Vertonghen
Sandro Dembele
Lennon Dempsey Bale
Defoe
Bekkur: Lloris, Dawson, Glen Mason, Huddlestone, Gylfi Sigurðsson, Falqué, Townsend
Leikurinn byrjaði vægast sagt hörmulega. Á 2 mínútu taka leikmenn Tottenham léttan þríhyrning rétt fyrir innan miðju á vallarhelmingi okkar, gjörsamlega galopna vörnina og Vertonghen nánast labbar inn í vítateig óáreittur, skýtur í átt að marki, að því virðist beint á markmann (eða í hægra hornið), boltinn breytir hinsvegar um stefni á Evans sem rennir sér fyrir skotið og smellur í markinu. Þetta var akkúrat það sem ég var hræddur við, að vörnin yrði úti á þekju. Rafael er mjög framarlega á vellinum þegar hann var tekinn í þríhyrning, svo er Ferdinand tekinn í bólinu þegar hann reyndi að hjálpa Rafael með sinn mann. Evans virtist ekki vera með á nótunum í að færa sig niður í stöðu Ferdinand og þar af leiðandi var galopin hraðbraut inn í vítateig fyrir Vertonghen og staðan 1-0. Skelfilegt.
Eftir markið komu 30 mínútur þar sem við sáum meira af því sem við höfum séð undanfarið hjá United. Halda boltanum sæmilega á fyrstu 2/3 hlutanum á vellinum, svo um leið og reynt er að færa boltann inn á síðasta 1/3 hlutann á vellinum þá gengur ekkert, sendingar voru afskaplega lélegar, annað hvort útaf vellinum eða beint í lappirnar á leikmönnum Tottenham. Vörnin lendir svo í vandræðum þegar sótt er hratt á þá, gengur illa að loka svæðum og hraði manna eins og Defoe og Lennon veldur verulegum vandræðum. Til dæmis á Evra ekkert í mann eins og Lennon þegar kemur að hraða og stundum þurfti Evra bara að taka hann niður áður en Lennon slapp framhjá.
Svo kom gott rothögg á 32 mínútu. United ógnaði aðeins að marki Tottenham í nokkrar mínútur, misstu svo boltann við vítateig Tottenham, Bale veður upp völlinn frá vinstri til hægri, Defoe kemur með „krosshlaup“ á vörnin sem Evans eltir. Bale ákveður auðvitað bara að halda áfram að hlaupa enda er Ferdinand að verjast og hann er ekki nærri því eins snöggur. Bale hleypur framhjá honum ansi auðveldlega og smellir boltanum niður í vinstra hornið fjær. Óverjandi fyrir Lindegaard og gjörsamlega óverjandi fyrir mann eins og Ferdinand sem er kannski með 60% af hraða Bale. Eins mikið og Ferdinand hefur gert fyrir okkur, þá er ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að hann hefur ekki lengur það sem til þarf til að elta alla þessa hröðu leikmenn sem eru í deildinni í dag. Hann er flottur á menn eins og Torres, en hraðara menn á hann í stórkostlegum vandræðum með.
Á 42 mínútur áttum við svo að fá víti þegar Nani var dreginn niður af Vertonghen. Ég reyni alltaf að horfa á svona hluti út frá því sem dómarinn sér, semsagt, í fyrstu tilraun á fullum hraða. Nani virtist henda sér aðeins og mikið í jörðina og þetta leit ekki út fyrir að vera víti. Í hægri endursýningu frá öðru sjónarhorni var greinilegt að klárt var um að ræða. Við höfum fengið dóma með okkur í vetur, við höfum heyrt nóg af væli um það, en það er aldrei talað um þá sem við fáum á móti, þeim er alltaf gleymt strax. Þetta jafnar sig alltaf út, ég hlusta ekki á eitthvað bull um annað.
Staðan í hálfleik 2-0 og það var verðskuldað. Ekki endilega vegna þess að Tottenham hafi eitthvað vaðið í opnum færum. Þeir áttu tvö skot á rammann og settu tvö mörk. Manchester United hinsvegar voru svo bitlausir að ég hef sjaldan séð annað eins. Áttu eitt skot í átt að marki allan fyrri hálfleikinn, það var hættulaust skot frá Nani sem Friedel varði. Nani var sá eini í liðinu sem reyndi eitthvað í fyrri hálfleik, tók menn á og reyndi fyrirgjafir, þær voru ekki alltaf frábærar en aðal vandamálið var hinsvegar að það var enginn til að taka við þeim. Svo virðist vera að þegar United er að spila með einn alvöru framherja þá er það yfirleitt eini maðurinn í boxinu þegar fyrirgjafir koma. Ef Nani gefur fyrir þá er Van Persie í boxinu á meðan Kagawa og Giggs eru að koma hlaupandi inn í boxið, en eru samt ekki mættir þegar þeir eiga að vera mættir. Ég er viss um að Ferguson hafi séð þetta fyrir sér öðruvísi, að menn væru að pressa framar á völlinn með 4 mönnum, en það er bara ekki að virka!
Í hálfleik kom Rooney inn fyrir Giggs, liðið færði sig í hið klassíska 4-4-2 kerfi þar sem Rooney var frammi með Van Persie og Kagawa færði sig á vinstri kanntinn. Það tók innan við eina mínútu að átta sig á því að leikmenn væru mættir til leiks mun ákveðnari, voru að halda boltanum betur fyrir utan vítateig Tottenham og leikmenn Spurs voru óöryggir í sínum varnaraðgerðum. Greinilegt að Ferguson hefur þanið raddböndin í hálfleik, ekki í fyrsta skipti á þessu tímabili.
Á 51 mín. fer eitthvað brjálæði í gang. Rooney fær boltann út á hægri kantinum, gefur fyrir þar sem Nani var mættur og skoraði. Glæsilegt gert, allt annað að sjá liðið, 3 menn mættir inn í boxið og það skilaði sér í marki. Mínútu seinna fær Bale sendingu inn fyrir vörnina, neglir að marki, Lindegaard ver boltann út í teig og þar er Dempsey mættur í frákastið og smellir boltanum í autt markið. Enn einn sofandahátturinn á vörninni, allir að horfa á boltann og enginn að tékka á sínum mönnum, þar af leiðandi var enginn klár í hreinsun þegar Lindegaard ver. Heilli mínútu eftir þetta sjokk skorar svo Kagawa eftir laglega sendingu inn fyrir vörnina frá Van Persie. Kagawa geri vel að taka við boltanum með bakið í markið, snúa sér í smella honum í fjær hornið framhjá Friedel. Staðan orðin 3-2 og nóg eftir af leiknum!
Á 58 mín féll svo Kagawa í teignum og vildi fá víti, ekkert á það þó, Walker fór fyrst í bolta. Sem betur fer fyrir hann því Kagawa var í dauðafæri og greinilegt að menn voru ákveðnir að jafna. á 61 mín átti Rooney fráááábæra aukaspyrnu sem smellur í stönginni. Hefði hæglega geta orðið 3-3 á þeim tímapunkti og áhorfendur á Old Trafford taka við sér. Van Persie skoraði svo mark á 63. mínútu en það var dæmt af vegna rangstöðu, réttur dómur en það var ekki mikill afgangur af þessu og manni fannst eins og jöfnunarmarkið lægi í loftinu. Nokkrum mínútum seinna var hendi á Santos í teignum, greinilega. Bolti í hönd eða hönd í bolta og allt það, getum rifist um það en maður hefur oft séð víti dæmt á svona en ekki að þessu sinni. Höldum því bara til að haga að dómurinn dæmdi ekki með okkur. Ok?
Van Persie fékk svo dauðafæri á 68 mín þegar hann fékk boltann á vinstri kantinum, var kominn einn á móti marki en setti hann töluvert framhjá. Klárlega færi sem hefði hentað réttfættum betur en Persie nýtir samt svona færi í 80% tilvika, en því miður var þetta eitt af þessum 20%. Gylfi kom svo inn á fyrir Tottenham á 70 mín, sem mér er reyndar persónulega nákvæmlega sama um, en það er best að halda þessu til haga fyrir þá sem fylgjast með Gylfa.
Man Utd héldu áfram að sækja og pressa síðustu mínúturnar. Það var allt annað að sjá liðið fremst á vellinum, til dæmis þegar sendingar komu inn í boxið þá væru alltaf tveir og stundum allt upp í fjórir leikmenn tilbúnir. Vörnin var ekki undir miklu álagi eftir að Tottenham skoruðu þriðja markið þar sem miðjan stóð sig vel að vinna bolta, sem betur fer því vörnin áttu afleitan dag, Rafael og Evra áttu þó ágæta spretti fram á við í seinni hálfleik. En það er greinilegt að ef menn eins og Scholes og Carrick drepa ekki niður sóknir andstæðinganna, þá er andskotinn laus.
Á 79 mín kom Welbeck inn á fyrir Kagawa. Ég var mjög hissa á þeirri skiptingu þar sem Kagawa hafði vaxið verulega í seinni hálfleiknum og var mjög beittur að þeim tímapunkti sem hann var tekinn útaf. Það kom ekki mikið út úr Welbeck eftir að hann kom inn á, ég myndi því segja að þessi skipting hafi verið mistök hjá Ferguson.
Carrick kom svo með skalla úr horni á 85 mín sem endaði í þverslá og svo átti Evra hörku skalla að marki mínútu síðar sem Friedel varði. Það var mikil pressa á Tottenham og ég trúði því statt og stöðugt að United myndi jafna áður en leikurinn væri úti, sérstaklega þegar 4 mínútum var bætt við. Á 92 mín var Hernandez hent inn á sem var allt of seint að mínu mati, af hverju til dæmis ekki að halda Kagawa inn á og setja Hernandez inn á þeim tímapunkti fyrir Carrick? Allavega, hann náði ekki að gera neitt á síðustu tveimur mínútum. Svo gall flautan eftir 94 mínútur og Tottenham vinnur fótboltaleik á Old Trafford, ég man ekki eftir síðast þegar það gerðist, enda var ég 6 ára.
United spilaði jafn vel í seinni hálfleik og þeir spiluðu illa í fyrri hálfleik. Það er orðið frekar þreytt að liðið spili bara 50% af leiknum á fullu gasi. Fyrri hálfleikirnir í vetur hafa verið hörmulegir og Ferguson endar á því að hjá hjartaáfall ef hann þarf að taka hárblásarann í hverjum hálfleik. Ég ætla þó að draga hann til ábyrgðar fyrir þetta tap (svona að mestu leiti), byrjunarliðið var ekki það sterkasta sem hann gat spilað. Ég nenni ekki að hlusta á rök þess efnis að Rooney og Van Persie geta ekki spilað saman, þeir geta það, þeir hreinlega eiga að gera það! Liðið er með hörku miðju og fáránlega góða framlínu, af hverju ekki bara að spila 4-4-2, það virðist vera að virka lang best? Gegn Southampton og núna gegn Tottenham er kerfinu breytt í 4-4-2 í hálfleik og það er allt annað að sjá liðið. Vörnin er hinsvegar alvöru áhyggjuefni. Evans og Ferdinand eru ekki að ná nægilega vel saman, síðan eru þeir, ásamt Evra, ekki beint þeir hröðustu í bransanum. Vissulega eru meiðslavandræði í gangi í vörninni, þá sérstaklega með Vidic sem maður saknar mest enda er hann þungamiðjan í vörninni. En það gengur ekki að það fari allt til andskotans þegar einn maður meiðist. Hvernig stendur svo á því að varnarmennirnir okkar eru svona oft meiddir? Það er búið að vera vandamál í nokkur ár núna. En ég held að það þurfi að fjárfesta í heimsklassa varnarmanni og hætta þessum endalausum pælingum um hver er næsti miðjumaðurinn sem Manchester United þarf að kaupa. Ég vil fá 25 ára gamlan Jaap Stam!
Maður leiksins? Ég er ekki alveg viss hver mér fannst bestur. Nani var bestur United manna í fyrri hálfleik og skoraði svo gott mark í þeim seinni. Rooney kom mjög sprækur inn og lífgaði upp á hlutina, sem og Kagawa sem rankaði við sér í þeim seinni. Scholes var hinsvegar bestur í seinni hálfleiknum og stjórnaði gjörsamlega öllu á miðjunni, vægast sagt frábær. Hann var vissulega ekki frábær í þeim fyrri, en gerði þó fá mistök. Líklega sá sem ég myndi kjósa.
Hvað segið þið annars?
Eggert Þorsteinsson says
Hræðileg frammistað :/ Verða að standa sig betur en þetta.
Aron says
Eins og Fergie sagði „we’re not great winners, we’re great losers because we always recover and improve after each defeat“. Vonum að það eigi enn við þessa dagana því deildin hefur örugglega aldrei verið eins erfið. GGMU
DMS says
Leikurinn tapaðist á ömurlegum fyrri hálfleik. Af hverju eigum við svona erfitt með að spila vel í 90. mínútur? Seinni hálfleikurinn var fínn af okkar hálfu, ekki fullkominn en mun betri en sá fyrri sem var skelfilegur. Einhvern veginn er ég viss um að formaður Tottenham klúbbsins væri froðufellandi núna ef dæminu hefði verið snúið varðandi peysutogið á Nani í fyrri hálfleik og hendina á Sandro innan vítateigs í síðari hálfleik. Þá hefðum við fengið að heyra sömu frasana um Old Trafford og dómarann.
En svona er boltinn, you win some you lose some. United geta engum nema sjálfum sér um kennt hvernig fór í þessum leik. Það gengur ekki að gefa gestunum bara 1 mark í forgjöf um leið og flautað er til leiks. Það þarf að taka til hendinni í þessum varnarleik, hann var skelfilegur.
Ég held að þessar róteringar með markverðina tvo séu ekki að hjálpa til, þó er ekki endilega neitt við Lindegaard að sakast. Við þurfum bara meiri stöðugleika og einbeitingu í varnarvinnuna og miðjumennirnir þurfa að hjálpa meira til. Dempsey fær að hlaupa einn inn í teig án þess að nokkur elti hann í þriðja markinu – skandall.
Í næsta leik vil ég sjá Rooney með Robin van Persie í framlínunni. Manni líður eiginlega eins og Ferguson viti hreinlega ekki alveg hvaða uppstillingu hann eigi að nota og hvernig hann eigi að stilla liðinu upp með hliðsjón af því að nýta sköpunargáfu Kagawa sem best.
Elías says
Ég held að Sirinn verði að fara að hvíla giggs því hann hefur að mér fundist engan vegin fundið sig í seinustu leikjum. Miðjan er alltaf alltof hæg og ég skil ekki afhverju cleverly eða anderson var ekki látinn byrja þennan leik eftir fínann leik á miðvikudaginn.
Frábært að sjá rooney koma svona sterkann inn eftir langa fjarveru og vonandi verður hann í fanta formi það sem eftir er. Virkar mikið hungraðari heldur en hann var í upphafi leiktíðan, enda örugglega ekki gaman að þurfa að horfa á persie standa sig vel af bekknum.
Hvað vörnina varðar þá er alveg við þessu að búast þegar meirihluti varnalínunnar liggur inná spítala og var ekki verið að tala um að ferdinand hefði bara verið hálfur maður vegna meiðsla. skil ekki hversvegna varnarmennirnir okkar meiðast hvað eftir annað. Ekki eins og þetta sé í fyrsta skiptið sem varnalínan liggur niðri.
En nú er það bara að girða sig í brók, bera höfuð hátt og vinna næsta leik!
Björn Friðgeir says
Þetta er eitthvað það magnaðasta sem maður hefur séð:
http://fourfourtwo.com/statszone/share.aspx?i=0dkh9
Tottenham átti 35 heppnaðar sendingar í seinni hálfleik. Hvernig væri nú að við spiluðum alltaf svoleiðis?
Stefan says
Scholes var klárlega besti maður Man Utd.
Persie og Rooney lögðu upp mörkin en seriously þurfa að nýta færin betur.
Svo var hrikalegt að sjá dauðafærin sem þeir fengu, hefði viljað sjá Rooney skora úr aukaspyrnunni en svona er þetta :/
Stefan says
Fyrir utan það hvað mér finnst við vera mikið hættulegri með þetta hraða tempo sem var notað í mörkunum tveimur og næstu 10min á eftir því.
Þetta slow tempo er alltof fyrirsjáanlegt og Tottenham höfðu öll ráð við því, hinsvegar færin milli 50 og 60 mínútu voru gerð með miklu hraðara spili sem skilaði sér og mér fannst Tottenham drulluheppnir að halda þessu í 3-2
Hjálmar says
Það einfaldlega þýðir ekki að spila leik eftir leik illa!! Maður hefur fylgst með United síðustu ár spila stóran hluta leikjanna illa og unnið, það gengur ekki til lengdar. Menn verða að keyra upp hraðann sem er fátítt þessa daganna nema liðið lendi í vandræðum.
Það virðist vera eitthvað í liðinu (leikskipulaginu eða í hópnum) sem er ekki að fúnkera, þ.e flæðið er oftast ekkert því miður.
Einnig hlítur það að vera áhyggjuefni, a.m.k ákveðin skömm, að tveir menn komnir langt á fertugsaldurinn og annar m.a hættur fyrir ári síðan skulu vera í byrjunarliðinu. Allavega fyrstu kostir á miðjuna. Vissulega hafa þeir reynsluna og allt það en ungir ættu að geta unnið það að mestu upp með hraða og snerpu. Þetta er í rauninni einnig beint til mótherja þar sem að t.d. Scholes gjörsamlega á miðjuna leik eftir leik!
Egill Óskarsson says
Fyrst ein vingjarnleg ábending varðandi smáatriði sem fer alltaf smá í taugarnar á mér. Mark van Persie var ekki dæmt af vegna rangSTÆÐU heldur rangstöðu. Maður er rangstæður en leikbrotið sjálft heitir rangstaða, ekki stæða :)
En að leiknum. Nokkur atriði:
– Mér finnst menn vera að hafa alltof miklar áhyggjur af þessari vörn. Það eina sem ég hef áhyggjur af varðandi hana eru þessi meiðslavandræði sem við horfum upp á ár eftir ár. SAF verður pirraður þegar hann er spurður út í þetta og svo segir hann á hverju ári að hann hafi aldrei upplifað annað eins meiðslaástand. En þegar við getum stillt upp þeirri varnarlínu sem við gerðum í dag þá eigum við ekki að þurfa að hafa áhyggjur. En á meðan að Carrick er sá eini af fjórum miðjumönnum sem einu sinni reynir að hjálpa til og skýla vörninni þá lenda varnarmennirnir okkar í vandræðum. Sérstaklega þegar liðið heldur boltanum jafn illa og í fyrri hálfleik í dag. Við höfum séð þetta aftur og aftur, liðið missir boltann á slæmum stað og fær á sig hraða sókn þar sem varnarmenn lenda í erfiðri stöðu. Þetta er jafn mikið, eða sennilega meira, vandamál útaf miðjunni en vörninni
– Fannst einhverjum Lindegaard standa sig vel í dag? Ég er algjörlega ósammála því sem segir í skýrslunni að skotið hjá Bale hafi verið óverjandi. Lindagaard hefði bæði getað staðsett sig betur og svo átti hann einfaldlega að gera miklu betri tilraun til að verja boltann. Í markinu hjá Dempsey slær hann svo boltann beint í hættusvæðið. Vissulega mjög fast skot en hvað sjáið þið De Gea oft gera þetta?
– Það er svakalegt ójafnvægi í liðinu þessa dagana. Það sést á því að það spilar í dag sennilega bæði sinn versta og sinn besta hálfleik á tímabilinu. Í einum og sama leiknum. Þetta hlýtur að vera mikið áhyggjuefni fyrir SAF.
– Nani átti loksins ágætan leik. Þegar allt útlit er fyrir að dagar hans hjá félaginu séu taldir.
Doddi says
Fergie er bara bùinn að missa tökin á þessu, òþolandi að liðið geti ekki spilað betur. Td af hverju ì andskotanum var Rooney á bekknum, veit hann ekki að Tott. er eitt sterkasta liðið ì deildinni! Ef að öll ùrslit Utd á tìmabilinu væru sanngjörn þá værum við fyrir neðan miðju og með 1 stig ì meistaradeildinni. Spái þvì að við fáum sömu vonbrigðin og á sìðasta tìmabili ì öllum deildum. Áfram Utd en Fergie farðu nù að hætta.
Sigurjón says
Algjörlega rétt hjá þér Egill varðandi málfræðina! Takk fyrir ábendinguna, þetta hefur verið leiðrétt.
Ég myndi seint segja að Lindagaard hafi staðið sig vel, en ég myndi ekki heldur segja að hann sé einhver sökudólgur. Hann getur ekkert gert í fyrsta markinu. Kannski að í markinu hjá Bale að menn eins og Neuer eða Casillas hefðu getað lokað betur á hann, veit það ekki, fyrir mér leit þetta út fyrir að vera bara mjög klassískt „maður-á-mann skot út við fjærstöng“. Höfum öll séð þúsund svoleiðis mörk í gegnum tíðina.
Varðandi þriðja markið þá finnst mér Lindagaard ekki heldur getað gert mikið í því, þetta var ansi fast skot hjá Bale, og það kom þvert á Lindagaard sem átti nóg með að stoppa skotið, hvað þá að stýra því nákvæmlega hvert boltinn færi eftir vörslu. Þetta var hinsvegar skólabókardæmi um hvenær varnarmenn eiga að fylgja sínum mönnum, vera staðsettir fyrir framan þá og þannig vera tilbúnir í að hreinsa lausa bolta.
Egill Óskarsson says
Sko, ég er alveg sammála því að varnarmennirnir eiga að fylgja inn í svona tilfellum og að skotið hafi verið mjög fast en ég held samt að hann hefði getað gert aðeins betur þar. En varðandi markið hjá Bale þá verð ég bara sannfærðari um að Lindegaard eigi að verja þetta skot. Fyrst hann velur að loka nærhorninu svona þá verður hann að vera viðbúinn því að skotið komi á fjær. Og þetta er annars vegar ekki nein negla og hins vegar er þetta ekki langt frá honum.
En ég er engan veginn að kenna Lindegaard um hvernig fór í dag. Sú sök finnst mér liggja hjá miðjunni og að hluta til því hvernig SAF lagði fyrri hálfleikinn upp.
MU says
Seinni hálfleikurinn var besti leikur okkar á tímabilinu. Ég er ánægðari með 0 stig með svona spilamennsku heldur en 3 stig og spilamennsku eins og á móti Liverpool. Fyrir þennan leist mér illa á tímabilið en eftir að sjá þá spila svona í seinni hálfleik, berjast um alla bolta og allir að spila vel. Rooney að spila sinn besta leik síðan ég veit ekki hvenær, Nani að spila fyrir liðið og Evans að sýna að hann og Vidic séu besta parið okkar aftast.
EDA says
Vælið í AVB fyrir leik virðist hafa skilað sínu enda fékk United ekkert méð sér í þessum leik. fengum á okkur 3 verðskulduð mör eftir fáránlegan varnarleik og okkur gekk illa að skapa okkur góð færi þótt Tottenham væri varla með í ca 75 mínútur af leiknum. En eitt truflar mig þó,
“ Nani var bestur United manna í fyrri hálfleik og skoraði svo gott mark í þeim seinni.“
á hvaða leik varst þú að horfa vinur? Hvað gerði Nani annað en að senda boltan til andstæðingsing og jú pota honum inn eftir góða fyrirgöf? Að hrósa Nani eftir þennan leik er álíka gáfulegt og að birta viðtalið eftir tottenham vælukjóann sem virðist vera undir áhrifum frá Kop.is.
MU says
Eins mikið og Nani getur farið í taugarnar á mér, þá átti hann einfaldlega góðann leik í gær. Hann var eini maðurinn sem skapaði hættu í fyrri hálfleik og átti svo góðan seinni hálfleik þar sem hann skoraði meðal annars mark sem breytti leiknum. Við áttum skilið að jafna og hefðum örugglega aldrei farið svona í gang ef hann hefði ekki skorað þetta mark. Rooney maður leiksins en Nani spilaði vel og sýndi að hann á enþá sæti í liðinu, Valencia fyrsti kostur á hægri og svo spurning með vinstri, fer eftir því hvað Young gerir þegar hann kemur til baka. Eins illa og mér er við Nani á slæmum dögum, þá eru fáir betri en hann á góðum dögum og við þurfum á „game changers“ að halda afþví mér sýnist við ekki hafa fleiri en Rooney og RVP sem átti ekki góðan dag.
Binni says
Klapp
Klapp
Klapp
Klapp..
…
nei bíddu nú aðeins…. vorum við ekkki að peppa hvorn annan upp ?
Ég meina … meiðsli koma upp…. það bara gerist…. þótt það sé ALLT tímabilið … þetta bara gerist.
Skipti engu þótt að varnarmennirnir hjá United geta ekki elt uppi leikmenn lengur…ég meina….gefum þeim séns… það eru sko meiðsli!
Þú veist… meiðsli geta komið upp…….. spilum samt gömlum gaurum…..what ever
…. þeir eru að harka þetta af sér…. með nokkrar milljónir á viku…. æ æ æ ….
…. vonandi harka þeir þetta af sér greyin …. tekur svo á að spila fótbolta !
Ingi Rúnar says
Skomm af tessari spilamennsku í fyrri hálfleik, og ekki erfitt ad stjórna midjunni í seinni tegar allt Tottenham lidid er í vorn. Teir geta bara sjálfum sér um kennt hvernig fór, trátt fyrir augljós víti t´ydir ekkert ad hengja sig á tau atridi. Sir Alex verdur bara ad fara ad taka hárblásarann fyrir leik núna, spila med 2 frammi og ekkert kjaftædi, og ef menn standa sig ekki tá senda tá beinnt í sturtu, vill líka fara ad sjá meira af ungu spilurunum okkar, Giggs hefur t.d ekki verid fugl né fiskur. Finnst einsog Sir Alex sé eitthvad smá áttaviltur tessa dagana………
DMS says
@Binni
Eru menn að mæta beint af djamminu í kommentakerfið? :)
Björn Friðgeir says
Jæja þá er maður búinn að sofa aðeins á þessu.
Það þarf ekkert að ræða það að fyrri hálfleikurinn var hörmung og það gerist ekki aftur að Giggs og Scholes byrji báðir leik.
Í seinni hálfleiknum var hins vegar allt annað upp á teningnum. Ég vil meina að það hafi ekki bara verið að Tottenham hafi dregið sig til baka, heldur líka að við hreinlega spiluðum eins og við getum best.
Við vitum það alveg að þessar hræringar í liðinu (fyrir utan markmannsstöðuna) eru ýmist til komnar vegna meiðsla eða vegna þess að Sir Alex veit manna best hvað þarf að gera til að halda liðinu fersku út veturinn.
Ég held að við eigum að horfa á seinni hálfleikinn sem boð um það hvað við getum vonast eftir að við getum gert best í vetur. Scholes verður auðvitað ekki svona dóminerandi oft, en stundum amk. Hins vegar verður að segjast að einn af veikleikum miðjunnar var að hann gat ekki komið hratt til baka ef nauðsyn krafði. Ég er að vona að Anderson finni oftar það sem hann fann á miðvikudaginn og spili sig inn í keppni um aðalstöðu í liðinu.
Þannig ég held að við horfum bara á björtu hliðarnar. Núna er það CFR Cluj á morgun (upphitun kemur seinni partinn, fyrir kvöldmat vonandi) og Newcastle um helgina og eftir það er landsliðshlé og svo ættu Smalling og Young að vera komnir til baka. Vonum bara enginn meiðist á næstunni.
ásgeir says
Er ekki kominn timi til að kaupa almennilegan miðvörð?sem er ekki meiðslapesi…vidic er að breytast í meiðslapesa,rio orðinn gamal.ágætur með vidic en hræðilegur án hans.jones altaf meiddur.jonny evans ekki nóu góður til þess að bera uppí vörnina ágætur með vidic….okkur sár vantar almennilegan miðvörð seigi ég…