Eftir vonbrigðin í síðustu viku þá var einstaklega ánægjulegt að sjá hvernig liðið byrjaði þennan leik. Menn voru einbeittir og ákveðnir í öllum sínum aðgerðum og heimamenn voru áhorfendur fyrstu 20 mínúturnar í þessum leik.
Robin van Persie talaði um það í vikunni að hann væri ánægður með að hafa verið duglegur að skora en vildi vera að leggja meira upp fyrir liðsfélaga sína. Það tók hann ekki nema 8 mínútur þegar hann átti hornspyrnu sem Jonny Evans stangaði í markið.
Danny Welbeck hefði getað skorað auðvelt mark eftir að hann rændi boltanum af Steven Harper en setti hann framhjá markinu á meðan Robin van Persie var dauðafrír með honum í teignum.
Það var svo á 15 mínútu að við fengum annað horn, Wayne Rooney tók þá spyrnu sem Patrice Evra af öllum mönnum skallaði í markið eftir að hafa unnið skallaeinvígi gegn Cisse.
Eftir þessa mögnuðu byrjun hjá gestunum þá fór aðeins að lifna yfir heimamönnum, og þeir sóttu stíft án þess þó að skora.
0-2 í hálfleik.
Newcastle byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og virtust staðráðnir í að komast aftur inn í leikinn. Þeir áttu stórhættulega sókn og de Gea þurfti að skófla boltanum af línunni, heimamenn vildu meina að boltinn hafi verið fyrir innan en í endursýningum virðist aðstoðardómarinn hafa haft rétt fyrir sér, boltann var ekki allur fyrir innan.
Á 55. mínútu kom Antonio Valencia inná fyrir Shinji Kagawa sem var á gulu spjaldi.
Skömmu seinna áttum við loksins almennilega sókn í seinni hálfleik þar sem Welbeck renndi boltanum út á Tom Cleverley sem hitti boltann illa og hann fór langt yfir markið.
Wayne Rooney áttu nokkrum mínútum síðar ágæta tilraun með vinstri sem Steve Harper átti ekki í neinum erfiðleikum með.
Það var svo á 71. mínútu að eitt af mörkum tímabilsins var skorað af Tom Cleverley, hann átti glæsilegt skot af vinstri kantinum sem Harper átti aldrei séns í.
Staðan 0-3 og úrslitin virtust ráðin.
Paul Scholes kom inná fyrir Wayne Rooney á 80. mínútu.
Robin van Persie sem var á gulu spjaldi virðist hafa sloppið við seinna gula spjaldið eftir viðskipti við Yohan Cabaye.
Eftir það var hann tekinn útaf á 87. mínútu og inn kom í hans stað Ryan Giggs.
Ekkert fleira markvert gerðist í þessum frábæra sigri á velli sem við töpuðum á síðasta tímabili með sömu markatölu.
Erfitt er að velja mann leiksins að þessu vegna þess að margir voru að spila vel. Myndi segja að menn leiksins hafi verið Wayne Rooney og Tom Cleverley ásamt vörninni allri.
Narfi Jónsson says
Rooney án efa maður leiksins, sóknar- og varnarvinna eins og hún gerist best hjá honum.
Tryggvi Páll says
Frábær sigur og góð frammistaða hjá liðinu í heild. Gaman að sjá liðið loksins koma inn í leik af krafti og kaffæra andstæðingin frá byrjun. Þetta skilaði sér í tveimur mörkum og þá er ekkert skrýtið að menn slaki aðeins á klónni og Newcastle komst alltaf meira inn í leikinn. Varnarlínan okkar var þó vandanum vaxin og stóð sig frábærlega í þessum leik. Það var augljóst að Evra og Rafael höfðu ekki jafn mikið frelsi til þess að sækja fram og áður. Iðulega beið annar þeirra þegar hinn fór fram. Rio og Evans stigu ekki feilspor. Cleverley átti einn af sínum bestu leikjum fyrir félagið og var allstaðar á vellinum að hjálpa til eða byggja upp. Hann kemur með mikla orku inn á miðsvæðið og augljóst að ef Ferguson ætlar að halda áfram að spila boltann sem hann er að láta liðið spila verður hann (eða Anderson) að byrja þessa leiki.
Rooney var auðvitað frábær í leiknum og mér fannst Welbeck sprækur en hann einfaldlega verður að fara nýta þessi færi sín. Hann fékk tvo afar góð færi í leiknum og framherjar hreinlega verða að bara að nýta slík færi. Í raun má segja að þegar hann pressaði Harper í markinu hjá Newcastle, vann boltann af honum og var fyrir opnu marki en hitti svo ekki rammann, hafi kostir og gallar Welbeck kristallast. Hann er duglegur, vinnur vel fyrir liðið og er ágætur að koma sér í góðar stöður en slakur í að nýta færin sín. Ég hef þó fulla trú á þessum strák og þetta er eitthvað sem hann mun vinna í. Þð er nú varla annað hægt að segja en að hann hafi leikmenn í kringum sig sem ættu að geta gefið honum nokkur góð ráð í þessum málum.
Einnig verður maður að hrósa Evra sérstaklega fyrir leik sinn í dag. Hann steig vart feilspor sóknarlega né varnarlega og skoraði gott mark til þess að toppa allt. Hann hefur verið virkilega slakur undanfarin 1-2 ár og þetta var hans besti leikur í langan tíma. Þetta var hans 300. leikur fyrir félagið frá því að hann kom til liðsins árið 2006. Það gera um 50 leiki að meðaltali á tímabili sem er auðvitað absúrd tala og örugglega ekki margir sem geta státað af svona tölfræði. Vonum að Evra byggi á þessari frammistöðu og finni sitt gamla form.
DMS says
Sammála því, mér fannst vinnslan í Rooney mjög góð bæði til baka og fram á við. Það er jákvætt að vörnin náði að halda hreinu gegn góðu sóknarliði sem Newcastle er. Hinsvegar var maður alltaf á nálum þegar háu boltarnir komu inn í teiginn. De Gea skortir allt sjálfstraust í þessum úthlaupum, það er alveg greinilegt. En það kemur vonandi með tímanum. Ég vil núna sjá Ferguson halda honum sem choice nr. 1, gefa honum fleiri leiki í röð og þá kemur þetta örugglega hjá honum.
Arnar Magnússon says
Frábær sigur og loksins að halda hreinu. Hvað er annars langt síðan að liðið skoraði tvö mörk eftir hornspyrnu?
siggi United maður says
Evra átti sinn langbesta leik í langan tíma í dag, geggjað. De Gea á að vera númer 1, alltaf. Við verðum þá bara að sætta okkur við að hann geri nokkur mistök í þessum krossum, gæjinn hefur aldrei þurft að díla við þá á Spáni. Þetta lagast með aldrinum. Rooney maður leiksins að mínu mati. Hefði samt viljað sjá liðið spila allan leikinn eins og fyrstu 25 mín, en maður getur svo sem alltaf beðið um meira. Gott að sjá Tony V koma aftur, virkaði þungur þó. En eitt skil ég ekki, og það eru skiptingarnar hjá SAF. Af hverju ekki að hleypa ungu gæjunum inn sem þurfa mínútur, í stað þess að setja gömlu kallana inn á? Anderson og Hernandes þurfa alveg að fá mínútur í hverjum leik, ef þeir eiga að þroskast og verða betri. Scholes og Giggs þurfa það ekki.
Tómas Freyr Kristjánsson says
Virkilega gaman að sjá þennan leik… Evra flottur sem og flestir leikmenn United.
Tryggvi Páll says
De Gea átti í gríðarlegum vandræðum með fyrirgjafir í þessum leik. Minnti mann á hvernig hann var þegar hann kom hérna fyrst. Mér fannst hann vera búinn að bæta sig mikið að þessu leyti á síðari hluta tímabilsins í fyrra og spurningin er hvort að hann hafi misst sjálfstraustið í að glíma við háu boltana þegar hann datt úr byrjunarliðinu eftir markið sem hann fékk á sig gegn Fulham?
Guðmundur says
ég veit það ekki alveg, það má samt ekki gleyma því að þetta eru svaka turnar þarna í þessari sóknarlínu hjá Newcastle sem er kannski ekkert grín að eiga við..:)
En ég fekk nokkrum sinnum í magann samt þegar það kom fyrirfgjöf:)