Eins og allir ættu að vita fer Manchester-borgarslagurinn fram á sunnudaginn. Í tilefni þess fór ég á bókasöfnin og skjalasöfnin og gróf upp nokkrar algjörlega tilgangslausar en jafnframt skemmtilegar staðreyndir svo menn geti nú aldeilis slegið um sig á barnum eða í stofunni heima og látið flæða úr viskubrunnum sínum. Upphitun fyrir leikinn sjálfan kemur svo inn á morgun.
- Manchester-borgarslagurinn er líklega næst elsti borgarslagurinn í Englandi. Liðin mættust árið 1881 en liðin spiluðu þá reyndar undir merkjum forvera sinna Newton Heath (United) og West Gordon St. Marks (City). Aðeins Birmingham-borgarslagurinn fór fyrr fram en þessi slagur. Newton Heath vann öruggan 3-0 sigur á heimavelli.
- Menn geta sagt ýmislegt um stjóratíð Ron Atkinson (1981-1986) hjá United en hann er hinsvegar aðeins einn af þremur stjórum United sem tapaði aldrei gegn City (2 sigrar, 5 jafntefli). Hinir eru þeir örlítið minna þekktu James West og Scott Duncan.
- Árangur Sir Alex Ferguson gegn City er eftirfarandi: 25 sigrar, 10 jafntefli, 10 töp en hann er jafnframt sá stjóri United sem hefur stjórnað liðinu í flestum borgarslögum eða 45. Matt Busby nartar í hælana á honum með 39 leiki.
- Ernest Mangnall er eini stjórinn sem hefur stýrt báðum Manchester-liðunum. Árið 1912 fór hann frá United til þess að taka við City. Síðasti leikurinn sem hann stýrði United áður en hann skipti um lið? United vs. City á Old Trafford! City vann.
- Nokkrir leikmenn liðanna hafa spilað í borgarslagnum sem leikmenn og síðar stýrt öðru liðinu sem knattspyrnustjórar. Þeir eru: Matt Busby, Wilf McGuinness, Les McDowall, Johnny Hart, Tony Book, Peter Reid, Joe Royle og Mark Hughes.
- Af þessum ágætu mönnum eru þeir Matt Busby og Mark Hughes einstakir að því leytinu að þeir tóku þátt í borgarslagnum sem leikmenn fyrir annað liðið en stýrðu hinu liðinu í slagnum seinna sem knattspyrnustjórar.
- Carlos Tevez og Owen Hargreaves eru síðustu leikmennirnir til þess að færa sig á milli City og United en fyrsti leikmaðurinn til þess að skipta um lið var Bob Milarvie. Það var árið 1891. Hann fór frá United sem þá hét Newton Heath til City sem þá kallaðist Ardwick.
- Sá mæti maður Billy Meredith á nokkuð skemmtilegt met. Hann er sá leikmaður sem hefur oftast farið á milli liðanna eða alls 5 sinnum. Tímabilið 1906/07 hófst húllumhæið er hann fór frá City til United. Í fyrri heimstyrjöldinni fór hann aftur til City, eftir stríð sneri hann aftur til United og árið 1921 endaði hann svo aftur hjá City.
- Fyrir þá sem muna eftir Terry Cooke er hann dýrasti leikmaðurinn sem farið hefur á milli liðanna. Árið 1999 borgaði City 1 milljón punda fyrir hann. Ég tel Carlos Tevez eðlilega ekki með hér þar sem United fékk auðvitað ekki krónu fyrir hann.
- Frægasti leikmaðurinn til þess að færa sig á milli þessara liða (Fyrir utan Tevez væntanlega) er Denis Law. Hann spilaði með United á árunum 1962-1973 og var hann mikil markavél fyrir United, skoraði alls 237 mörk fyrir félagið. Hann er í 2. sæti, aðeins 12 mörkum á eftir Bobby Charlton á listanum yfir þá leikmenn sem hafa skorað flest mörk fyrir United. Eftir farsælan feril hjá United fór hann á frjálsri sölu til City sumarið 1973. Law á líklega frægasta einstaka atvikið í leik á milli þessara liða.
- Í síðasta leik tímabilsins árið 1974 mættust erkifjendurnir. United var í bráðri hættu á að falla og þurfti nauðsynlega á sigri að halda. Leikar stóðu lengst af 0-0 þangað til að Denis Law skoraði eina mark leiksins á 84. mínútu með hælnum. Law var viss um að þetta mark myndi verða þess valdandi að United félli um deild og fagnaði því ekki markinu. Hann var í raun svo niðurbrotinn haldandi það að hann hafi sent sitt ástkæra lið niður að hann labbaði strax niðurlútur af velli og var skipt útaf. Aðdáendur United voru ekki beint sáttir og réðust inn á völlinn. og flauta varð leikinn af á 85. mínútu. Stjórn deildarinnar ákvað síðar að úrslitin 0-1 skyldu standa en Denis Law til huggunar skipti mark hans ekki máli, United hefði fallið hvort sem er.
- Alls hafa liðin mæst í 163 leikjum. Eins og við var að búast hefur United yfirhöndina. United hefur unnið 68 leiki en City 46. Liðin hafa alls skilið jöfn 50 sinnum.
- United hefur spilað 73 útileiki gegn City í deildinni á þremur völlum: Hyde Road, Maine Road, Etihad/City of Manchester Stadium. Af þessum 73 leikjum hefur United unnið 26, tapað 23 og gert 24 jafntefli. Frá því að City flutti á Etihad völlinn árið 2003 hefur United 4 sinnum staðið uppi sem sigurvegari en 4 sinnum þurft að sætta sig við tap og liðin hafa gert eitt jafntefli.
- Ef að Wayne Rooney skorar í leiknum á sunnudaginn getur hann jafnað Bobby Charlton sem markahæsti leikmaður United gegn City. Bobby Charlton skoraði 9, Wayne Rooney er með 8 mörk líkt og Eric Cantona.
- Ryan Giggs spilaði sinn fyrsta byrjunarliðsleik fyrir United gegn City. Það var fyrir 21 ári síðan eða 1991. Okkar maður skoraði að sjálfsögðu eina mark leiksins. Giggs er jafnframt sá leikmaður sem hefur oftast spilað í þessum borgarslag.
- Það er kominn tími á að United bæti met sitt fyrir stærsta útisigur á City. Þann 3. nóvember 1894 sigruðu okkar menn 2-5 á Hyde Road. Ég held að það muni allir eftir því hver sé stærsti útisigur City á United og því þarf ekkert að fara útí það hér.
- Vert er að benda á þetta yfirlit Daily Telegraph um stærstu leiki liðanna fram að árinu 2011
Björn R says
Eistaklega skemmtilegar staðreyndir,,,og skemmtileg síða, flott hjá ykkur :)
Eyþór says
Reyndar vann United 5-0 á móti city 1994, og city vann united 6-1
Tryggvi Páll says
Ég var að tala um stærsta sigur United á City á útivelli, ekki heimavelli enda fór 5-0 leikurinn árið 94 fram á Old Trafford.
Ívar Örn says
Mögnuð samantekt. Tek ofan fyrir þér að hafa lagt í þetta!
Friðrik says
Leikurinn er 9.des ekki á morgun eins og stendur í horninu uppi !
Björn Friðgeir says
Friðrik: Takk! Búinn að leiðrétta. Þurfti að leiðrétta tímann á honum um daginn og tók ekkert eftir að hann var á vitlausum degi!