Stærsti leikur tímabilsins til þessa fer fram á morgun þegar toppliðin tvö frá Manchester mætast í 164. Manchester-borgarslagnum. Fyrir leikinn situr United á toppnum með 36 stig. City fylgir fast á hæla okkar manna en eftir að hafa aðeins fatast flugið undanfarið er liðið með þremur stigum færra eða 33 stig. Það er athyglisvert að City hefur enn ekki tapað leik á tímabilinu í deildinni en Mancini og hans menn hafa hinsvegar verið að gera mörg jafntefli. Aðeins eru búnir 15 leikir af tímabilinu en samt hefur liðið nú þegar gert sex jafntefli. Það sama má hinsvegar ekki segja um Manchester United, liðið hefur ekki gert jafntefli í háa herrans tíð. Síðasta jafntefli kom í leiknum örlagaríka gegn Everton þann 22. apríl sl. (4-4) þar sem segja má að okkar menn hafi glutrað titlinum á síðustu leiktíð. United hefur hinsvegar tapað þremur leikjum í vetur en þessi algjöri skortur á jafnteflum er það sem skilur þessi lið að í töflunni.
Hvað um það, mig langar til þess að tala aðeins um síðustu viðureign þessara liða sem fór fram þann 30. apríl sl. á sama velli og leikurinn á morgun verður spilaður. Þá, líkt og nú, sat United á toppnum með 3 stiga forystu á City en með lakara markahlutfall. Leikar fóru 1-0 fyrir City í arfaslökum leik þar sem bæði lið spiluðu ekkert sérstaklega vel en þó var annað liðið áberandi lélegt: Okkar menn í United.
Þegar byrjunarliðið í þeim leik er skoðað er augljóst að Sir Alex ætlaði ekki að vinna leikinn, hann var að spila upp á jafntefli. Kíkjum aðeins á það:
De Gea
Jones Smalling Rio Evra
Nani Carrick Park Scholes Giggs
Rooney
Tiltölulega eðlileg vörn en það var á miðjunni sem hlutirnir urðu skrýtnir. Í staðinn fyrir að spila þeim leikmanni sem var að spila best allra leikmanna í deildinni, Antonio Valencia, spilaði Ferguson Giggs á kantinum. Á miðjunni voru Scholes og Carrick saman og það sem er líklega eitt allra undarlegasta liðsval á öllum stjóraferli Sir Alex Ferguson: Ji-Sung Park var holað á miðjuna til þess að hafa gætur á Yaya Touré. Ég hef mikið álit á Ji-Sung Park og er mjög þakklátur fyrir tímann sem hann var hjá United. Ég skil líka hver var grunnpælingin á bakvið þetta hjá Ferguson. Park er einstaklega duglegur leikmaður og hafði áður með góðum árangri núllað út leikmenn á borð við Fabregas og Pirlo með sínum einstaka aga og dugnaði. Í þetta skiptið hafði hans hinsvegar aðeins spilað örfáar mínútur á tímabilinu, var í engu leikformi og auk þess ekkert að mæta neinum aukvissa, Yaya Touré af öllum mönnum. Maðurinn er vél. Park er líka vél, en þarna var hann að mæta nýjasta módelinu á meðan Park hafði verið gleymt í geymslunni. Skemmst frá því að segja gekk þessi tilraun engan veginn upp, Yaya Touré lék lausum hala og Park réð ekki neitt við neitt og hljóp útum allan völl eins og hauslaus hæna. Giggs og Scholes dúettinn var einnig ekki að hjálpa til, þrátt fyrir að vera frábærir leikmenn er seint hægt að segja að þeir komi með mikla orku og kraft inn á miðjuna.
United átti aldrei breik í þessum leik, planið mistókst gjörsamlega og Park var skipt útaf eftir 58 mínútur fyrir Danny Welbeck og Ferguson neyddist til þess að viðurkenna að þetta útspil hans hafði brugðist frá A-Ö. City spilaði ekki vel en nógu vel til þess að pota inn marki. Marki sem á endanum skilaði þeim titlinum. Sá frábæri bloggari Michael Cox á Zonal Marking kom inn á þetta í gær á Twitter:
Yesterday I watched a bit of City 1-0 United from last season. I think United played worse than in the 1-6…
— Michael Cox (@Zonal_Marking) December 7, 2012
Þessu svaraði Doron Salomon sem ég mæli sterklega með að allir United-menn fylgi á Twitter:
https://twitter.com/DoronSalomon/status/277002230631124994
Þetta segir meira um þennan leik en allt annað sem hægt er að segja. Mesta niðurlæging í seinni tíma sögu United fól í sér skárri frammistöðu en leikurinn á Etihad í apríl. Þetta var virkilega það lélegt, líklega eitthvert allra lélegasta augnablik liðsins undir stjórn Sir Alex.
Hvert er ég að fara með þessari umfjöllun um leikinn í apríl? Jú, ég óttast það að Sir Alex spili upp á jafnteflið, ég óttast það að það muni ekki virka og að hann þurfi að skipta um leikáætlun þegar það er hreinlega orðið of seint. Ég er hræddur um að hann muni spila Phil Jones á miðjunni a la Park til þess að takast á við trölla-Touré. Ég er hræddur um að leikurinn frá því í apríl endurtaki sig.
Hverjir eru þá valkostir okkar? Blása til sóknar? Nei, varla þó það virðist vera það eina sem liðið getur gert með sæmilegum árangri um þessar mundir. Það sem ég vil sjá á morgun er eftirfarandi lið:
De Gea
Rafael Evans Rio Evra
Carrick Scholes Fletcher
Rooney
Van Persie Welbeck
Helst myndi ég vilja hafa þá Anderson og Cleverley þarna inná með Carrick og Valencia í liðinu en það er víst ekki að fara að gerast vegna þess að olíufurstarnir í City stjórna öllum lýsisbirgðum Manchester-borgar. Ég vil sjá Rooney vera mjög duglegan að hjálpa til á miðjunni og sjá þessa fjögurra manna miðju stífla miðjuna hjá City en leikmenn eins og Nasri og Silva spila mjög inn á miðjuna þótt þeim sé stillt upp á köntunum. Ég skil þá sem vilja hafa Jones á miðjunni þar sem Carrick/Scholes/Fletcher tríóið er kannski ekki það mest drífandi í heiminum en ég held það sé alltof mikið að biðja Jones um að spila á miðjunni í hlutverki sem hann þekkir kannski ekki of vel gegn Yaya Touré verandi nýkominn úr meiðslum. Ég vil ekki sjá aðra Park-tilraun eða neitt í líkindum við hana. Ég hef trú á að Rafael og Evra geti ráðið við bakverði City þegar þeir koma upp. Mér er svo sem sama hvort að Welbeck eða Chicharito byrji leikinn en ég myndi frekar vilja hafa Welbeck og eiga Chicharito inni á bekknum ef þess þarf. Þetta er kannski ekki mest spennandi byrjunarlið allra tíma en þetta er held ég það eina sem geti heft sóknarleik City, hjálpað vörninni okkar og á sama tíma boðið upp á möguleika sóknarlega fyrir okkar þannig að við sitjum ekki bara og bíðum og vonum að City skori ekki.
Jafntefli er ásættanleg niðurstaða fyrir okkar menn en ég vil samt ekki sjá okkar menn spila uppá jafntefli, kannski ákveðin þversögn í þessu hjá mér en ég vona að menn skilji hvert ég er að fara. Ef Ferguson ætlar að bjóða upp á einhverjar taktískar varnaræfingar muni það eingöngu skila okkur tapi, það er eitthvað sem er ekki í eðli hans né United en Ítalinn Roberto Mancini er vel versaður í. Ferguson verður að gefa varnarmönnum og miðjumönnum City eitthvað til þess að hugsa um og það er best gert að mínu mati með þessari uppstillingu.
Í sannleika sagt eru bæði lið nokkuð brothætt. United-liðið hefur verið að skora mikið af mörkum en ekkert verið að spila neitt sérstaklega vel. Liðið hefur lent undir í alls 15 skipti á tímabilinu sem er auðvitað ótrúleg tölfræði verandi á toppnum og hafandi auðveldlega komist áfram í Meistaradeildinni. Jafnframt hefur liðið hefur t.d. nú þegar fengið á sig 21 mark í 15 leikjum í deildinni en það er álíka mörg mörk og liðið fékk á sig í 38 leikjum tímabilin 07/08 (22) og 08/09 (24). City-liðið hefur vissulega ekki tapað leik en virðist þó ekki vera neitt sérstaklega sannfærandi eins og árangur þeirra í Meistaradeildinni sýnir. Þessi leikur er líklega alltaf að fara að vera varfærnislega spilaður og verður kannski ekki mikið fyrir augað. Síðustu sex leikir í deild á milli þessara liða á þessum velli hafa farið 0-1, 1-0, 0-1 0-1, 0-0 og 1-0!
Ég spái því að fyrsta sinn síðan 2007 brjóti menn hinn illkleyfa tveggja marka múr og leikurinn fari 1-1. Ég myndi spá 0-1 fyrir United en ég hef bara ekki eina einustu trú á því að liðið haldi hreinu miðað við undanfarna leiki. Vona auðvitað að ég hafi rangt fyrir mér og leikurinn verði bæði skemmtilegur og endi með United-sigri. Það þarf varla að taka fram hversu gríðarlega sterkt það væri að ná 6 stiga forystu á City áður en jólatörnin hefst.
Leikurinn er á morgun kl. 13.30 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2. Dómari verður Martin Atkinson. Ég verð í útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu 97.7 á eftir kl 12.45 þar sem ég og City-maðurinn Magnús Ingvason munum ræða um leikinn við þá Elvar Geir og Tómas Þór. Hvet menn til þess að hlusta á það.
Vert er að minnast á að við hverjum menn til að nota hashtaggið #djöflarnir á Twitter yfir leiknum. Undanfarið hefur skapast ágætis umræða á Twitter yfir leikjunum og vonandi að fleiri bætist í hópinn.
Sveinbjorn says
Props á Tryggva fyrir góða upphitun,
er handviss um að United vinni þetta, það er einfaldlega
kominn tími til þess og held að leikmennirnir séu orðnir
pirraðir á því að tapa gegn City, Ferguson er reynslunni ríkari
eftir síðustu leiki liðanna og verður örugglega með eitthvað gott
í pokahorninu sínu.
Mín spá, 3-1 fyrir okkur eftir skemmtilegan og spennandi leik.
Ari says
Ef að við vinnum þá verður það ljótur sigur, en sigur samt sem áður. Miðaða við siðustu framistöður Anderson þá hefði hann verið fyrsti kostur á miðjuna. En hann er ekki í boði i þessum leik. Ég vill alls ekki sja Giggs byrja. Annars er ekki möguleiki að stilla þessu upp héðan séð
Siggi Elli says
Glæsileg upphitun. Er buin ad kvíða fyrir þessum leik alla vikuna. Mín spá er sama og þín 1-1 persie potar honum inn á 92 mín.
Þorsteinn Helgi says
Góð upphitun en ég held að þar sem Scholes spilaði í vikuni, reyndar ekki nema 45 min að hann byrji ekki og ashley young komi inn í liðið í staðin. Hann verði með Welbeck og Young á köntunum.
Pétur says
Þar sem besti kantarinn okkar er meiddur vil ég sjá líka sjá tígulmiðjuna, við þurfum örugglega að stilla upp carrrick og scholes þó ég hefði helst vilja sjá bara annan þeirra byrja með 2 hlaupavélum.
Flott byrjunarlið í upphituninni hjá þér Tryggvi, held að Chicarito sé einfaldlega bestur þegar hann kemur af bekknum og það eru yfirgnæfandi likur a þvi að hann komi inn fyrir Welbeck. Þá sérstaklega ef við lendum undir.
Óskar Ragnarsson says
Það er leiðinlegt að Anderson er meiddur. Hann hefði verið maðurinn þarna með Carrick og Fletcher. Þeir tveir verða að byrja þennan leik til að eiga eitthvað í miðjunna hjá City, og hafandi Scholes þarna með þeim gerir þetta svakalega þunglamalega miðju. Anderson hefur verið að spila frábærlega undanfarið og það fylgir honum mikill kraftur. En fyrst hann er ekki til staðar þá held ég að þessi uppstilling sem þú ert með sé málið. Hugsanlega Herndandez fyrir Welbeck, en það er þó alveg spurning. Rooney verður að eiga algjöran toppleik til að það gerist eitthvað í sóknarleik okkar.
Egill Guðjohnsen says
Ég hef það á tilfiningunni að Jones muni vera á miðjunni til að fá smá orku og kraft á miðjunni og til að djöflast í Yaya Toure og það vona ég líka það mun ekki henta að hafa 2 hæga miðjumenn í þessum leik því City er með enga kantmenn og allir miðjumenn þeirra eru tricky og geta gert allskona hluti og þess vegna held ég að við munum spila með vængmenn þegar við munum sækja en þegar við verjumst þá eigum við að loka á miðsvæðið því allt spilið þetta fer í gegnum miðsvæðið.
Ég er sjúklega stressaður fyrir þessum leik og veit að ég er ekki sá eini og myndi glaður þiggja jafntefli en hef það á tilfiningunni að við munum taka þennan leik 1-2 en þetta mun verða virkilega erfiður og jafn leikur! #COMEONYOUREDS
Baldur Seljan says
Flott upphitun! Væri til í að sjá eftirfarandi lið:
Lindegaard
Smalling/ Da silva Rio Evans Evra
Fletcher
Carrick Rooney/Anderson
Young/Valencia Rooney/Welbeck
Persie
Verðum að hafa lið sem að er fremur hávaxið að mínu mati og getur líka barist og hlaupið úr sér lungun. Tilhlökkun í hámarki! Spái 1-2 , Evans með winner.
Björn Friðgeir says
Var að sjá samanburð á stigum liða á þessu tímabili og síðasta þar sem borin eru saman úrslit gegn sömu liðum í fyrra. Þannig er hægt að taka út áhrif leikjaröðunar.
Kemur í ljós að United er með einu stigi minna en í fyrra í sambærilegum leikjum, en City tveim stigum meira.
Ef jafntefli verður í dag verða liðin sem hnífjöfn af þessu leyti…
Sigurður Gísli says
Er ekki nóg og vel að mér á twitter en er hægt að búa til siálfvirkt-retweet fyrir þá sem nota hashtag #djoflarnir.
Svona eins og #fotbolti ?